25. apríl 2023
Tímarit Sameykis á leið til félagsfólks
Tmarit Sameykis 2. tbl. 2023.
Tímarit Sameykis fer í póst til félagsfólks á morgun miðvikudag. Rauði þráðurinn í umfjöllun tímaritsins, sem telur 48 síður, er verkalýðsbarátta fyrr og nú. Rætt er við Stefán Ólafsson, prófessor emeritus, sérfræðing hjá Eflingu stéttarfélagi, sem segir m.a. að stéttastjórnmál þurfi að komast í tísku á ný og þegar kemur að næsta kjarasamningi, þurfi verkalýðshreyfingin að fara fram saman og ná fram samstilltum krafti til að ná árangri. Í viðtalinu er farið um víðan völl og hann segist binda miklar vonir um að takist að brúa það bil sem til sundrungar kom innan verkalýðshreyfingarinnar fyrir næstu kjarasamninga.
Umfjöllun er um Baráttudag launafólks 1. maí og ávarp stéttarfélaganna í Reykjavík má lesa í tímaritinu og er forsíða tímaritsins tileinkuð deginum sem ber yfirskrift baráttudagsins að þessu sinni; réttlæti, jöfnuður, velferð. Við segjum frá aðalfundi Sameykis og ályktunum sem stjórn félagsins lagði fyrir fundinn til samþykktar. Stofnun ársins er gerð góð skil og lesa má viðtöl við Kristján Ásmundsson, skólameistara Fjölbrautaskóla Suðurnesja, og Markús H. Guðmundsson, forstöðumann Hins hússins, sem segja okkur frá því hvernig mannauðsmálum er háttað innan veggja þeirra stofnana sem þeir stýra.
Í tímaritinu er sagt frá nýjum orlofskosti Sameykis á Tenerife og uppbyggingu orlofsbyggðar félagsins á Úlfljótsvatni og endurnýjun orlofshúsanna í Húsafelli.
Sagt er frá neytendamálum og samkeppnismálum á neytendamarkaði í greinum eftir Breka Karlsson, formann Neytendasamtakanna og Auði Ölfu Björnsdóttur, sérfræðingi í umhverfis- og neytendamálum hjá ASÍ. Margrét Júlía Rafnsdóttir, verkefnastjóri Evrópuverkefna Barnaheilla, skrifar um fátækt barna hér á landi og Heiður Margrét Björnsdóttir, hagfræðingur BSRB, skrifar um þau sem ná ekki endum saman og hin sem eiga nóg. Þá skrifar Atli Þór Fanndal, framkvæmdastjóri Íslandsdeildar Transparency International, um hvernig spilling í íslensku samfélagi þrífst í skjóli valds.
Þórarinn Eyfjörð segir í leiðaragrein að rétturinn til að gera kjarasamning, og frelsið til að eiga aðgang að sterku stéttarfélagi, er einn mikilvægasti og verðmætasti réttur launafólks á vinnumarkaði. Hann segir ennfremur að sagan sýni svart á hvítu hvernig barátta launafólks hefur breytt samfélagi okkar til hins betra. Lífsgæði og sjálfsögð mannréttindi hafa ekki orðið til úr engu.
Léttmetið er svo á sínum stað; skop Halldórs Baldurssonar, Matargatið og krossgátan, ásamt stuttum fréttum af vettvangi Sameykis o.m.fl.