27. apríl 2023
Vill bæta velferðarkerfið og umbylta örorkulífeyriskerfinu
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, Félags- og vinnumálaráðherra. Ljósmynd/Birgir Ísleifur Gunnarsson
Félags- og vinnumálaráðherra, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, var gestur á fundi Trúnaðarmannaráðs Sameykis um miðjan dag í gær. Erindið hans fjallaði um stöðuna á vinnumarkaðnum en ræddi hann um stjórnmálin öðru fremur.
„Ég var búinn að gagnrýna stjórnmálamenn og ráðherra lengi en svo fékk ég tækifæri fyrir fimm árum síðan að hafa áhrif og breyta því sem ég vildi breyta. Það er einstakt að fá þetta tækifæri sem ég fæ til að vera Félag- og vinnumarkaðsráðherra sem ég vil nota til þess að bæta velferðarkerfið á Íslandi. Þar er stærsta verkefnið að umbylta örorkulífeyriskerfinu sem má segja að sé alltof flókið, stagbætt og hvatarnir eru ekki réttir í kerfinu sem eru í þá átt að fara á örorku og lífeyrisbætur í stað þess að aðstoða fólk við að komast aftur inn á vinnumarkaðinn eftir áföll, slys eða andleg veikindi. Endurskoðunin á örorkulífeyriskerfinu gengur út á þetta, að hjálpa fólki að komast aftur úr á vinnumarkaðinn að hluta til eða að fullu. Mestu skiptir að fólk geti verið þátttakendur á vinnumarkaðnum. Fyrir mér er þetta bæði stórt velferðarmál og vinnumarkaðsmál.“
Réttindalausir giggarar
Ráðherrann sagðist vilja sjá vinnumarkaðinn þróast í þá átt að hann væri opnari, með opinn faðm, og þar væri að finna fleira allskonar; fleiri tækifæri, meiri fjölbreytni, fleiri hlutastörf, fleiri sveigjanleg störf o.s.frv. Þá sagðist að hann hafi áhyggjur giggarasamfélaginu og hann hafi huga á því að vernda réttindi þess hóps.
„Annað sem ég vil nefna er þetta svokallaða gigghagkerfi eða harkhagkerfi þar sem einstaklingar vinna í verktöku. Mér þætti gaman að vita hvernig þið sjáið fyrir ykkur að ná betur utan um að vernda réttindi þess hóps. Ég hef af því talsverðar áhyggjur að það sé ekki alltaf í nægilega góðum málum,“ sagði Guðmundur Ingi.
Fjallað var um giggarasamfélagið í 4. tbl. 2021, bls. 26 í tímariti Sameykis og bent var á að stofnanir ríkisins ráða til sín giggara, oft til lengri tíma án þess að bjóða þeim ráðningarsamning og þannig geta vinnuveitendur sloppið við þá ábyrgð sem fylgir vinnusambandi. Giggarar eða gerfiverktakar njóta ekki réttinda sem verkalýðshreyfingin hefur náð fram á löngum tíma í gegnum sína baráttu því þessi hópur á ekki aðild að stéttarfélögum né þeim réttindum sem félagsfólk í stéttarfélögum njóta í gegnum aðild sína. Réttindum sem hafa skilað sér m.a. í löggjöf um vinnuvernd, almannatryggingar, orlof, fæðingarorlof, lífeyrissjóði, bætt laun, styttri vinnutíma, matar- og kaffitíma, veikindarétt, sjúkrasjóð, sumarfrí og öryggi á vinnustöðum. Vinnveitendur sem reka sína starfssemi með gerfiverktökum þurfa því ekki að taka tillit til vinnuréttar og giggararnir eru réttindalausir í slíku vinnusambandi.
Nýtt frumvarpi um atvinnuleysistryggingakerfið
Guðmundur Ingi sagði að atvinnuleysistryggingakerfið væri í endurskoðun og von sé á nýju frumvarpi í samráðsgátt um það. Þá sagði hann að í bígerð sé að stofna rannsóknarsjóð til að stunda rannsóknir á vinnumarkaðnum.
„Við vonumst til þess að geta komið nýju frumvarpi um ný lög um atvinnuleysistryggingakerfið nú í maí í samráðsgátt. Þar er verið að taka á ýmsum þeim þáttum sem að snúa að breytingum sem orðið hafa á vinnumarkaðnum á liðnum árum. Vinnuvernd er líka mikilvæg sem hluti af vinnumarkaðnum. Við erum að koma á fót rannsóknasjóði með Vinnueftirliti ríkisins til þess að stunda vinnurannsóknir sem snúa að nýsköpun og þróun í þessum málaflokki. Þær snúa t.d. að álagi í störfum, hvort sem það er líkamlegt eða andlegt. Rannsóknir Vinnueflitsins sýna að álagið er meira í þessum dæmigerðum kvennastörfum sem snúa að umönnun því þau reyna meira á fólk, ekki síst andlega. Spurningin í þessu sambandi er hvaða leiðir við förum, t.d. hvernig aðilar vinnumarkaðsins með aðstoð hins opinbera, ég veit það ekki, reyna að grípa til fyrirbyggjandi aðgerða þannig að fólk detti ekki út af vinnumarkaði sökum of mikils álags.“
Þórarinn Eyfjörð formaður Sameykis á fundi Trúnaðarmannaráðs.
VG á móti þingmannafrumvarpi Sjálfstæðisflokksins
Formaður Sameykis, Þórarinn Eyfjörð, spurði ráðherrann um hvert hans viðhorf væri til þingmannafrumvarps Sjálfstæðismann um að skerða réttindi og skyldur opinberra starfsmanna. Eigi gat ráðherrann opinberað beint viðhorf sitt til þessa tiltekna máls, en sagðist vera íhaldssamur í þeim efnum, og sagði að samtalið þurfi að eiga sér stað við opinbera starfsmenn.
„Ég hljóma eins og argasta íhald hérna en það sem hefur virkað vel á vinnumarkaði þurfum við að standa vörð um. Komandi nýr inn í þennan málaflokk get ég bara sagt að það er erfitt að ná niðurstöðu um mörg mál meðal aðila vinnumarkaðarins – atvinnurekenda og verkó. Mér er hugsað til frumvarps um félagafrelsi sem lagt var fram af Sjálfstæðisflokknum sem að VG styður ekki, en almennt séð er það sem þú ert að nefna, er ég frekar íhaldssamur í þessum efnum. Ég vona að við getum átt samtal um framhaldið og kröfurnar um að breyta lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna. Ég veit að ég er ekki að svara spurningunni þinni hundrað prósent Þórarinn, en ég er að reyna að gera það með almennum hætti. Ég vona að svarið dugi þó ég tali svona almennt um þetta tiltekna mál,“ svaraði Guðmundur Ingi að lokum.