Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

2. febrúar 2023

Samhengi stýrivaxtahækkana, verðbólgu og launaþróunar

„Afskipti seðlabankastjóra af utanlandsferðum eru þó alls ekki æskilegt tól efnahagsstjórnar, ...“

„Núverandi lífskjarakrísu verður að leysa, helst hratt og vandlega, án þess að láta einungis þá tvo hópa sem eru á lægstu launatöxtunum og með hæstu húsnæðisskuldirnar bera kostnaðinn af stríðinu við að berja niður verðbólguna.“

Eftir Ásgeir Brynjar Torfason

Síðasta ár var eitt það umbrotamesta á undanförnum áratugum á hinu efnahagslega sviði. Nokkurs konar endalok heimsfaraldurs vegna veirunnar og endurræsing hagkerfis heimsins í framhaldi af löngum hægagangi reyndi á mjög marga þætti í efnahagsvélinni.

Það hefur aldrei áður verið reynt að stöðva samtímis meira eða minna allt efnahagslíf heimsins í sinni hefðbundnu mynd, flytja hluta þess yfir í sýndarveruleika internetsins en setja hluta þess algerlega í margra mánaða stöðvun með nokkrum endurræsingartilraunum.

Sem betur fer voru til staðar tæknilausnir sem höfðu lítið notaðar en nýttust vel til að yfirtaka marga þætti í rekstri samfélagsins. Aðra þurfti að endurskipuleggja, en fyrirtæki hafa síðan fært sig hratt frá því að halda rekstrinum alveg á brún hámarkshagræðingar og hafa nú borð fyrir báru til að þola og standa af sér meiri áföll í rekstri. Margar stofnanir hins opinbera eiga eftir að gera slíkt hið sama.

 

Verðbólgustríð
Meginástæða verðbólgunnar sem fór á flug í fyrra var hins vegar ekki faraldurinn sjálfur eða efnahagslegar afleiðingar hans heldur helsti heimsviðburður ársins, innrás Pútíns í Úkraínu. Innrásin hafði þær afleiðingar að orkuverð og kostnaður hráefnis í heiminum rauk upp. Flutningskostnaður hafði farið hækkandi vegna aðfangakeðjuvandræða í endurræsingu eftir heimsfaraldur en hann hefur nú lækkað aftur í fyrra horf.

Öll möguleg vandræði í efnahagslífinu komu fram á mjög stuttum tíma þannig að verðlag rauk upp. Seðlabankar heims ruku því til, fullseint að sumra mati en of hratt og harkalega að annarra mati, með því að hækka stýrivexti sína af krafti. Slíkur samtakamáttur, nánast allra seðlabankanna næstum samtímis, hefur eiginlega aldrei áður sést í efnahagssögu heimsins.

Það að hækkanir meginvaxta gerist jafn samhæft og hratt eins og í fyrra veldur því að áhrifin af þeim til lækkunar verðbólgu verða minni. Það hefur OECD staðfest í nýjustu rannsóknum sínum. Þá hefur nýleg rannsókn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sýnt fram á með því að rýna söguleg raungögn kemur í ljós að ógnin af víxlverkun launa og verðlags er mun minni en talið hefur verið áður. Raunverulega eru laun og hækkun þeirra aðeins rétt að halda í við hækkun verðlags til að viðhalda kaupmætti en ná varla að auka hann. Þetta sýna greiningar á rauntölum síðustu áratuga.

 

Hvernig stöðvast verðbólga?
Verðbólga er, þegar öllu er á botninn hvolft, ávallt byggð á deilu um dreifingu gæða eða með öðrum orðum deilu um skiptingu kostnaðar á milli launþega, fyrirtækja og hins opinbera. Þetta er ekki einhver róttæk hugmynd af jöðrum rófs hagfræðikenninganna, heldur aðeins raunsönn greining prófessora eins og Olivier Blanchard fyrrum aðalhagfræðings Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á Twitter um hátíðirnar. Fyrrum Nóbelsverðlaunahafinn og meginstraumshagfræðingurinn Paul Krugman tók hana einnig upp í nýlegum pistli sínum í New York Times.

