Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

13. desember 2022

Velsæld fyrir alla

Heiður Margrét Björnsdóttir hagfræðingur hjá BSRB. Ljósmynd/BIG

„Í frumvarpi til fjáraukalaga sem birtist nú í nóvember kemur orðið velsæld aldrei fyrir en þó er þar úthlutað 74 milljörðum króna til verkefna sem ekki voru fjármögnuð í fjárlögum yfirstandandi árs. Staðreyndirnar tala sínu máli, velsæld er ekki höfð að leiðarljósi þegar pólitískar ákvarðanir um forgangsröðun eru teknar.“

Eftir Heiði Margréti Björnsdóttur

Í Íslenskri orðabók er velsæld skilgreind sem það að lifa við góðan hag og líða vel. Skilgreiningin á hvað er góður hagur og vellíðan er í sjálfu sér afstæð og háð mati hvers og eins. Ein manneskja getur verið sátt við eitthvað sem önnur telur alls ófullnægjandi. Öll höfum við þó ákveðnar grunnþarfir, við þurfum til að mynda þak yfir höfuðið, mat og klæðnað til þess að lifa af. Til þess að dafna þarf síðan ákveðnar kjöraðstæður. Þar geta margir þættir komið til, líkt og umhverfi, stuðningur, alúð og tækifæri. Það ætti því alltaf að vera keppikefli stjórnvalda að skapa samfélag þar sem flestir lifa við kjöraðstæður svo þeir geti búið við góðan hag og liðið vel.

Til þess að tryggja velsæld samfélags þarf í fyrsta lagi að leggja áherslu á að skilgreina hvað það er sem skiptir máli, í öðru lagi að taka reglulega stöðuna á því og í þriðja lagi að bregðast við þegar frávik myndast frá þeirri stöðu. Þetta hljómar einfalt en reynist flókið í framkvæmd.

Franski hagfræðingurinn Piketty kemur einmitt inn á það í nýlegri bók sinni að val á samfélagslegum mælikvörðum er í sjálfu sér hápólitískt mál. Ekki ætti að líta á neinn einn mælikvarða sem algildan og samfélagsumræðan ætti að hverfast um með hvaða hætti við mælum og skilgreinum stöðu samfélagsins.

Hvað mælingar á tekjum varðar er lykilatriði að hætta að líta til meðaltala og heildartalna. Líta verður til stöðu mismunandi hópa.

Hagvöxtur sem mælikvarði
Í efnahags- og samfélagsumræðu síðastliðin 80 ár hefur orðræðan um hagvöxt verið allsráðandi. Hagvöxtur mælir breytingu á landsframleiðslu frá ári til árs. Gjarnan er litið til landsframleiðslu á hvern einstakling. Mælieiningin hagvöxtur segir hins vegar ekkert til um tilgang vaxtarins eða hvort hann sé hagfelldur fyrir samfélagið allt. Mælikvarðinn var þróaður af bandaríska hagfræðingnum Simon Kuznets á fjórða áratug síðustu aldar. Varð hann fljótt vinsæll og útbreiddur víða um heim enda handhægara að notast við eina tölu en margar þegar meta á stöðu hagkerfis.

Samfélagið samanstendur hins vegar af ólíku fólki í ólíkri stöðu. Við búum í heimi þar sem auðlindir eru takmarkaðar og stór hluti samfélagsins vinnur störf sem ýmist eru ólaunuð eða reiknast aðeins að takmörkuðu leyti til landsframleiðslu og þar með hagvaxtar. Kuznets áttaði sig frá upphafi á takmörkunum hagvaxtar sem mælikvarða á stöðu hagkerfis og samfélags og varð síðar einn helsti gagnrýnandi aðferðafræðinnar. Nefndi hann í því samhengi að sjaldnast mætti álykta um velferð heillar þjóðar út frá landsframleiðslu hennar.

