1. nóvember 2022
Streita og mataræði tengjast nánum böndum
Geir Gunnar Markússon, næringarfræðingur NLFÍ, á málþingi Heilbrigðis- og velferðarnefndar Sameykis,
Nú síðdegis stóð Heilbrigðis- og velferðarnefnd Sameykis fyrir málþingi þar sem umræðuefnið var kulnun á vinnumarkaði. Málþingið var vel sótt og rúmlega hundrað félagar í Sameyki lögðu leið sína í félagamiðstöðina á Grettisgötu 89 til að hlýða á erindi. Því var einnig streymt á Facebook; samfélagsmiðli Sameykis.
Ólafía Lilja Sævarsdóttir, formaður Heilbrigðis- og velferðarnefndar Sameykis setti málþingið og bauð gesti velkomna.
Leggur ekkert inn, tekur bara út
Ragnhildur Þórðardóttir, sálfræðingur og þjálfari, betur þekkt sem Ragga nagli, kom fram í streymi á Facebook-síðu Sameykis og sagði að hún hefði ekki skilið muninn á stressi og kulnun þegar hún var yngri, áður en hún fór að kynna sér fyrirbærið. „Fólk kvartaði yfir stressi og sagðist ekki geta mætt í vinnuna. Ég hugsaði þá: Nú, er hann sem sagt bara aumingi?“ sagði Ragnhildur og benti jafnframt á að sem betur fer hefði samfélagið lært að þekkja að til er streita og kulnun. Hún fjallaði um líkamlegan þátt streitunnar og hvernig hún birtist í skrokknum.
Hún sagði að langvarandi streita sem ekki væri brugðist við lýsti sér þannig að líkaminn brygðist við streitunni með því að keyra upp kortisól og adrenalínframleiðslu, sem aftur hefði þau áhrif að boðefnabúskapur líkamans færi úr jafnvægi. Fólk færi að glíma við svefnvandamál, exem og ofnæmi, kynhvöt minnkaði vegna þess að líkaminn sparaði orku, og sveiflur kæmu fram í þyngdaraukningu. Aukin fitusöfnun á líkamanum og á kvið eru þekkt dæmi og geta verið merki um mikla streitu. Önnur dæmi nefndi Ragga eins og vefjagigt og síþreytu.
„Einkenni streitu eru helst þau að fólk hefur ekki tíma til að sinna þeim verkefnum sem lögð eru á það. Kvíði fer að koma fram, skapsveiflur og svefntruflanir gera vart við sig, jafnvel neikvæðni. Rauð viðvörun er viðvarandi pirringur og við erum uppfull af sektarkennd og við förum að gleyma því sem við gleymdum ekki áður. Þá fara meltingartruflanir að gera vart við sig og minnstu verkefni stressa okkur,“ sagði Ragga nagli og fór hratt yfir sögu, enda undir 20 mínútna tímapressu málþingsstjóra.
Hún lýsti að þegar kulnun væri komin á alvarlegt stig kæmu fram viðvarandi svefntruflanir, ofurviðkvæmni og grátur og minnstu verkefni yrðu óyfirstíganleg. Lýsa mætti kulnun í þremur stigum; gulri viðvörun, rauðri viðvörun og fárviðri.
Ragga nagli sagði að aðrir algengir þættir í lífinu yllu streitu, svo sem álag í vinnu, neikvætt sjálfstal, kvíði og sjálfsefi, erfiður yfirmaður, fjármálaáhyggjur, félagsleg einangrun o.fl.
Hjálpleg bjargráð við þessu væru t.d. samtalsmeðferð, að efla félagsleg tengsl, stunda reglubundna göngutúra og passa upp á að segja nei við verkefnum ef fólki fyndist vera komið nóg. „Með því að segja já við auknu álagi erum við að segja nei við fjölskylduna og okkur sjálf,“ sagði Ragga nagli að lokum.
„Við erum að kósí okkur í drasl“
Geir Gunnar Markússon, næringarfræðingur hjá NLFÍ, fjallaði á málþinginu með stórskemmtilegum hætti um mataræði sem meðferð við kulnun – mátt matarins. Sagði Geir Gunnar að sér lægi mikið á hjarta og að mátturinn til að forðast kulnun fælist m.a. í betra mataræði.
