Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

7. desember 2022

Þróun fjölda opinberra starfsmanna stendur í stað

Árið 2021 voru opinberir starfsmenn 28,2 prósent af starfandi sem er sama hlutfall og árið 2020 og svipað hlutfall og árið 2014.

Á vef Fjármála- og efnahagsráðuneytisins, opinberumsvif.is, koma fram upplýsingar um þróun á starfsmannahaldi ríkisins á undanförnum árum. Þar má meðal annars sjá að launakostnaður sem hlutfall af heildarútgjöldum hefur verið í kring um 31 prósent á undanförnum árum, var 32,8 prósent árið 2019 og stendur nú í 31,8 prósent miðað við árið 2021. Sérstaka athygli vekur að hlutfallslega hefur opinberum starfsmönnum ekki fjölgað. Árið 2021 voru opinberir starfsmenn 28,2 prósent af starfandi sem er sama hlutfall og árið 2020 og svipað hlutfall og árið 2014.

Tekið er fram að flest launafólk hjá ríkinu vinni í velferðar-, mennta- og heilbrigðiskerfinu. Það er að segja í þeim kerfum sem tryggja að samfélagið veiti þjóðinni öryggi, velferð og þekkingu og þar með forsendur fyrir kröftugu atvinnulífi. Það hefur margoft komið fram að okkar fámenna þjóð vill traustan samfélagslegan rekstur og í þeirri framþróun sem samfélagið hefur verið í á undanförnum árum vekur það sérstaka athygli að hlutfall starfsfólks hjá hinu opinbera stendur í stað. Sagan þar að baki er eflaust sú að álag í opinberum störfum hefur stóraukist og á sama tíma hefur starfsmönnum tekist að endurskipuleggja vinnubrögð og verkferla.

Í umræðu um starfsmenn og rekstur í okkar mikilvægustu samfélagslegu stoðum, er æskilegt að halda til haga staðreyndum. Við höfum núna aðgang að vel framsettum upplýsingum og það er ekki til of mikils mælst að gera þá kröfu að umræðan taki mið af bestu þekkingu á hverjum tíma.