2. janúar 2023
Jöfnun launa milli markaða forsenda kjarasamnings
Sonja Ýr Þorbergsdóttir sagði við Morgunblaðið að samkomulagið um jöfnun launa milli markaða verði klárað.
Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, sagði í viðtali í Morgunblaðinu á gamlaársdag að helsta forsenda samkomulags um skammtímasamning sé að niðurstaða náist um jöfnun launa milli markaða. Árið 2016 gerðu BSRB, BHM og KÍ samkomulag við ríkið og sveitarfélög sem fólst í því að opinberir starfsmenn gáfu eftir lífeyrisréttindi sín til jafns við lífeyrisréttindi launafólks á almennum vinnumarkaði gegn því að laun milli opinbers vinnumarkaðar og almenns vinnumarkaðar yrði jöfnuð. Launamunurinn mælist um 16,7 prósent samkvæmt Kjaratölfræðinefnd. Þennan launamun átti að leiðrétta í áföngum fyrir árið 2026 og um leiðréttingu er að ræða sem telst ekki til launahækkana samkvæmt kjarasamningum.
„Við höfum sameinast um það BSRB, BHM og KÍ að það verði að liggja fyrir niðurstaða í vinnunni varðandi jöfnun launa á milli markaða sem hefur verið í gangi frá 2016. Við leggjum ríka áherslu á að það sé klárað áður en við getum farið í kjarasamningsviðræðurnar.“
Þá sagði Sonja Ýr um undirbúning kjaraviðræðna að BSRB hafi lagt áherslu á að hafist verði handa við þau verkefni sem liggja fyrir, s.s. um styttingu vinnuvikunnar, einkum í vaktavinnu.
„Við höfum farið fram á að það verði stofnaður starfshópur aftur með svipuðum hætti og var í síðustu kjarasamningsviðræðum og vonumst til að hann fari í gang fljótlega eftir áramót.“