16. febrúar 2023
Málþing um mannauðsmál og Stofnun ársins haldið í dag
Þórarinn Eyfjörð sett málþing Sameykis, Stjórnun í breyttum heimi - áskoranr sem mæta stjórnendum og starfsfólki, í dag.
Í dag kl. 14 stendur Sameyki fyrir málþingi um mannauðsmál, Stjórnun í breyttum heimi - áskoranr sem mæta stjórnendum og starfsfólki, og í framhaldi verður hátíðin Stofnun ársins sett þar sem veittar verðar viðurkenningar þeim stofnunun sem skarað hafa framúr á sviði mannauðsmála. Málþingið er haldið á Hilton Nordica. Fyrirlesarar á málþinginu eru Haukur Ingi Jónasson, lektor í HR, sem fjallar um traust í mannlegum tengslum og samstarfi á vinnustað, Guðrún Hildur Ragnarsdóttir, fv. framkvæmdastjóri hjá Expedia Group, fjallar um fjölbreytileika og að inngilding er krafa á vinnustöðum, og að lokum fjallar Sigríður Hulda Jónsdóttir, hjá SHJ ráðgjöf um tilgang og mikilvægi starfs og færni á 21. öldinni.
Að loknum fyrirlestrum er efnt til pallborðsumræðna og rætt verður þar um mannauðsmál á vinnustöðum á opinberum vinnumarkaði. Til máls taka Lóa Birna Birgisdóttir, sviðsstjóri mannauðs og starfsumhverfissviðs Reykjavíkurborgar, Aldís Magnúsdóttir sérfræðingur hjá Kjara- og mannauðssýslu ríkisins, Björgvin Víkingsson, forstjóri Ríkiskaupa og Jórunn Frímannsdóttir, forstöðumaður hjúkrunarheimilisins Droplaugarstaða.
Sameyki stéttarfélag í almannaþjónustu vill með málþinginu vekja athygli á hve mikilvægt er að stjórnendur stofnana ríkis og sveitarfélaga hugi að mannauðsmálum á vinnustöðum til að stuðla að betri vinnustað, ánægðari starfsfólki og betri þjónustu við almenning.
Stofnun ársins er nú stærri en nokkru sinni fyrr og með talsvert breyttu sniði frá fyrri árum. Stærsta breytingin er þátttaka Reykjavíkurborgar sem nú tekur þátt fyrir allt sitt starfsfólk.
Hægt er að fylgjast með málþinginu í gegnum streymi hér.