13. desember 2022
Veiðikortið fyrir 2023 komið í sölu á Orlofshúsavefnum
Veiðimaður við veiðar í kvöldsólinni á Suðurlandi. Ljósmynd/Axel Jón
Hægt er að fara að hlakka til vorsins, þó full snemmt sé fyrir marga, því Veiðikortið fyrir næsta ár er komið í sölu inn á Orlofshúsavef Sameykis. Veiðikortið er þar fáanlegt með góðum afslætti og við sendum það heim til félaga. Veiðikortið er hagkvæmur valkostur sem hentar jafnt veiðimönnum sem fjölskyldufólki.
Með Veiðikortinu er hægt að veiða nær ótakmarkað í 37 veiðivötnum víðsvegar um landið og einnig tjalda endurgjaldslaust við mörg þeirra. Nú gefst fólki loksins kostur á að stoppa við falleg vötn, í skemmri eða lengri tíma, án þess að þurfa að eyða miklum tíma í að kaupa veiðileyfi víðs vegar um landið.
Með kortinu fylgir veglegur bæklingur og í honum eru lýsingar á veiðisvæðunum, reglur, kort og myndir. Á vefsíðu Veiðikortsins segir að Veiðikortið er ekki skráð á nafn, þannig að auðvelt er að nota það í jólagjafir.
Nánari upplýsingar um hvernig má nota kortið má finna á vef Veiðikortsins - en munið að kaupa það á Orlofshúsavefnum til að fá félagsverðið.