17. febrúar 2023
Maður þarf að ávinna sér traust
Haukur Ingi Jónasson, lektor í HR. Ljósmynd/Birgir Ísleifur Gunnarsson
Haukur Ingi Jónasson, lektor í HR, sem fjallaði um traust í mannlegum tengslum og samstarfi á vinnustað á málþingi Sameykis sem fram fór í gær. Sagði hann að það taki tíma að vinna sér inn, og byggja upp traust, á vinnustöðum. Byggði hann fyrirlesturinn algjörlega á tveimur gervigreindarforritum, Craiyon sem býr til ljósmyndir og Hotpot sem býr til texta, sem hann bað um að búa til fyrir sig með fyrirframgefnum forsendum út frá texta slóvenska heimspekingsins Slavoj Žižek, sem snérust um traust og skilaðu honum bæði texta og ljósmyndum fyrir fyrirlesturinn. Sagði Haukur Ingi að hann hefði ekki getað gert fyrirlesturinn betur nema með því að eyða í hann miklum tíma og fyrirhöfn. Hann sagði líflega og skemmtilega frá ýmsum aðstæðum sem varða traust á milli fólks á vinnustöðum og daglegu lífi fólks.
Haukur Ingi sagði að traust milli fólks er lykilþáttur í mannlegum tengslum og samstarfi og er lykilforsenda þess að skipulagsheild þroskist og dafni. Einnig getur traust myndast á milli einstaklinga, hópa, teyma skipulagsheilda, og á milli fólks og tæknilegra kerfa.
„Það segir sig sjálft að erfitt er að eiga í samskiptum við fólk sem maður treystir ekki. Traust þarf að ávinna og það krefst ásetnings og viðvarandi viðhalds. Traust er tilfinning fyrir því að einhver eða eitthvað muni reynast vel. Það er sú tiltrú að einstaklingur, heild, vara eða kerfi muni haga sér á tiltekinn hátt eða leiða til tiltekinnar útkomu, enda byggir traust oft á reynslu, þekkingu, eða innsæi. Þá getur það spilað stórt hlutverk í persónulegum og faglegum samskiptum, ákvarðanatöku, og almennri vellíðan.“
Haukur Ingi sagði að það taki tíma og vinnu að byggja upp traust. Með því að sýna ítrekað og endurtekið fram á heilindi og góðan ásetning þá er grunnur lagður að því að byggja upp traust hjá öðrum og koma á trausti milli aðila sem í raun góð samskipti byggja á. Hins vegar tekur stuttan tíma að glata trausti.
„Hver er forsenda þess að fólki vilji miðla þekkingu sinni til annarra og hverjar eru forsendur lærdómssamfélags á vinnustað? Hvað fær fólk til að vilja uppfæra þekkingu og færni alla starfsævina? Það er traust og traust er grunnurinn að sjálfbærni á vinnustaðnum því að sem veitir tilgang í starfi er sjálfbærni í viðhorfum, starfsemi, rekstri og störfum. Þá er traust forsenda þess að fólk vilji miðla þekkingu til annarra og fær það til að uppfæra þekkingu sína og færni alla starfsævina.“
Maður hittir annan mann sem er klæddur í leðurfrakka úti í skógi. Ljósmynd búin til af gervigreinarforriti.
Haukur Ingi sagði frá skemmtilegri sögu um traust úr eigin lífi þegar hann starfaði í New York.
„Ég var að ganga heim úr vinnunni yfir Central Park, eitthvað sem maður á ekki að gera í ljósaskiptunum. Ég var kominn langt inn í garðinn þegar sé mann koma á móti mér í skósíðum svörtum leðurfrakka og ég hugsa með sjálfum mér hvort ég geti treyst þessum manni. Mér leist ekki á holninguna á þessum manni og hugsaði að ef hann hneppti frá frakkanum sínum kæmi í ljós skurðhnífar, meitlar og sagir, og axir sem hægt væri að beita til að ganga frá mér. Ég mæti manninum og býð gott kvöld og held áfram inn í garðinn. Svo lít ég til baka og sé að hann kemur humátt á eftir mér. Þá hugsaði ég með mér, ég veit hvers fólk er megnugt, og ég veit að ég get ekki endilega treyst öðru fólki; fólk getur verið vont, fólk getur svikið og getur verið ofbeldisfullt. Ég hugsaði að ég yrði að ná einhverjum tengslum við þennan mann, því ef hann ætlar að ráðast á mig þá er betra að ná einhverjum tengslum við hann áður til að draga úr líkum á því að dagar mínir verði taldir þarna í garðinum. Ég geng á móti honum til að byggja upp tengsl, og þar sem við mætumst fer ég að ræða við hann. Í ljós kom að hann var pólskur myndhöggvari og var villtur í garðinum – rataði ekki út.
Þetta endaði með því að við gegnum saman í gegnum garðinn og borðuðum saman kvöldmat,“ og salurinn veltist um af hlátri.