„Við læknum ekki kulnun með því að borða bara epli. Því miður borðum við oft meiri lyf en mat og hreyfingarleysi er ótrúlega mikið hjá okkur. Börnin mín, við erum undir gríðarlega mikilli streitu í nútímasamfélagi. Fólk er líka að kulna heima vegna álags, samskiptin eru jafnvel erfið, veikindi eru heima fyrir o.þ.h. Nútímasamfélagið hjálpar okkur ekki í þessu og því verðum við að læra að taka ábyrgðina sjálf. Ég myndi ekki gefa fólki það að borða af 70 prósentum þess sem í boði er í stórmörkuðum. Við lifum alltof mikið á næringarsnauðum mat,“ sagði Geir Gunnar.
Bætti hann við að fólk reyndi að hugga sig of mikið með kósíheitum og ofgnótt matar. Það ylli streitu og streita kallaði á meira kósí og meiri óhollan mat.
Harðlífi og niðurgangur á víxl
„Fólk í kulnun borðar mjög óreglulega og sækir í sætt; kex og sætindi, einnig í fituríkan mat og þegar fólk er komið á þennan stað fer það beint í matarkúrinn og lofar sér að breyta mataræðinu. Allt þetta hefur gríðarlega mikil áhrif á meltinguna og það fer að glíma við harðlífi og svo niðurgang þar sem melting og hægðir fara úr jafnvægi. Fólk þarf að fara að borða meira af ávöxtum, grænmeti og grófkorni og athugið, við þurfum ekki að dauðhreinsa öll matvæli því smá mold á grænmeti sem fólk ræktar út í garði er bara holl og góð fyrir þarmaflóruna. Reynið, börnin mín, að borða heilnæma fæðu, ávexti í stað hvíts sykurs. Viljið þið gera það fyrir mig börnin mín, að hætta að drekka Pepsí Max,“ bað Geir Gunnar fundargesti að lokum af mikilli einlægni.
Kulnun er starfstengt fyrirbæri
Líney Árnadóttir, sérfræðingur á forvarnasviði hjá Virk starfsendurhæfingu, sagði að hugtakið kulnun ætti ekki að nota í öðrum tilfellum en sem tengdust vinnumarkaðnum því kulnun væri tengd vinnuálagi.
„Þættir eins og sjálfræði í starfi skipta miklu máli, hvernig verkin eru unnin og hvernig skipulagið er á vinnustaðnum. Fólk þarf virkilega á félagslegum stuðningi að halda í vinnunni og það drífur einstaklinginn áfram. Þannig finnur fólk tilgang. Ef þetta er ekki í lagi á vinnustaðnum hefur það áhrif til þróunar á kulnun. Ef eitrað andrúmsloft er í samskiptum á vinnustaðnum skiptir það mestu máli um hvort kulnun eigi sér stað samkvæmt rannsóknum á vinnumarkaðnum. Eitruð vinnumenning, svona innan gæsalappa, því ég vil ekki vera of harðorð, er undirrót kulnunar á vinnustað. Einkennandi þættir sem má telja upp vegna kulnunar eru: Starfsfólk er ekki metið að verðleikum, starfsfólk er smánað og framkoma við það er óréttlát, unnið er gegn starfsfólki og grafið undan því og ef stjórnandi er ósanngjarn og beitir valdi og óviðeigandi hegðun.“
„Ekki hægt að jóga sig frá kulnun“
Líney benti á að ekki væri hægt að „jóga sig“ frá kulnun ef vandinn lægi hjá vinnustaðnum og í því sambandi væri áhrifaríkast að breyta vinnustaðnum.
„Það sem við þurfum að gera er að horfa á vinnustaðinn. Í kringum stjórnendur vinnustaða er starfsfólkið og saman gæti vinnustaðurinn ákveðið að vera streitufrír vinnustaður. Það er ákvörðun. Á streitufríum vinnustað líður fólki vel, afköstin verða meiri og vinnustaðurinn blómstrar. Stjórnendur þurfa að huga að því hvað þeir geti gert til að gera vinnustaðinn streitufrían til að forðast kulnun í starfi.“
Hún benti á að í verkahring stjórnenda á vinnustað væri að skapa traust og félagslegt öryggi því þeir hefðu áhrif og þyrftu að sýna starfsfólkinu áhuga. Þannig gæti vinnustaðurinn unnið sig frá streitu í velsæld.
„Vinnustaðurinn og stjórnandi hans þurfa að spyrja sig heiðarlegra spurninga um hvernig starfsfólkinu líður. Þetta eru samviskuspurningar sem varða hvern og einn starfsmann. Stjórnendur þurfa að spyrja sig einlægrar og heiðarlegrar spurningar um hvort þeir standi með starfsfólkinu eða ekki, og hvort þeir séu jafnvel í samkeppni við sitt eigið starfsfólk á vinnustaðnum,“ sagði Líney að lokum.
Hægt er að horfa á málþingið hér fyrir neðan.