Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

11. janúar 2023

Karlmenn beiti sér gegn kynbundnu ofbeldi og áreitni

Kynferðisleg áreitni er algeng og afleiðingar hennar alvarlegri en almennt er talað og á sér mismunandi birtingarmyndir.

Bandamenn er vefsíða sem Stígamót opnuðu í desember sl. og er upplýsingasíða sem ætluð er til vitundarvakningar hjá körlum sem vilja beita sér í baráttunni gegn kynbundnu ofbeldi. Boðið er upp regluleg námskeið fyrir karlmenn á kvöldin og um helgar, og sérhönnuð námskeið fyrir vinnustaði, stofnanir og aðra afmarkaða hópa.

Á bandamenn.is segir að námskeiðið sé hugsað fyrir karla sem hafa áhuga á að taka þátt í umræðunni gegn kynbundnu ofbeldi, hvort sem þeir hafa látið til sín taka í þeirri umræðu og vitundarvakningu, en einnig fyrir þá karlmenn sem vilja hefja umræðuna. Eitt af markmiðum námskeiðsins er að skapa rými þar sem karlar fá tækifæri til að ræða þennan málaflokk með öðrum körlum sem hafa áhuga á að taka þátt í baráttunni gegn kynferðislegri áreitni og ofbeldi gegn konum.

Tilgangur með þátttöku á námskeiðinu er að fá upplýsingar um hvernig styðja má við brotaþola og skoða tengsl á milli kynjamismunar og kynjakerfisins ásamt því að skoða tengsl milli karlmennskuhugmynda og kynferðisofbeldis. Markmiðið er að veita karlmönnum dýpri skilning á mikilvægum hugtökum og kynna sér þau verkfæri sem gagnast til að berjast gegn kynbundnu ofbeldi; að skapa rými fyrir karla til að ræða þennan málaflokk og að karlar þrói saman aðferðir og aðgerðir til að ná til og virkja fleiri stráka og karla í þessari baráttu.