Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

24. janúar 2023

Fulltrúráð Sameykis mótar stefnuna

Frá fundi Fulltrúaráðs Sameykis í dag.

Þórarinn Eyfjörð lagði til á fundi Fulltrúaráðs Sameykis í dag að kosið yrði í laganefnd félagsins og ítrekaði mikilvægi og þýðingu 27. gr. í lögum Sameykis, sem kveður á um að Fulltrúaráð skuli kjósa laganefnd þegar það á við. Í framhaldi lagði hann til að tillaga um fulltrúa í laganefnd sem stjórn lagði fram yrði tekin til atkvæðagreiðslu. Tilnefnd voru af stjórn: Egill Heiðar Gíslason, Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, Egill Kristján Björnsson, Fangelsismálastofnun, Helga Bryndís Kristjánsdóttir, Brúnni frístundamiðstöð, Ingibjörg Sif Sigríðardóttir, Orkuveitu Reykjavíkur og varaformaður Sameykis, Lóa Dís Másdóttir, Landhelgisgæslunni og Rut Ragnarsdóttir, Borgarbókasafni Reykjavíkur. Fulltrúaráð samþykkti einróma nýja laganefnd Sameykis.


Fulltrúaráð mótar stefnu Sameykis
Að þessu sögðu tók Ingrid Kulhman við fundarstjórn og stjórnaði umræðum í hópastarfi um stefnumótun og áherslur fyrir Sameyki á komandi árum. Stefnumótunin varðar samfélagsmál og stefnu félagsins. Spurningar sem fulltrúar fengu að glíma við voru:

1. Hvað eigum við að leggja áherslu á á næstu árum?
2. Hvernig á Sameyki að beita sér í samfélaginu?

Ingrid Kulhman.

Hún hvatti fólk til þess að skjóta ekki niður hugmyndir sem fara á flug, heldur ræða þær með opnu hugarfari og jákvæðni. Niðurstöðurnar úr hópavinnunni voru þær að móta skyldi hugmyndir, m.a. um jöfnun launa milli markaða, að má út kynbundinn launamun, að aldraðir sitji ekki eftir í kjarasamningum, að allir sem vilji geti eignast húsnæði, að standa vörð um heilbrigðiskerfið og almenningur fái þá þjónustu sem hann þarfnast, að auka baráttuna um launakröfur opinbers starfsfólks, ásamt að vekja athygli yfirvalda á og mótmæla framfærslukrísu almennings.

Fulltrúaráðið fjallaði um gildi Sameykis, fyrir hvað félagið standi, og kristallaðist í einu orði. Þær hugmyndir að orði sem fram komu verður áfram unnið með í stefnumótun Sameykis. Orð um gildi Sameykis voru m.a.: Samstaða, heilindi, samheldni, réttlæti, samvinna, mótlætisþol, styrkur, kjarabarátta, fagmennska, fjölbreytileiki, virðing, jafnrétti, afl, mannauður, sameining, kraftur, jöfnuður, áreiðanleiki og loks fjölbreytileiki.