23. febrúar 2023
Þingmaður Sjálfstæðisflokksins gerir lítið úr störfum opinberra stafsmanna
F.v. Guðrún Hafsteinsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksin og Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB.
Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, fór yfir staðreyndir um opinber störf, meinta fjölgun og launaþróun á vinnumarkaði með Guðrúnu Hafsteinsdóttur, þingmanni Sjálfstæðisflokksins og formanni efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis í útvarpsþættinum Sprengisandi sl. sunnudag. Tilefnið voru ummæli Guðrúnar á opnum fundi Félags atvinnurekenda um að vera opinber starfsmaður væri það versta sem gerst hefur í hennar nýja lífi. Orð Guðrúnar voru svo hljóðandi:
„Eins og ykkur er flestum kunnugt þá skipti ég um starfsvettvang fyrir um 18 mánuðum síðan og flest þekkið þið minn bakgrunn og því ætti ekki að koma ykkur á óvart að það versta við þessi nýju umskipti í mínu lífi var að verða opinber starfsmaður.”
Sonja Ýr benti verðandi dómsmálaráðherra á að hún væri að tala um starfsfólk grunnþjónustunnar, opinbera starfsmenn heilbriðgiskerfis, menntakerfis og öryggiskerfis þjóðarinnar. Þá sagði hún að henni hafi verið kennt það mjög snemma á lífleiðinni að gera ekki lítið úr störfum annarra.
„Mér var kennt það mjög snemma að maður gerir ekki lítið úr störfum annarra, maður talar ekki um þau með vanvirðingu,” sagði Sonja,
Hún sagði að langstærstu geirar hins opinbera eru heilbrigðiskerfið og menntakerfið sem skapi svo sannarlega þjóðinni verðmæti. Þá sagði hún að Guðrún taki mögulega við dómsmálaráðuneytinu en þar heyra undir fjölda stétta opinberra starfsmanna; lögreglan, fangaverðir, almannavarnir og dómskerfið og spurði Guðrúnu hvernig þessir opinberu stafsmenn eigi að skilja þessi orð verðandi ráðherra.
Guðrún las upp úr skýrslu sem Félag atvinnurekenda lét gera fyrir sig á Sprengisandi máli sínu til stuðnings, og sagði að opinberum starfsmönnum hafi fjölgað um 30 prósent á meðan starfsfólki á almennum markaði hafi aðeins fjölgað um 3 prósent. [Athugas. blm.] Þegar skýrslan er skoðuð sést hins vegar að á tímabili heimsfaraldursins dregur augljóslega úr störfum á almennum vinnumarkaði en fjölgun starfa á opinberum vinnumarkaði fjölgar – eðlilega.
Sonja Ýr sagði þessar staðhæfingar Guðrúnar fjarri lagi. „Það er bara ekki rétt að starfsmönnum hins opinbera hafi fjölgað meira en í einkageiranum. Ef við skoðum tölur Hagstofunnar hefur hlutfall launafólks sem starfar hjá hinu opinbera haldist mjög svipað eða um 30 prósent. Hátt hlutfall opinberra starfsmanna er einkennandi fyrir Norðurlöndin einfaldlega þar sem þau kenna sig við velferð. Ég hélt að það væri samfélagslegur sáttmáli um það, að eftir því sem okkur vegnar betur í þessu landi þá aukast kröfurnar okkar um þjónustu frá hinu opinbera.”
Sonja sagði að staðhæfingar Félags atvinnurekenda og Guðrúnar um að verðmæti verði eingöngu til á einkamarkaði væru fráleitar því verðmæti á einkamarkaði verði sannarlega ekki til án góðra menntastofnanna, innviða og heilbrigðisþjónustu.
„Ef við skoðum tölur Kjaratölfræðinefndar þar sem allir aðilar vinnamarkaðins og stjórnvöld sitja við borðið, tölur frá Fjármálaráðuneytinu eða Hagstofu Íslands þá sýna þær allar það sama, að það hefur ekki orðið fjölgun opinberra starfa umfram fólksfjölgun og öldrun þjóðar. Nema síður sé. Veikindafjarvera er mun meiri á opinbera vinnumarkaðnum en á almenna vinnumarkaðnum vegna þess álags sem störfin fela í sér. Í heilbrigðisþjónustunni erum við með starfsstéttir eins og sjúkraliða, hjúkrunarfræðnga og lækna sem hafa mörg hugsað sér að hætta á næstu mánuðum, og ef þau myndu einfaldlega hætta hvaða áhrif myndi það hafa á verðmætasköpunina? Þessi umræða og þessi nálgun á umræðuna er ekki að hjálpa, því þá á fólk enga von þess að það sé verið að horfa til þess að styrkja þjónustu sem er svo mikilvæg fyrir okkur öll,” sagði Sonja Ýr.
Hægt er að hlusta á þáttinn Sprengisand hér.