19. desember 2022
Breyttir tímar
Í hugum okkar í Sameyki er ekki nokkur vafi á að það sé löngu kominn tími á leiðréttingu launa á milli markaða.
„Okkar viðsemjendur hafa mestan hag af því að leiðrétta launamuninn ekki fyrr en þeir eiga engra annarra kosta völ. Á sama tíma verðum við öll af þeim tekjum sem við hefðum annars getað haft. Það skilar sér í lægri tekjum yfir starfsævina, lægri lífeyrisgreiðslum og svo framvegis.“
Eftir Bryngeir A. Bryngeirsson
Allt í tilverunni á sinn rétta tíma. Við þekkjum það öll að við finnum gjarnan hvenær rétti tíminn er kominn fyrir miklar breytingar. Það getur verið tíminn til þess að skipta um starfsvettvang, til að stækka fjölskylduna, til þess að kaupa draumaíbúðina eða til að skrá sig í draumanámið. Að geta lesið í það hvenær rétti tíminn sé kominn er góður eiginleiki sem getur leitt okkur til mikillar gæfu og farsældar í lífinu. Yfirleitt finnum við það þegar rétta stundin rennur upp en öðru hverju þurfum við sjálf að ákveða að svo sé.
Sýnt fram á ávinning með styttingu vinnuvikunnar
Stundum er það augljóst að rétti tíminn er runninn upp. Þannig var það með vinnutímastyttinguna í síðustu samningum Sameykis og atvinnurekenda. Þegar gengið var til samninga var búið að sýna fram á ávinninginn af styttingunni með góðum og gagnlegum tilraunaverkefnum sem sýndu skýrt fram á ávinning starfsfólks og atvinnurekenda af styttingunni. Félagsfólk Sameykis var upp til hópa þeirrar skoðunar að þessi krafa ætti að vera ein af okkar helstu í þeim samningum. Í því tilfelli voru aðilar sitt hvoru megin borðsins sammála og í samningunum fæddist virkilega gagnleg kjarabót. Vissulega voru þó ákveðnir agnúar á styttingunni sem við megum alls ekki líta framhjá.
Laun milli markaða á forsendum eins
Það er þó ekki alltaf svo að báðir aðilar séu sammála um þörfina fyrir breytingar. Í hugum okkar í Sameyki er ekki nokkur vafi á að það sé löngu kominn tími á leiðréttingu launa á milli markaða. Okkar viðsemjendur eru meira að segja farnir að nálgast það ískyggilega að brenna inni á tíma. Mín tilfinning er þó sú að þeir vilji ekkert frekar gera en að draga lappirnar og bera það fyrir sig að nú sé ekki rétti tíminn til að jafna launin af því að staðan sé svo erfið. Atvinnurekendur og hagsmunasamtök í einkageiranum hafa svo viðrað þá skoðun að það væri óviðeigandi að hið opinbera væri leiðandi í launaþróun. Lesist sem svo að rétti tíminn komi aldrei til með að renna upp.
Málið er einfaldlega þannig að það er ekki endalaust hægt að leyfa hinum aðilanum að ákveða hvenær sé rétti tíminn. Okkar viðsemjendur hafa mestan hag af því að leiðrétta launamuninn ekki fyrr en þeir eiga engra annarra kosta völ. Á sama tíma verðum við öll af þeim tekjum sem við hefðum annars getað haft. Það skilar sér í lægri tekjum yfir starfsævina, lægri lífeyrisgreiðslum og svo framvegis. Það liggur því í augum uppi að hagur félagsfólks er ekki fólginn í meðvirkni gagnvart viðsemjendum sem vilja draga lappirnar.
Af stjórnarskrá og skattheimtu
Þetta gildir ekki aðeins um kjarasamninga heldur líka um aðrar veigamiklar breytingar á samfélaginu á borð við sanngjarnari skattheimtu af fjármagnstekjum og jafnvel á löngu tímabærri upptöku nýrrar stjórnarskrár. Ráðandi öfl hafa takmarkaðan áhuga á þeim breytingum sem þurfa að eiga sér stað af því að það er þeirra hagur að tefja. Látum ekki þá sem hafa ríka hagsmuni af töfinni hafa frumkvæðið í samtalinu. Við finnum það öll sem eitt að rétti tíminn er kominn.
Höfundur er forstöðumaður frístundaheimilis og situr í stjórn Sameykis stéttarfélags í almannaþjónustu.