Nýjar nálganir
Takmarkanir hagvaxtar sem allsherjarmælikvarða á stöðu samfélags og takmarkanir hagfræðikenninga til að ávarpa flækjustig raunveruleikans hafa leitt til ákalls um nýjar nálganir. Bæði fræðafólk og stjórnvöld víða um heim hafa litið til nýrra og víðari viðmiða til þess að koma betur til móts við vankanta eldri aðferða. Má þar til dæmis nefna heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna, lýðheilsuvísa, félagsvísa og mælikvarða um hagsæld og lífsgæði. Þá tala alþjóðastofnanir eins og Sameinuðu þjóðirnar, OECD og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn fyrir því að skoða stöðu samfélags með víðari linsu en hagvöxtur býður upp á. Staðan er því sú að það vantar ekki mælikvarða og aðferðir þó vissulega megi alltaf bæta gæði og tímanleika þeirra. Af hverju erum við þá föst í viðjum þess að ræða fyrst og fremst um fjárhagslegar stærðir í stað annarra viðmiða?

Pólitísk forgangsröðun, velsæld en ekki eingöngu hagvöxtur
Það sem vantar upp á er notkun þessara upplýsinga við pólitíska ákvarðanatöku. Greinargóðar upplýsingar um jafnrétti, umhverfi og stöðu einstakra hópa eiga að vega jafn þungt og fjárhagslegar upplýsingar þegar kemur að ákvarðanatöku. Ákvarðanir ættu alltaf að taka mið af samfélagslegum áhrifum og velsæld allra íbúa en ekki eingöngu fjárhagslegum áhrifum. Hér á landi eru umsvif ríkissjóðs og stefna ríkisstjórnarinnar hverju sinni bundin umgjörð sem lög um opinber fjármál skapa. Orðið velsæld kemur hvergi fyrir í þeim lögum, hið sama á raunar við um orðin íbúi eða fólk. Í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir árin 2023–2028 var lagt upp með sex velsældaráherslur sem tengdar voru inn í texta 35 málefnasviða. Þegar síðan kemur að útfærslu á fjárveitingum í frumvarpi til fjárlaga birtist orðið velsæld í tveimur málefnasviðum og í tveimur til viðbótar er talað um að halda eigi utan um tölfræði um velsæld – en það ekki tengt árangri. Í frumvarpi til fjáraukalaga sem birtist nú í nóvember kemur orðið velsæld aldrei fyrir en þó er þar úthlutað 74 milljörðum króna til verkefna sem ekki voru fjármögnuð í fjárlögum yfirstandandi árs. Staðreyndirnar tala sínu máli, velsæld er ekki höfð að leiðarljósi þegar pólitískar ákvarðanir um forgangsröðun eru teknar. Þar verðum við að gera betur ef við ætlum að leysa þær stóru samfélagslegu áskoranir sem við stöndum frammi fyrir og líta jafnframt til afleiðinga þess að ávarpa þær ávallt út frá skammtímastöðu ríkissjóðs. Viðfangsefni líkt og öldrun þjóðarinnar, loftslagsmál og geðheilbrigði bíða ekki úrlausnar þar til ríkissjóður nær jafnvægi.

Gerum betur
Ísland stendur framarlega miðað við marga samfélagslega mælikvarða og því ber að fagna. Á sama tíma verðum við að hafa metnað til að gera alltaf betur. Staðan nú er sú að gæðum er misskipt, tugir þúsunda heimila eiga erfitt með að ná endum saman, 40% tekjulægstu fjölskyldnanna eiga nánast ekki neitt, við erum ekki að ná loftslagsmarkmiðum okkar og geðheilbrigði ungs fólks hérlendis fer snarversnandi. Fögnum því sem vel er gert en gerum betur þar sem þess er þörf. Leggjum úr sér gengnar linsur til hliðar og setjum velsæld allra í fyrsta sæti.

Höfundur er hagfræðingur hjá BSRB.