Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

13. desember 2022

Byrði umönnunarbilsins frá 12 mánaða til 12 ára

Maya Staub segir vinnufyrirkomulag og kröfur vinnustaða samræmast oft illa fjölskyldulífi og þeirri ábyrgð sem fylgir umönnun og þátttöku í lífi barna.

„Fjölskylduvæn stefnumótun stjórnvalda hefur áhrif á hvernig pör deila ábyrgð á heimili og barnauppeldi. Þeim kynjaða veruleika sem hér ríkir, og gerir að verkum að fjölskylduábyrgð kvenna er ríkari en karla ...“

Eftir Mayu Staub

Á dögunum hlaut Varða – rannsóknarstofnun vinnumarkaðarins styrk úr Vísindasjóði Orkuveitu Reykjavíkur, VOR, til að framkvæma rannsókn á stöðu foreldra á Íslandi með tilliti til möguleika þeirra til að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf út frá skipulagi vinnu og skólastarfs.

Fjárskortur kemur í veg fyrir nýtingu á þjónustu frístundaheimila
Það fylgja því áskoranir að samræma atvinnu- og fjölskyldulíf, ekki síst þegar börn eru á heimilinu. Vinnufyrirkomulag og kröfur vinnustaða samræmast oft illa fjölskyldulífi og þeirri ábyrgð sem fylgir umönnun og þátttöku í lífi barna. Sérstaklega geta skapast erfiðleikar þegar fólk hefur yfir takmörkuðum sveigjanleika að ráða í störfum sínum en þarf engu að síður að mæta ósveigjanlegri dagskrá leik- og grunnskólastarfsins auk annarra þarfa barna sinna.

Aðstæður vinnandi foreldra geta verið mjög misjafnar og sama á við um sveigjanleika varðandi vinnutíma sem er einna minnstur í láglaunastörfum. Þrátt fyrir að frístundaheimili bjóði upp á dvöl fyrir börn gegn nokkuð hóflegu gjaldi í samanburði við önnur úrræði, líkt og sumarnámskeið á vegum einkaaðila, er það ekki á færi allra að nýta sér slíka þjónustu. Í könnun Vörðu á stöðu launafólks í landinu nefndu 3,6% kvenna og 4,6% karla að fjárskortur síðastliðna tólf mánuði hefði komið í veg fyrir að þau gætu greitt fyrir frístundaheimili og er staðan einna verst meðal einstæðra foreldra. Könnuninni svöruðu 8768 manns.

Konur taka á sig meginhluta heimilisábyrgðarinnar samkvæmt innrættum viðhorfum
Þegar upp koma veikindi hjá börnum og þau komast ekki í skóla, þurfa foreldrar að bregðast við með því að taka sér frí frá vinnu og koma sér saman um hver verður heima að sinna barninu. Rannsóknir hafa sýnt að það foreldri sem þénar minna, sem oftar en ekki eru konur, er líklegt til að hafa lakari samningstöðu en það sem þénar meira. Fjölmargar rannsóknir benda til þess að í gagnkynhneigðum parasamböndum eyði konur að jafnaði meiri tíma en karlar í barnauppeldi og heimilisstörf. Ekki er óalgengt að pör, sem hefja sambúð, taki síendurtekið ákvarðanir sem hygla körlunum og þeirra starfsframa. Með öðrum orðum stuðla þessar kynjuðu og hefðbundnu ákvarðanir að endursköpun kynbundins valds í samböndum þar sem körlunum er til að mynda gert kleift að vinna lengri vinnudag, þróa starfsframa sinn og auka tekjur sínar, á meðan konur þeirra taka á sig meginhluta heimilisábyrgðarinnar.

Konur eiga ekki sama möguleika á starfsframa og karlar
Þrátt fyrir að Ísland komi vel út í alþjóðlegum samanburði á jafnrétti kynjanna og að hér sé ein mesta atvinnuþátttaka meðal kvenna á heimsvísu bera konur meginþungann af vinnuálagi vegna heimilisstarfa og barnauppeldis. Eina af birtingarmyndum þessa má sjá með því að skoða fjölda kvenna umfram karla sem taka á sig hlutastörf til þess að hægt sé að mæta þörfum fjölskyldunnar og heimilisins. Um 31% starfandi kvenna á Íslandi á aldrinum 25–64 ára vann hlutastörf árið 2020 en einungis 8,7% starfandi karla. Konur eru jafnframt oftar heima með veik börn, en sænsk rannsókn frá 2015 sýnir að mæður með börn á leik- og grunnskólaaldri taka að jafnaði á sig 2/3 þeirra daga sem börn þeirra eru veik heima. Slík ráðstöfun hefur áhrif á tækifæri þeirra til starfsframa.

Markmiðið að varpa ljósi á viðhorf til stöðu foreldra og kortleggja misræmi
Fjölskylduvæn stefnumótun stjórnvalda hefur áhrif á hvernig pör deila ábyrgð á heimili og barnauppeldi. Þeim kynjaða veruleika sem hér ríkir, og gerir að verkum að fjölskylduábyrgð kvenna er ríkari en karla, er meðal annars hægt að mæta með skipulagi á innviðum samfélagsins, svo sem með samræmingu réttinda launafólks til orlofs og veikinda barna og skólastarfs í landinu. Markmið Vörðu með rannsókn þessari er að varpa heildstæðu ljósi á stöðu foreldra, viðhorf þeirra til breytinga og að kortleggja það misræmi sem foreldrar standa frammi fyrir. Slík greining getur orðið grundvöllur þess að hægt sé að taka stefnumótandi ákvarðanir um skipulag skólastarfs og réttindi launafólks sem hvað best muni tryggja jafnrétti kynjanna.

Höfundur er sérfræðingur og starfandi framkvæmdastjóri hjá Vörðu – rannsóknastofnun vinnumarkaðarins.