Þegar verðbólgan er farin af stað, þá stöðvast hún ekki fyrr en ofangreindir þrír deiluaðilar neyðast til að sætta sig við útkomuna. Ástæðurnar fyrir að verðbólgan fer af stað geta verið of öflug uppsveifla í hagkerfinu sem kallar á meira vinnuafl en fyrir hendi er og dregur þá upp laun eða hún getur verið af völdum hrávöruverðshækkana og orkuskorts sem lætur fyrirtækin hækka sitt verð – en þá vill launafólkið fá hærri laun til að bæta fyrir lækkun raunverulegra launa sinna. Þannig heldur verðbólgan áfram. Hefðbundna leiðin undanfarna áratugi, í skólabókunum hið minnsta, hefur verið að seðlabankar noti hamar stýrivaxtahækkana til að berja verðbólguna niður og keyra hagkerfið samhliða inn í samdrátt með harkalegum hætti, jafnvel með því að skapa atvinnuleysi í leiðinni.

 

Lífskjarakrísa
Hið opinbera getur haft margvísleg áhrif á verðbólguna, sem birtast þá í opinberri fjármálastefnu, skattkerfisbreytingum og áherslum í rekstri og fjárfestingu. Þannig er reynt að draga úr ofhitnun hagkerfisins með því að hægja á framkvæmdum hins opinbera. Einnig sjást nú í nágrannalöndum sértækar aðgerðir til að lækka kostnað almennings af orkunotkun eða af húsnæðislánum til að bæta upp lífskjörin sem verðbólgan og vaxtahækkanir hafa skert.

Hinn opinbera stuðning er hægt að fjármagna með skattheimtu af núverandi skattgreiðendum eða með halla á rekstri ríkissjóðs sem að í raun leggur byrðarnar á skattgreiðendur framtíðarinnar.

Oftast er niðurstöðunni um stöðvun verðbólgu samt frekar náð með því að láta seðlabankana um að pína deiluaðila til að sætta sig við einhverja tiltekna niðurstöðu svo að hækkanir á verðlagi hætti. Til þess er notað vaxtahækkunartæki sem er í raun ákaflega óskilvirk aðferð til að leysa úr deilu um dreifingu gæða, segja bæði Blanchard og Krugman. Æ fleiri hagfræðingar hafa sannfærst um þá staðreynd nú um stundir. Annars konar og betri samningaleið er á mjög margan hátt æskilegri. Samspil við skattheimtuna spilar þar stórt hlutverk en þeirri umræðu virðist óskaplega erfitt að ná í gang. Þess vegna tapa oftast þeir sem veikast standa í stríðinu við verðbólguna, líkt og í mörgum öðrum hernaðarrekstri og baráttu. Restinni af kostnaðinum er síðan frestað og hann lendir síðar á skattgreiðendum næstu kjörtímabila.

Nú í upphafi árs sjáum við víða um heim efnahagslegan samdrátt sem að líklega mun valda miklum skaða, sérstaklega á lífskjörum, til þess að berja niður verðbólguna. Raungögnin sýna okkur samt alls ekki að þeir sem hækki vextina meira en aðrir nái verðbólgunni hraðar niður. Því er óvíst að hægt verði að ná mjúkri lendingu fyrir hagkerfi heimsins nú á þessu ári. Jafnvel Financial Times birtir nú reglulega greinar um þann ómöguleika og skaðann af hörku aðgerða seðlabanka.

Rétt er að minna á að vaxtakostnaður hins opinbera hækkar verulega vegna hins hækkaða vaxtastigs. Meginvextir seðlabankanna í heiminum eru í grunninn það sem fjármögnunarkostnaður hins opinbera í hverju landi byggist á. Það eykur enn á vandann að ríkissjóðirnir koma út úr heimsfaraldri með mikið af nýjum skuldum sem hið opinbera tók á sig til að halda efnahagslífinu gangandi. Þessi staðreynd ætti að kalla á enn mildari vaxtahækkanir seðlabankanna.

