Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

14. nóvember 2022

Opið fyrir umsóknir í Genfarskólann 2023

Nemendur ásamt kennurum Genfarskólans í sumar sl.

Virkt félagsfólk í aðildarfélögum BSRB sem hafa áhuga á að læra meira um alþjóðamál verkalýðshreyfingarinnar getur sótt um að komast í nám í Norræna lýðháskólanum í Genf, Genfarskólanum. Umsóknarfrestur er til 15. desember.

Norræni Lýðháskólinn í Genf, Genfarskólinn, er ætlaður virku félagsdólki í stéttarfélögum. Gert er ráð fyrir því að umsækjendur hafi áhuga á alþjóðamálum verkalýðshreyfingarinnar. Æskilegt er að það hafi sótt fræðslustarf verkalýðshreyfingarinnar og þekki til starfsemi stéttarfélaga og heildarsamtaka þeirra hér á landi. Aðild að Genfarskólanum eiga MFA-samböndin í Svíþjóð, Noregi, Danmörku, Finnlandi og Íslandi. Skólinn er haldinn samhliða Alþjóðavinnumálaþinginu í Genf og dregur hann nafn sitt af því. Nemendur kynnast þinghaldinu og Alþjóðavinnumálastofnuninni ILO. Stofnunin starfar að vinnumálum á vegum Sameinuðu þjóðanna. Fulltrúar á ILO-þinginu eru frá stjórnvöldum, atvinnurekendum og samtökum launafólks um allan heim. Þátttakendur kynnast norrænu samstarfi á vettvangi ILO og geta kynnt sér ýmis alþjóðasamtök verkalýðshreyfingarinnar sem starfa í tengslum við ILO.

Námið fer fram í formi fjarnáms, fyrirlestra, hópastarfs og þátttakendur fylgjast með fundum þings ILO og nefndarstarfi þess. Nauðsynlegt er að umsækjandi hafi gott vald á einu Norðurlandamáli og hafi auk þess góða enskukunnáttu.

Námið fer fram í þremur lotum:
Fornámskeið: 20.-23. apríl, Runö í Svíþjóð
Fjarnám og fundir í apríl og maí
Aðalnámskeið: 1.-18. júní í Genf í Sviss

Íslensku þátttakendurnir á Genfarskólanum hafa verið tveir undanfarin ár. Þeir hafa sótt fundi hér á landi, sem haldnir hafa verið til undirbúnings þátttöku í skólanum. Kynningarfundir verða haldnir í byrjun mars 2023.

Á kynningarfundunum munu þátttakendur m.a. hitta fulltrúa Íslands sem sækja ILO þingið, ásamt þátttakendum síðasta árs.

Námskeiðsgjöld, gisting og flugfargjöld eru greidd fyrir einn þátttakanda, hjá hvorum samtökum fyrir sig (ASÍ og BSRB). Ekki eru greiddir dagpeningar meðan á dvölinni stendur en greiddur er út styrkur til að mæta kostnaði þátttakenda.

Umsóknarfrestur er til 15. desember. Nánari upplýsingar má finna á vef Genfarskólans.

Sjá grein Stefaníu Jónu Níelsen þátttakanda á síðasta ári um Genfarskólann hér.

Hægt er að sækja um þátttöku í skólanum hér.