Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

27. febrúar 2023

Verðbólgan komin í 10,2%

Verðbólgan eykst og er nú komin í tveggja stafa tölu 10,2 prósent í fyrsta sinn síðan í september 2009.

Verðbólgan eykst og er nú komin í tveggja stafa tölu 10,2 prósent í fyrsta sinn síðan í september 2009. Verðbólga jókst milli mánaða og tólf mánaða verðbólga mælist nú 1,39 prósentustigum meiri en fyrir mánuði. Helstu áhrif á vaxandi verðbólgu samkvæmt Hagstofu Íslands er hækkandi verð á matvörum, verð á fatnaði, verð á húsgögnum og heimilisbúnaði o.fl.


Vísitala neysluverðs, miðuð við verðlag í febrúar 2023 hækkar um 1,39% frá fyrri mánuði. Vísitala neysluverðs án húsnæðis hækkar um 1,81% frá janúar 2023. Verð á mat- og drykkjarvörum hækkaði um 1,9% og verð á fötum og skóm hækkaði um 6,8%. Verð á húsgögnum, heimilisbúnaði o.fl. hækkaði um 8,7%.

Síðastliðna tólf mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 10,2% og vísitala neysluverðs án húsnæðis um 8,9%.

Seðlabankastjóri, Ásgeir Jónsson, hefur það hlutverk að tryggja verðstöðugleika. Sagði hann opnun á fundi Efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis fyrir viku að hann hefði ekki áhyggjur af skuldastöðu heimilanna og að ekkert benti til þess að þau væru komin í vanda. Þá sagðist hann ekki alveg viss hvað ætti að taka til bragðs til að ná verðbólgunni niður á fundi nefndarinnar:

„Það hefur allt lagst á eitt í að hita upp íslenskt hagkerfi og sem verður til þess að við þurfum að hækka stýrivexti meira. Og það er ekki með léttum hug sem við þurfum að hækka stýrivexti, svo það sé alveg á hreinu. [...] Ég veit ekki alveg hvað við þurfum að gera til að ná verðbólgunni niður,“ sagði Ásgeir Jónsson á fundinum.

Svo virðist sem Seðlabankastjóri sé látinn taka ábyrgðina á stjórn efnahagsmála landsins. Ríkisstjórnin virðist ekki ætla koma nærri m.a. með því að setja reglur um að fyrirtæki og þjónusta velti ekki hækkunum beint út í verðlagið sem eykur á verðbólguna. Ríkisstjórnin nýtir heldur ekki tekjustofna ríkisins til að sækja tekjur fyrir þjóðarbúið, heldur lætur launafólk bera þyngstu byrðarnar. Í því sambandi má nefna tekjuaflanir eins og bankaskatt, hvalrekaskatt, skatt á arð fyrirtækja sem nýta auðlindir í eigu þjóðarinnar, hækkun veiðigjalda sem Indriði H. Þorláksson hefur bent á í greinarskrifum sínum. Ríkisstjórnin hefur að auki skorið niður stórlega þau styrkjakerfi sem styðja við láglauna- og millitekjuhópa og ungar fjölskyldur; húsnæðisbætur og barnabætur, og hellt olíu á eldinn með því að hækka opinber gjöld á almenning eins og Heiður Margrét Björnsdóttir, hagfræðingur BSRB, benti á í grein sinni Velsæld fyrir alla.

Seðlabankastjóri er því einn á báti um þessar afleiðingar af viðbragðsleysi ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur í efnhagsmálum.