Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

1. maí 2023

Kjarasamningar og samfélag

Þórarinn Eyfjörð, formaður Sameykis.

„Í baráttu fyrir sjálfsögðu réttlæti, sanngjörnum jöfnuði og velferð fyrir alla, þurfum við að muna eftir því að það var vinnandi fólk með hugsjónir og baráttuanda sem ruddi þá braut til velferðar sem við nú njótum.“

Eftir Þórarinn Eyfjörð

Á undanförnum vikum og mánuðum hafa stéttarfélög og launagreiðendur staðið í ströngu við gerð kjarasamninga. Þegar þetta er skrifað hefur Sameyki lokið við að gera fimm samninga við opinber hlutafélög og í samfloti við BSRB hafa kjarasamningar verið gerðir við ríkið og Reykjavíkurborg. Vinna við allnokkra samninga stendur yfir og er hraðinn í þeim samningaviðræðum nokkuð misjafn eins og gengur. Reynslan sýnir okkur þó að samningar nást alltaf að lokum. Stundum með samræðum og rökfestu, en stundum með átökum.

Rétturinn til að gera kjarasamning, og frelsið til að eiga aðgang að sterku stéttarfélagi, er einn mikilvægasti og verðmætasti réttur launafólks á vinnumarkaði. Sagan sýnir okkur svart á hvítu hvernig barátta launafólks hefur breytt samfélagi okkar til hins betra. Lífsgæði og sjálfsögð mannréttindi hafa ekki orðið til úr engu.

Við mannfólk erum þó stundum of værukær og gleymin til að muna að velferðarsamfélag okkar datt ekki í fangið á okkur baráttulaust. Launafólk á Íslandi mun þurfa að mæta framtíðinni af einurð og sjálfsöryggi. Við munum standa frammi fyrir erfiðleikum og áskorunum í samfélagi okkar þar sem leiðarljósið þarf að vera knúið áfram af fyrri sigrum. Í baráttu fyrir sjálfsögðu réttlæti, sanngjörnum jöfnuði og velferð fyrir alla, þurfum við að muna eftir því að það var vinnandi fólk með hugsjónir og baráttuanda sem ruddi þá braut til velferðar sem við nú njótum. Við megum aldrei gleyma að það var með baráttuanda og samstöðustyrk sem Vökulögin náðust í gegn á síðustu öld og áratug síðar voru lögin um verkamannabústaði sett, sem var eitt mesta framfaraskref í lýðheilsu og velferð sem þjóðin hefur upplifað.

Almannatryggingar voru festar í lög 1936 og Vinnulöggjöfin 1938. Síðan fylgdu réttindi eins og orlofsréttur, atvinnuleysistryggingar, lög um sömu laun fyrir sömu vinnu, réttur til lífeyris, réttur gegnum sjúkrasjóði stéttarfélaga, fæðingarorlof, náms- og menntunarmöguleikar, baráttan gegn kynbundnum launamun, Virk – starfsendurhæfing, Bjarg íbúðafélag og fleira og fleira. Öll þessi framfaraskref hafa komið til vegna réttindabaráttu vinnandi fólks gegn stöðnun, auðvaldi og yfirstétt, og afturhaldssömum stjórnvöldum. Ríkjandi valdastéttir hafa aldrei gefið eftir forréttindi sín að eigin frumkvæði. Bestu kjötkatlar elítunnar hafa aldrei staðið launafólki til boða aðeins vegna gestrisni þeirra sem mest eiga. Launafólki verða aldrei færðar á silfurfati kræsingarnar af gnægtarfati þeirra ríkustu og valdamestu. Lífsgæði og velferð til allra verður aðeins til á vettvangi samstöðu og baráttu launafólks.

Vilji valdastéttarinnar til að brjóta niður baráttuþrek og samstöðu launafólks hefur komið glöggt fram á líðandi vetri. Þar er reynt að höggva á báðar hendur til að veikja stöðu almennings og vegið að réttindum og samstöðumætti. Við þessari óværu verður launafólk að bregðast með styrkri samstöðu og samvinnu. Þar eru lykilatriði að farsælli framtíð kjarasamningar, réttindabarátta og velferð fyrir alla. Stéttabaráttan og samstaða innan stéttarfélaganna hefur gegnum tíðina verið með ýmsum hætti. Framtíðin kallar núna á sterka og staðfasta forystu og sýnilegt afl. Við þurfum saman að bretta upp ermar – því réttlæti, jöfnuði og velferð verður aldrei náð með sundrung.

Tökum höndum saman því á þann hátt vinnum við framtíðinni best gagn.

Höfundur er formaður Sameykis stéttarfélags í almannaþjónustu og 1. varaformaður BSRB.