7. mars 2023
Engar trúverðulegar áætlanir í Grænbók stjórnvalda um uppbyggingu almennra íbúða
BSRB gagnrýnir að ekki komi skýrt fram í Grænbók hver meginmarkmið húsnæðisstefnunnar sé.
Í umsögn BSRB um Grænbók stjórnvalda í húsnæðis- og mannvirkjamálum kemur fram að bandalagið telji að burðarvirkið í stefnunni skuli vera að tryggja húsnæðisöryggi, fjölgun almennra íbúða, húsnæðisstuðning sem miðar að því að byrði húsnæðiskostnaðar sé ekki umfram 25 prósent af ráðstöfunartekjum og tímanlegar upplýsingar um húsnæðisöryggi sem auðvelda eftirfylgni stefnunnar og skapa grundvöll til ákvörðunar fjárveitinga til húsnæðismála. Megin athugasemdir BSRB við grænbókina felast í að stjórnvöld skapi húsnæðisöryggi á Íslandi og bregðist við þeirri alvarlegu stöðu sem launafólk er í á leigumarkaði, ásamt uppbyggingu húsnæðis í landinu.
Bandalagið gagnrýnir að ekki komi skýrt fram í Grænbók hver meginmarkmið húsnæðisstefnunnar sé. Skýra þurfi betur hvað átt er við þar sem í grænbókinni segir að markmið húsnæðistefnunnar eigi að stuðla að búsetufrelsi.
„Ekki er ljóst af framsetningunni hvort þetta séu markmið um búsetufrelsi almennt eða lúti sérstaklega að markmiðum í húsnæðis- og mannvirkjamálum. Mikilvægt er að skýra betur hver meginmarkmið húsnæðisstefnunnar eiga að vera.“
Í umsögninni segir BSRB að samkvæmt rammasamkomulagi ríkis- og sveitarfélaga um uppbyggingu húsnæðis hafi verið lagður grunnur að því að hægt sé að ná þeim markmiðum að hið opinbera eigi að stuðla að því að byggðar séu íbúðir til samræmis við þörf og að ríki og sveitarfélög þurfi að hafa sameiginlega sýn og stefnu í húsnæðismálum og vinna saman að íbúðauppbyggingu. Enn sem komið er hefur ríkið ekki staðið að því að stuðla að uppbyggingu íbúða sem er aðkallandi verkefni því á grundvelli samkomulagsins á að gera samninga við hvert og eitt sveitarfélag um uppbyggingu íbúða í samræmi við þörf. Enn sem komið er hefur aðeins einn slíkur samningur verið undirritaður, við Reykjavíkurborg.
„Ekki er ljóst af framsetningunni hvort þetta séu markmið um búsetufrelsi almennt eða lúti sérstaklega að markmiðum í húsnæðis- og mannvirkjamálum. Mikilvægt er að skýra betur hver meginmarkmið húsnæðisstefnunnar eiga að vera. Megininntak rammasamkomulagsins er að byggja þurfi um 35.000 íbúðir á næstu tíu árum og þar af um 20.000 þeirra á næstu fimm árum. Lögð er áhersla á að 30% nýrra íbúða verði á viðráðanlegu verði, sem þýðir að hið opinbera styðji fjárhagslega við uppbyggingu þeirra íbúða. Auk þess eiga 5% nýrra íbúða að vera félagslegt húsnæði á vegum sveitarfélaga. BSRB leggur ríka áherslu á að þessi áform gangi eftir enda stuðla þau að, og eru raunar forsenda þess, að tekjulægri heimili búi við húsnæðisöryggi. Á grundvelli samkomulagsins á að gera samninga við hvert og eitt sveitarfélag um uppbyggingu íbúða í samræmi við þörf. Enn sem komið er hefur aðeins einn slíkur samningur verið undirritaður, við Reykjavíkurborg.“
Þá kemur fram í umsögn BSRB að engar trúverðulegar áætlanir á uppbyggingu í búða á húsnæðismarkaði koma fram í Grænbók.
„Mikilvægt er að í húsnæðisstefnunni sé fjallað um hvenær samningar við sveitarfélögin þurfi að liggja fyrir og að upplýst verði um það reglulega hvernig gangi að uppfylla markmið samkomulagsins, þ.á.m. um fjölda íbúða, uppbyggingu íbúða á viðráðanlegu verði og hlutdeild almennra íbúða í þeirri uppbyggingu. Tillögur húsnæðishópsins voru liður í því að liðka fyrir gerð kjarasaminga en samtök launafólks hafa lagt ríka áherslu á að hið opinbera tryggi betur húsnæðisöryggi tekjulægri heimila og einstaklinga. Enn sem komið er liggja engar trúverðugar áætlanir fyrir um uppbyggingu almennra íbúða.“
Margt fleira kemur fram í umsögn BSRB, eins og gagnrýni á að stjórnvöld hafi ekki efnt loforð sem komu fram í yfirlýsingu hennar í tengslum við kjarasamninga 2019 um að stjórnvöld myndu ætla að bæta réttarstöðu leigjenda á húsnæðismarkaði fyrir lágtekjuhópa og heimila með þunga greiðslubyrði, en 60 prósent af öllu leiguhúsnæði hér á landi er leigt af einstaklingum.
Lestu umsögn BSRB um Grænbók um húsnæðis- og mannvirkjamál hér.