Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

7. desember 2022

Sjálfstæðismenn með frumvarp sem stórskaðar verkalýðsfélögin

„Sjálfstæðismenn hika ekki við að koma fram með frumvarp til laga sem myndi stórskaða verkalýðsfélögin.“

Sigurður Pétursson, sagnfræðingur, segir í grein í nýútkomnu Tímariti Sameykis, að Sjálfstæðismenn hika ekki við að koma fram með frumvarp til laga sem myndi stórskaða verkalýðsfélögin og vísar í nýlegt þingmannafrumvarp Sjálfstæðisflokksins.

„Gleymum ekki að viðspyrna auðvaldsins er sterk. Stjórnmálaflokkar, fjölmiðlar og fleiri áhrifaöfl styðja atvinnurekendur. Sjálfstæðismenn hika ekki við að koma fram með frumvarp til laga sem myndi stórskaða verkalýðsfélögin. Í nafni frelsis skal samtakaréttur almennings skertur. Réttur vinnandi fólks og frelsi skal fórnað á altari fyrirtækja og auðmanna.“

Hann segir að félagshyggjuflokkarnir, vinstri öflin, hafi ekki barist fyrir velferðarsamfélagið heldur rutt brautina fyrir nýfrjálshyggjuna eftir 1980. Þá hafi félagshyggjan ekki náð að koma saman samfélagssáttmála með nýrri stjórnarskrá og réttlátara kvótakerfi í sjávarútvegi. Nýfrjálshyggjan hóf að einkavæða innviði velferðarsamfélagsins sem náði hámarki en endaði með bankahruninu 2008.

„Bakslagið kom með kreppu velferðarkerfanna og þar erum við enn. Verkalýðshreyfingin og stjórnmálaflokkar hennar tóku á sig ábyrgðina á rekstri samfélagsins. Í stað þess að berjast fyrir breyttum valdahlutföllum tóku vinstri öflin að sér að skera niður velferðina. Þannig var brautin rudd fyrir framgang nýfrjálshyggjunnar. Með alþjóðaauðmagnið sem bakhjarl náðu hægri öflin undirtökum í efnahags- og stjórnmálum eftir 1980.

Niðurskurður velferðarkerfa þýðir minni almannaréttur. Auðhyggjan felldi burt lög og reglur sem vernduðu almenning, reglur um vinnuvernd, eftirlit, vinnumarkað og starfsemi verkalýðsfélaga. Sala almannafyrirtækja svo sem samgöngufyrirtækja, símafyrirtækja, raforkuvera, vatnsveitna, heilbrigðisþjónustu og menntunar breytti valdahlutföllum samfélagsins fjármagnseigendum í hag. Þessi þróun náði hámarki á fyrsta áratug nýrrar aldar, en endaði í hruni fjármagnsmarkaða og banka árið 2008. Ísland var þar fremst í flokki, flaug hæst og hrapaði mest.“

Sjá grein: Öld auðhyggju eða samhyggju? Staða verkalýðshreyfingarinnar á 21. öld