Vel hugsanlegt er að hækkunartaktur verðlags og launa verði þrjú eða fjögur prósent í einhvern tíma og þá er þráhyggjukennd árátta til þess að verða að ná honum niður í tveggja prósenta tölu mögulega mun skaðlegri heldur en að sætta sig tímabundið við aðeins hærra viðmið – að því gefnu að allir þrír aðilar ofangreindrar deilu standi stöðugt saman að því að stöðva verðbólguvöxtinn.

 

Stéttabaráttan
Þeir opinberu embættismenn sem vinna við verðstöðugleika hérlendis hafa haft uppi mörg orð og harkaleg síðastliðið eitt og hálfa árið um mikilvægi þess að launakröfur verði ekki of miklar og einnig um að hið opinbera megi ekki eyða of miklu í útgjöld. Ekki er mikið sagt opinberlega um hagnað og arðsemiskörfur fyrirtækja, hvort sem þau veita fjármálaþjónustu eða selja lífsnauðsynjar til launþega. Þetta misræmi veldur áhyggjum um úrlausn deilunnar.

Ofangreindar upplýsingar, utan úr heimi, virðast ekki hafa mikil áhrif hér og lítið sést unnið úr raungögnum á íslenska markaðnum til samanburðar, hvorki af hendi opinberra stofnana eða úr umhverfi háskólanna hérlendis. Þar virðist trúin á kenningarnar og líkönin ásamt sögusögnum frá áttunda og níunda áratug síðustu aldar ráða heimsmyndinni og hinum efnahagslegu aðgerðum. Hækkanir stýrivaxta seðlabanka skerða beint lífskjör skuldsettra heimila. Það dregur lítið úr verðbólguþrýstingi og kælir ekki mikið þanið hagkerfi að láta fólk með húsnæðisskuldir berjast í bökkum og ekki ná endum saman í heimilisbókhaldinu. Reynslan síðustu fimmtán ár sýnir okkur að gjaldeyrishöft, skattkerfisbreytingar tengdar við lífskjarasamninga og ferðatakmarkanir hafa gagnast miklu betur við að bæta lífskjör 90% landsmanna og halda verðbólgu í skefjum.

Afskipti seðlabankastjóra af utanlandsferðum eru þó alls ekki æskilegt tól efnahagsstjórnar, en stofnunin sem hann stýrir hefur öll tæki og upplýsingar til að fylgjast með flæði fjármuna ríkustu 10% landsmanna úr landi. Það flæði ásamt streymi gjaldeyris fyrirtækja landsins getur mögulega haft áhrif á gengisskráningu og innflutning verðbólgu gegnum farveg gengis krónunnar. Það að fjalla um þjóðargjaldmiðilinn er síðan önnur og lengri umræða. Hér mætti samt horfa til Færeyja frekar en að endurtaka gömlu kredduna um að efnahagssveifla okkar sé önnur en sú í Evrópu. Núverandi lífskjarakrísu verður að leysa, helst hratt og vandlega, án þess að láta einungis þá tvo hópa sem eru á lægstu launatöxtunum og með hæstu húsnæðisskuldirnar bera kostnaðinn af stríðinu við að berja niður verðbólguna. Það væri svo ósanngjarnt að ekkert samfélag sem vill kenna sig við velferð og hagsæld getur látið það gerast.

Samt virðist efnahagsstefnan hérlendis fela þá ósanngirni í sér og verkfærum vaxtahækkana beitt miskunnarlaust og sem mest eða hraðast hérlendis sé horft til samanburðar á alþjóðavísu. Það að árangurinn við að ná niður verðbólgunni gangi ekkert betur hérlendis fyrir vikið virðist litlu máli skipta. Reikna má með að hækkunum lægstu launa og fjölgun þeirra heimila sem ekki ná að loka heimilisbókhaldinu ofan við núllið nú í lok mánaðar verði samt sem áður kennt um áframhaldandi íþyngjandi verðbólgu frekar en mistækri efnahagsstjórn Seðlabankans og hins opinbera.

Höfundur er doktor í fjármálum.