Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

6. febrúar 2023

Á kjarasamningsvetri

Sonja Ýr Þorbergsdóttir formaður BSRB.

Megináherslur BSRB nú í aðdraganda kjarasamningsviðræðna eru að lokið verði vinnu við jöfnun launa milli markaða, gerðar verði lagfæringar til að betrumbæta styttingu vinnuvikunnar í vaktavinnu og að leiðrétt verði vanmat á störfum kvennastétta. Það eru forsendur þess að gera megi skammtímasamning.

Eftir Sonju Ýri Þorbergsdóttur

Kjarasamningar flestra aðildarfélaga BSRB sem semja við ríki og sveitarfélögin losna þann 31. mars næstkomandi. Á sama tíma losna kjarasamningar aðildarfélaga Bandalags háskólamanna, Kennarasambands Íslands, Alþýðusambands Íslands og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga. Það felur því í sér að nær allir samningar á opinberum vinnumarkaði eru lausir um svipað leyti en saman myndar félagsfólk þessara samtaka tæplega þriðjung vinnumarkaðar. Nokkrir samningar aðildarfélaga BSRB við aðra viðsemjendur eru nú þegar lausir.

Meirihluti aðildarfélaga ASÍ hefur gert skammtímakjarasamninga í stað langtímasamninga við Samtök atvinnulífsins til 15 mánaða vegna óvissu í efnahagsmálum. Það er margt líkt með opinberum og almennum vinnumarkaði en þó er ýmislegt sem skilur að. Félagsfólk aðildarfélaga BSRB starfar að stærstum hluta í almannaþjónustunni, hefur axlað mikla ábyrgð í störfum sínum og verið undir gríðarlegu álagi í gegnum heimsfaraldurinn og eftirmál hans. Þessar aðstæður vörpuðu ljósi á mikilvægi starfsfólksins og starfanna fyrir samfélagið allt. Engu að síður eru laun á opinberum vinnumarkaði að meðaltali lægri en á almennum vinnumarkaði, sem hefur þau áhrif að of víða er skortur á starfsfólki.

Þeir kjarasamningar sem nú liggja fyrir á almennum vinnumarkaði geta því með engu móti verið stefnumarkandi fyrir okkar hópa. Þess vegna er það fagnaðarefni að aðildarfélög BSRB hafa ákveðið að taka höndum saman í komandi kjarasamningsviðræðum við ríkið og sveitarfélögin og munu einnig eiga í samstarfi við Bandalag háskólamanna og Kennarasamband Íslands. Við vitum sem er að saman erum við sterkari.

Megináherslur BSRB nú í aðdraganda kjarasamningsviðræðna eru að lokið verði vinnu við jöfnun launa milli markaða, gerðar verði lagfæringar til að betrumbæta styttingu vinnuvikunnar í vaktavinnu og að leiðrétt verði vanmat á störfum kvennastétta. Það eru forsendur þess að gera megi skammtímasamning.

 

Jöfnun launa milli markaða
Vinnan við jöfnun launa milli markaða á rætur að rekja til samkomulags sem samtök launafólks á opinberum vinnumarkaði gerðu við ríki og sveitarfélög árið 2016 um framtíðarfyrirkomulag lífeyrismála sem fól í sér jöfnun lífeyrisréttinda milli markaða. Til að svo mætti vera hækkaði framlag atvinnurekenda á almennum vinnumarkaði um 3,5% í lífeyrissjóði og þar með heildarlaunakostnaður vegna hvers starfsmanns. Vegna þess hve ólík launasetning er á almennum og opinberum vinnumarkaði var einnig samið um að farið yrði í þá vinnu að greina launamun milli almenna og opinbera vinnumarkaðarins og í kjölfarið yrði hann leiðréttur. Að meðaltali mældust laun 16,8% hærri á almennum vinnumarkaði heldur en á hinum opinbera þó hann væri mismunandi milli stétta. Unnið hefur verið að þessu verkefni um árabil en nú er komið að því að ríki og sveitarfélög efni loforð sitt. BSRB, BHM og KÍ hafa lýst því yfir að ekki verði ritað undir kjarasamninga fyrr en gengið hafi verið frá samkomulagi um umfang og útfærslu jöfnunar launa til að efna samkomulagið.

Betrumbætur á vaktavinnu
Í síðustu kjarasamningum aðildarfélaga BSRB sem gerðir voru vorið 2020 náðist tímamótaáfangi þegar samið var um styttingu vinnuvikunnar, enda um gríðarlega stórt framfaraskref að ræða fyrir launafólk, en lengd vinnuvikunnar hafði fram að þeim tíma verið óbreytt í nærri 50 ár. Það hefði ekki komið til styttingar vinnuvikunnar né 30 daga orlofs fyrir öll nema fyrir mikla baráttu og órjúfanlega samstöðu BSRB-félaga. Af því megum við vera stolt.

