Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

7. febrúar 2023

Verk að vinna

Þórarinn Eyfjörð, formaður Sameykis. Ljósmynd/BIG

Stórir hópar launafólks hafa fundið fyrir kaupmáttarskerðingu vegna stýrivaxtahækkana og aukinnar verðbólgu. Það er á ábyrgð okkar að berjast gegn kaupmáttarskerðingu launafólks sem er til komin vegna ákvarðana stjórnvalda og Seðlabanka Íslands.

Leiðaragrein eftir Þórarin Eyfjörð, formann Sameykis.

 

Kæru félagar.

Í upphafi árs getur verið skynsamlegt að horfa fram á veginn og reyna að sjá hvað framtíðin getur borið í skauti sér, en líta líka yfir nýliðið ár og draga einhvern lærdóm af atburðum þess. Fyrst og fremst eru það kjarasamningsviðræður við fjölbreyttan hóp viðsemjenda sem nú eru brýnustu verkefnin og þar eru ríki og Reykjavíkurborg okkar stærstu viðsemjendur. Þegar þetta er skrifað þá er enn ekki búið að setja neinn ramma utan um viðræðurnar, en fyrir liggja tvö stór verkefni sem eru undanfari og forsenda kjarasamninga við þessa tvo stærstu viðsemjendur Sameykis; jöfnun launa milli markaða og bætt tilhögun á Betri vinnutíma með sérstakri áherslu á vaktavinnukerfin.

Á síðasta ári var lagður enn meiri þungi í jöfnun launa milli markaða. Þar stóðu BSRB, KÍ og BHM þétt saman og Sameyki studdi af öllum mætti það mikilvæga verkefni. Reglulegur taktur komst á samtalið milli aðila og ríkið, Reykjavíkurborg og sveitarfélög hafa sýnt vilja til að virkja samkomulagið frá 2016 um jöfnun launa milli markaða, en betur má ef duga skal. Við sjáum ekki til lands í verkefninu enn sem komið er, en það hefur komið skýrt fram meðal heildarsamtaka launafólks á opinberum vinnumarkaði að ríki, Reykjavíkurborg og sveitarfélögunum verði ekki gefinn neinn afsláttur í verkefninu. Samkomulagið hefur verið efnt af hálfu opinbers starfsfólks með því að jafna lífeyrisaldur milli vinnumarkaða, en unnið er að því hörðum höndum okkar megin frá að ríki, Reykjavíkurborg og sveitarfélög standi við gerðan samning og jafni launamuninn.

Stórir hópar launafólks hafa fundið fyrir kaupmáttarskerðingu vegna stýrivaxtahækkana og aukinnar verðbólgu. Það er á ábyrgð okkar að berjast gegn kaupmáttarskerðingu launafólks sem er til komin vegna ákvarðana stjórnvalda og Seðlabanka Íslands. Við erum ekki sátt við þá umræðu að launafólk beri ábyrgð á hagstjórn landsins á meðan fjármagnseigendur og auðstéttin eru á einhverjum sérstökum vinaafslætti við rekstur samfélagsins og í tekjuöflun fyrir ríkissjóð og sveitarfélög. Verð á nauðsynjavöru og þjónustu er velt áfram beint út í verðlagið, þrátt fyrir myndarlegan hagnað stórfyrirtækja, sem geta samviskulaust hækkað sína vöru á reglulausum markaði, og nú um áramótin lét ríkið ekki sitt eftir liggja. Formúlan hjá núverandi stjórnvöldum er að stórhækka gjöld og krónutöluskatta á almenning á sama tíma og ævintýralegur hagnaður forréttindahópanna skilar einhverju kuski til samfélagsins af gjafaaðgangi að sameiginlegum auðlindum þjóðarinnar.

Sameyki hefur fjallað um og birt greinar í fjölmiðlum um stöðu opinbers starfsfólks og lagt áherslu á að verja réttindi og bæta kjör þeirra. Sameyki mun halda því áfram – að veita stjórnvöldum nauðsynlegt aðhald því stéttarfélög í landinu eru grasrót almennings og rödd launafólks þarf að heyrast í gegnum þau. Sú rödd má ekki þagna á vettvangi kjaramála, baráttu fyrir betra lífi og betra samfélagi.

Á fundum með félagsfólki sem haldnir voru um land allt í aðdraganda kjarasamningagerðar komu fram áherslur félagsfólks sem lögðu grunninn að kröfugerð gagnvart atvinnurekendum. Þær áherslur sem þar komu fram sneru bæði að kaupmætti, launaþróun, áherslum í betra vinnuumhverfi og styrkingu velferðarsamfélagsins. Sá tónn sem sleginn hefur verið í kjarasamningum á almenna markaðnum hefur haft áhrif á umræðuna um hvaða skref verða tekin almennt á vinnumarkaði þegar til skemmri tíma er litið. Í því sambandi skiptir máli að kjaramálin, áherslur í vinnuumhverfi og samfélagsleg umbótaverkefni verði hluti af heildarmynd. Sú mynd verður síðan að hafa skýra drætti og augljóst innihald.

Flest launafólk á samningssviði Sameykis vinnur í velferðar-, mennta- og heilbrigðiskerfinu – það er að segja í þeim kerfum sem tryggja að samfélagið veiti þjóðinni öryggi, velferð og þekkingu og þar með forsendur fyrir kröftugu atvinnulífi. Það hefur margoft komið fram að okkar fámenna þjóð vill traustan samfélagslegan rekstur og í þeirri framþróun sem samfélagið hefur verið í á undanförnum árum vekur það sérstaka athygli að hlutfall starfsfólks hjá hinu opinbera stendur í stað. Það er deginum ljósara að ábyrgð félagsfólks í Sameyki á vel virkandi gangverki samfélagsins er mikil. Tökum okkur því gott pláss í kröfunni um réttlátt velferðarsamfélag, þar sem áherslan er að allir leggi sanngjarnan skerf til samfélagsins.

Þarna er verk að vinna og við getum það með samstilltu átaki.