16. febrúar 2023
Stofnanir ársins 2022
Gestir á Stofnun ársins sem haldin var í dag. Ljósmynd/Birgir Ísleifur Gunnarsson
Sameyki stéttarfélag í almannaþjónustu tilkynnti um valið á Stofnun ársins 2022 á hátíð þess fyrr í dag en titlana Stofnun ársins hljóta þær stofnanir sem þykja skara fram úr í þeim þáttum sem könnun Sameykis náði yfir að mati starfsmanna þeirra.
Stofnun ársins er nú stærri en nokkru sinni fyrr og með talsvert breyttu sniði frá fyrri árum. Stærsta breytingin er þátttaka Reykjavíkurborgar sem nú tekur þátt fyrir allt sitt starfsfólk. Niðurstöður eru í þremur flokkum þetta árið. Flokkarnir eru: ríkisstofnanir, starfsstaðir borgarinnar, sjálfseignarstofnanir og fyrirtæki í almannaþjónustu.
Líkt og á síðasta ári var Stofnun ársins framkvæmd af Gallup í nóvember og desember. Í fylgiritinu er hægt að sjá samanburð á niðurstöðum þessarar könnunnar við niðurstöður fyrirtækja á almennum markaði þar sem VR framkvæmir sambærilega könnun, Fyrirtæki ársins.
Könnunin var unnin í samstarfi við Fjármála- og efnahagsráðuneytið, Reykjavíkurborg og fjölmargar aðrar stofnanir og gefur mikilvægar upplýsingar um stöðu starfsfólks á opinbera vinnumarkaðnum. Í henni eru þátttakendur spurðir út í níu þætti í starfsumhverfinu þ.e. stjórnun, starfsanda, launakjör, vinnuskilyrði, sveigjanleika vinnu, sjálfstæði í starfi, ímynd, ánægju og stolt, og jafnrétti. Markmiðið með að velja fyrirmyndarstofnanir er að hvetja stjórnendur stofnana til að huga að mannauðsmálum og auka umræðu um aðbúnað og líðan starfsfólks á vinnustöðum.
Eftirfarandi stofnanir hljóta titilinn Stofnun ársins en þeim er skipt niður eftir stærð stofnana.
Ríki
Fjölbrautaskóli Suðurnesja (stór stofnun)
Menntaskólinn á Egilsstöðum (meðal stór stofnun)
Framhaldsskólinn í Vestmannaeyjum (lítil stofnun)
Reykjavíkurborg
Frístundamiðstöðin Tjörnin (stór starfsstaður)
Hitt Húsið (meðalstór starfsstaður)
Sambýli Viðarrimi (lítill starfsstaður)
Sjálfseignarstofnanir og fyrirtæki í almannaþjónustu
Heilsustofnun NLFÍ
Hástökkvari ársins 2022
Menntaskólinn á Ísafirði
Sameyki stéttarfélag í almannaþjónustu óskar starfsfólki og stjórnendum Stofnana ársins, Fyrirmyndarstofnana og Hástökkvara innilega til hamingju með glæsilegan árangur.
Hægt er að skoða nánari niðurstöður úr könnuninni Stofnun ársins í fylgiriti, sjá hér. og á vef Sameykis hér.