29. mars 2023
Aðalfundi Sameykis lokið
Þórarinn Eyfjörð, formaður Sameykis, á aðalfundi félagsins í dag. Ljósmynd/Birgir Ísleifur Gunnarsson
Aðalfundur Sameykis fór fram í dag í kjölfar Trúnaðarmannaráðsfundar. Þórarinn Eyfjörð, formaður Sameykis, setti fundinn sem er sá fimmti sem haldinn er síðan SFR og StRv sameinaðist í Sameyki stéttarfélag í almannaþjónustu.
Þórarinn flutti skýrslu stjórnar og hóf mál sitt á að því að greina frá stöðunni í kjaraviðræðunum sem nú standa yfir við ríkið.
„Formgerðin að kjarasamningunum á almenna vinnumarkaðnum við SA er eiginlega frágengin og erum við búin að ganga frá kjarasamningum við Isavia og Fríhöfnina sem félagsfólk samþykktu. Samningurinn við Rarik er nú í atkvæðagreiðslu og við fáum niðurstöður úr þeirri atkvæðagreiðslu á morgun. Kröfurnar gangvart ríki og sveitarfélögum eru vandlega útlistaðar gagnvart hverjum viðsemjanda en byggja allar á þremur meginmarkmiðunum sem eru; hækkun launa og aukinn kaupmáttur, stytting vinnuvikunnar og betri vinnutími, aukin réttindi og sveigjanleiki á vinnumarkaði, en nánar er fjallað um kjaramálin í ársskýrslunni. Við erum nokkuð bjartsýn á framhaldið í þeim stóru samningum og það er setið núna í Karphúsinu til að ná niðurstöðu með sem jákvæðustum hætti,“ sagði Þórarinn.
Þórarinn greindi frá því að félagið hafi staðið í nokkuð harkalegri baráttu með BSRB, BHM og KÍ við ríki, Reykjavíkurborg og sveitarfélögin vegna samninganna sem gerðir voru um jöfnun launa milli markaða 2016. Hann sagði að þar eygir í samkomulag um aðferðafræðina sem notuð verði til að greina hópana sem jöfnun launa milli markaða á við.
Nokkrar lagabreytingar voru samþykktar á fundinum og ber helst að nefna að Fulltrúaráð og Trúnaðarmannaráð sameinast undir Trúnaðarmannaráði. Þeir fulltrúar sem voru í Fulltrúaráði ganga þá inn í Trúnaðarmannaráð og njóta nú meiri fræðslu og upplýsinga en áður.
Gunnsteinn R. Ómarsson, skrifstofustjóri Sameykis.
Gunnsteinn R. Ómarsson, skrifstofustjóri Sameykis, fjallaði um efnahag félagsins. Sagði hann að starfsemin væri bæði fjölbreytt og mörg verkefnin færu í gegnum hendur starfsfólks á skrifstofu Sameykis. Hann sagði að efnahagur félagsins væri góður þó efnhagsumhverfið væri erfitt um þessar mundir.
„Starfsemin byggir á miklum samskiptum við félagsfólk í gegnum kjara- og réttindamál, rekstur sjóða félagsins og orlofskerfisins auk daglegs rekstrar og ýmissar útgáfu. Á skrifstofunni er haldið utan um allt félagsstarf og viðburði hjá Sameyki, s.s. fundi stjórnar Sameykis, fulltrúaráðs, trúnaðarmannaráðs, stjórna sjóða og nefnda og allra deilda innan félagsins, Stofnun ársins o.fl. Félagið er stórt og vaxandi en fjöldi félagsfólks er orðinn um 12-13 þúsund,“ sagði Gunnsteinn.
Félagslega kosin stjórn Sameykis lagði fyrir Trúnaðarmannaráðsfund fimm ályktanir til umfjöllunar sem síðan voru lagðar fyrir aðalfund Sameykis og voru þar samþykktar.
Lesa má ársskýrslu Sameykis hér.