Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

9. janúar 2023

Nýr forvarnarvefur – VelVIRK

Herferð Virk, „Það má ekkert lengur“, um kynferðislega áreitni á vinnustað.

Á nýjum vef velvirk.is sem er í umsjón forvarnarsviðs VIRK Starfsendurhæfingarsjóðs er hægt að kynna sér fjölbreytt úrræði þegar kemur að vellíðan og jafnvægi á vinnustaðnum og í lífinu sjálfu. Á vefnum er fjölbreytt fræðsluefni um vellíðan í vinnunni: um kynferðislega áreitni á vinnustað, um leiðtogann, líðan í vinnunni, samskipti á vinnustað, vinnuumhverfið, starfsþróun og fleira.

VIRK hefur að undanförnu staðið að herferðinni „Það má ekkert lengur“ sem hefur vakið fólk til umhugsunar um kynferðislega áreitni á vinnustað. Á vefnum segir að kynferðisleg áreitni sé töluvert vandamál á íslenskum vinnumarkaði og að brýnt sé að auka þekkingu og þjálfun stjórnenda þegar kemur að kynferðislegri áreitni á vinnustað – en einnig að uppræta þá meðvirkni og menningu sem gerir lítið úr og þaggar í þeim sem krefjast breytinga.

„Við þekkjum öll setninguna „Það má ekkert lengur“ og vitum fyrir hvað hún stendur. Tilgangur þessarar vitundarvakningar er að varpa ljósi á þá skekkju sem felst í slíkum hugsunarhætti og afvopna þau sem nota hann til þess að afsaka og viðhalda rótgróinni misbeitingu valds á vinnustöðum.“

Streita og kulnun á vinnustaðnum
Markmiðið með forvarnarstarfi VIRK er að styðja við starfsmenn og stjórnendur til að sporna við brotthvarfi af vinnumarkaði vegna heilsubrests.

Þá kemur fram á vefnum að sífellt fleiri virðast heltast úr lestinni vegna tímabundinna eða langvarandi veikinda. Svo virðist sem hluti af þessum veikindum sé til kominn vegna langvarandi álags bæði í starfi og einkalífi. VelVIRK síðunni er sérstaklega beint til stjórnenda og leiðtoga á vinnumarkaðnum, veita þeim gagnleg ráð og upplýsingar í mannauðsmálum í forvarnarskyni. Í því sambandi kynnir VelVIRK streitustigann sem er verkfæri sem vinnustaðir geta notað til að búa sér til sameiginlegt orðfæri um álag og streitu á vinnustaðnum og getur hann gagnast við að greina hvort streita er til staðar, hversu alvarleg hún er og til að velja leiðir til úrbóta í framhaldinu ef þarf. Stiginn er hentugt tæki til að fá skýra mynd af því hvernig streita þróast og auðveldar okkur að tala um hana. Gagnlegt getur líka verið fyrir hvern og einn að nýta stigann til að átta sig á hvar viðkomandi er staddur á streituskalanum.

 

 


Vefurinn er mjög aðgengilegur og horfa má á kynningarmyndbönd sem veita upplýsingar um þá þætti sem fjallað er um hverju sinni.