Með reynsluna í farteskinu leggjum við nú áherslu á nokkrar betrumbætur á vaktavinnunni. Í nóvember síðastliðnum var haldinn vinnufundur þar sem um 230 fulltrúar launafólks og launagreiðenda komu saman til að bera saman bækur varðandi Betri vinnutíma í vaktavinnu, greina hvaða lærdóm má draga af vinnutímabreytingunum og ræða hvar helstu áskoranir og tækifæri liggja. Helstu niðurstöður eru þær að mikil ánægja ríkir með aukinn frítíma og aukið jafnvægi milli vinnu og einkalífs. Sömuleiðis aukið öryggi í vinnunni, betri vinnustaðamenningu og heilsu.

Þátttakendur voru sammála um að þau helstu atriði sem brýnt væri að skoða sem fyrst væri vaktahvatinn, stórhátíðarálagið og hvernig auka mætti gagnsæi jöfnunar vinnuskila. Í framhaldinu hafa samtök launafólks og atvinnurekendur á opinberum vinnumarkaði stofnað starfshóp sem hefur það verkefni að móta tillögur að breytingum á þessum þáttum sem lið í undirbúningi kjarasamningsviðræðna.

Endurmat á virði starfa kvennastétta
Mörg telja að fullu jafnrétti sé náð hér á landi vegna þess að Ísland trónir gjarnan á toppi alþjóðlegra lista sem mæla stöðu jafnréttis meðal kvenna og karla. Ef við skoðum hins vegar stöðuna út frá einstaka þáttum birtist okkur önnur mynd. Í nýlegum samanburði Efnahags- og framfarastofnunarinnar OECD má sjá að launamunur kynjanna er meiri á Íslandi en sem nemur meðaltali OECD-ríkjanna allra. Þannig er Ísland í 26. sæti á lista yfir 38 lönd.

Íslenskar og norrænar rannsóknir sýna að kynskiptur vinnumarkaður er ein helsta skýringin á launamun kynjanna. Í því felst meðal annars að konur og karlar gegna ólíkum störfum á vinnumarkaði og kynjaskipting milli starfsgreina er áberandi. Konur eru í miklum meirihluta starfsfólks á opinberum vinnumarkaði líkt og í heilbrigðisþjónustu, félagsþjónustu og menntakerfinu. Rannsókn Hagstofunnar sýnir að laun eru að meðaltali lægri í stéttum þar sem konur eru í meirihluta og bent er á að launamyndun á opinberum vinnumarkaði er ólík því sem er á almennum vinnumarkaði. Þetta hefur verið vitað í lengri tíma án þess að gripið hafi verið til markvissra aðgerða. Það er líkt og samfélagið telji sjálfsagt að konur haldi uppi velferðinni á afsláttarkjörum.

Það er því fagnaðarefni að stjórnvöld hafi lýst yfir, í tengslum við gerð kjarasamninga aðildarfélaga BSRB og ríkis og sveitarfélaga í mars 2020, að skipaður yrði starfshópur sem hefur nú skilað tillögum sínum að aðgerðum til að útrýma launamun sem stafar af kynskiptum vinnumarkaði. Yfirlýsingin er mikilvæg fyrir þær sakir að ríkisstjórnin viðurkennir vanmat á virði kvennastarfa og lagt er upp með aðgerðir til að leiðrétta það. Um þessar mundir er starfandi aðgerðahópur um launajafnrétti sem skipaður var af forsætisráðherra og hefur það hlutverk að byggja upp þekkingu, prófa sig áfram í nýjum leiðum að virðismati og búa til verkfæri til að leiðrétta skakkt verðmætamat kvennastarfa. Á niðurstöðum þessarar vinnu munum við svo byggja kröfur okkar um leiðréttingu á vanmati á störfum kvennastétta.

Meginverkefni BSRB og aðildarfélaganna 19 er að semja um laun og kjör sem tryggja fólki öryggi og kaupmáttaraukningu. Við höfum þó líka verið í forystu þegar kemur að málefnum eins og styttingu vinnuvikunnar og leiðréttingu á kjörum kvennastétta. Við megum vera stolt af að tilheyra bandalagi þar sem við stöndum þétt saman og gerum framsæknar kröfur sem leiða til varanlegra breytinga á vinnumarkaði og í samfélaginu. Í komandi kjaraviðræðum munum við halda áfram að vinna í þeim anda með áherslu á aukinn kaupmátt, farsæla framkvæmd styttri vinnuviku og markviss skref til að tryggja launajafnrétti milli kynjanna og markaða.

Höfundur er formaður BSRB.