Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

31. október 2022

Launafólk ber hlutfallslega þyngstu byrðarnar

BSRB telur grundvallaratriði að á þessum tímapunkti sé staðinn vörður um velferð.

Í umsögn BSRB um fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar fyrir árið 2023 segir að ríkisstjórnin fari þá leið að leggja jafnar byrðar á alla landsmenn, sem mun óhjákvæmilega leggjast hlutfallslega þyngst á þau sem lægstar hafa tekjurnar og þyngstu framfærslubyrðina. Staða margra atvinnugreina og fjármagnseigenda er sterk og illskiljanlegt er að ekki sé litið til þess við tekjuöflun í stað leggja frekari álög á almenning.

 

Vonbrigði að ríkisstjórnin hækki gjöld á almenning
Í umsögninni segir að skuldahlutfall ríkissjóðs sem hlutfall af vergri landsframleiðslu er samkvæmt frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2023 áætlað 33%. Er það mun hagfelldari staða en áætlað var í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar sem lögð var fram á síðari hluta árs 2020 þegar horfur voru á að hlutfallið yrði 50% á komandi ári. Líkt og fram kemur í fjárlagafrumvarpinu hefur afkoma ríkissjóðs verið að styrkjast. Tekjur hafa verið endurmetnar og eru áætlaðar 79 ma.kr. hærri en gert var ráð fyrir í fjárlögum yfirstandandi árs vegna kröftugs hagvaxtar.

Vegna þessa lýsir BSRB yfir vonbrigðum að þrátt fyrir umtalsvert lægri skuldir en gert var ráð fyrir, sem og bætta stöðu ríkissjóðs, eru helstu breytingar á tekjuöflun í frumvarpinu hækkun almennra gjalda sem leggjast hlutfallslega þyngst á þau sem eru með lægstu launin. Það er vissulega verðugt verkefni að greiða niður skuldir og lækka þar með vaxtakostnað. Það er hins vegar hægt að gera með svo mörgum öðrum útfærslum en þeim sem boðaðar eru í frumvarpinu.

 

Stuðningur við þá ríku
Þá segir í umsögninni að ekki sé að sjá að skóinn kreppi að hjá efstu lögum samfélagsins þar sem í afkomutölum þeirra fyrirtækja og ríkisstjórnin og það vekji furðu bandalagsins að ríkisstjórnin nýti ekki þá tekjuhlið fjárlega til að lækka skuldir og ná jafnvægi í rekstri ríkissjóðs, styrkja grunnþjónustu og bæta stöðu þeirra hópa sem eiga erfitt með að ná endum saman. Tekjustofna sem BSRB telur upp og eru helstir hátekjuskattar, eignaskattar, bankaskattr, hækkun fjármagnstekjuskatts og hærri hlutdeild almennings af tekjum fyrir afnot af sameiginlegum auðlindum þjóðarinnar.

Þá spyrja höfundar umsagnarinnar hvort stuðningur sé við atvinnulíf en ekki einstaklinga. Vegna COVID-19 faraldursins hafi ríkisstjórnin brugðist við með því að leggja til fé til stuðnings atvinnulífinu með myndarlegur hætti en skilið almenning eftir með reikninginn fyrir þeim björgunarpakka í fanginu í hækkandi verðlagi, minnkandi kaupmætti, vaxtahækkunum og framfræslukrísu. En nú þegar þrengir að hjá tekjulægri heimilum er tónninn annar eins og segir í umsögninni:

„Hækkunum á húsnæðiskostnaði og nauðsynjavörum á að mæta með gjaldahækkunum hins opinbera, aðhaldi í ríkisfjármálum og niðurgreiðslu skulda, ekki bara á árinu 2023 heldur næstu árin. Það skýrist einna helst af því að vaxtakostnaður vegna skulda sem stofnað var til, vegna stuðnings ríkisstjórnarinnar við m.a. atvinnulífið, er talinn vera orðinn sligandi og ber að lækka hann með aðhaldi í ríkisútgjöldum og hækkun gjalda á almenning.“

 

Bótakerfin fjársvelt
BSRB telur grundvallaratriði að á þessum tímapunkti sé staðinn vörður um velferð. Mikilvægt er að byggja upp félagslega innviði sem hafa ekki verið fullfjármagnaðir á síðustu árum og verulega hefur reynt á í heimfaraldrinum. Nú er tíminn til að efla og fjölga tekjustofnum ríkisins, styrkja almannaþjónustuna og leiðrétta tilfærslukerfin. Það ýtir undir velsæld og jöfnuð og mun skila sér í þróttmeira hagkerfi til lengri tíma. Það er nóg til. Hins vegar skortir á tæki og aðgerðir til að skipta því með sanngjörnum hætti og það gerist ekki að sjálfu sér.

BSRB leggur ríka áherslu á að breytingar verða gerðar á fjárlagafrumvarpinu sem komi til móts við þá erfiðleika sem almenningur er staddur í. Má þar nefna bótakerfin; vaxtabætur, húsnæðisbætur og barnabætur og að dregið verður úr tekjutengingum ellilífeyris og að örorkulífeyriskerfið verði endurskoðað í almannatryggingakerfinu. Einnig að bætur atvinnuleysistrygginga hækki svo þær nemi 95 prósent af lágmarkslaunum og atvinnuleysistryggingatímabílið verði aftur lengt í 36 mánuði.

Lesa má umsögn BSRB um fjárlagafrumvarpið hér.