Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

2. maí 2023

Samkeppnismál eru (harðkjarna) kjaramál

Auður Alfa Ólafsdóttir, sérfræðingur í umhverfis- og neytendamálum hjá ASÍ.

„Það er tími til kominn að stjórnvöld sýni að þau láti ekki undan þrýstingi sérhagsmunaafla sem hagnast á fákeppni heldur vinni að almannahagsmunum og styrki og efli samkeppni og samkeppniseftirlit hér á landi, launafólki og almenningi öllum í hag.“

Eftir Auði Ölfu Ólafsdóttur

Á tímum mikillar verðbólgu eins og er í samfélaginu núna erum við rækilega minnt á áhrif verðlags á kjör (ef svo ólíklega vildi til að einhver hafi gleymt því). Það má í raun segja að neytendur og launafólk séu sitt hvor hliðin á sama teningnum. Rétt eins og það er mikilvægt að launafólk fái sanngjörn og mannsæmandi laun er mikilvægt að launafólk fái sem mest fyrir launin og njóti ábata af viðskiptum. Kaupmáttur eykst ef laun og aðrar ráðstöfunartekjur hækka og ef verð lækkar. Kaupmáttur dregst að sama skapi saman ef verð hækkar umfram laun og aðrar tekjur og ef mikil verðbólga lætur á sér kræla. Virk samkeppni er gríðarlega stórt hagsmunamál fyrir launafólk og mikilvæg undirstaða verðmætasköpunar og velferðar í samfélaginu. Virk samkeppni stuðlar að lægra verði, betri þjónustu, auknum gæðum og auknu vöruúrvali. Samkeppni á markaði stuðlar einnig að nýsköpun og að almenningur geti stofnað fyrirtæki, tekið þátt í viðskiptum og keppt við önnur fyrirtæki á markaði. Nýsköpun er aðaldrifkraftur starfasköpunar og fjölgunar starfa og það eru því gríðarlegir hagsmunir í húfi fyrir almenning á Íslandi að samkeppni á markaði sé efld. Virk samkeppni er einnig stórt hagsmunamál fyrir fyrirtæki en skortur á henni getur skapað aðgangshindranir og valdið ójafnvægi í stöðu fyrirtækja á markaði.


Verð á fákeppnismörkuðum hækkað meira en verð þar sem meiri samkeppni er
Á þeim þrjátíu árum sem liðin eru síðan heildstæð samkeppnislög tóku gildi hér á landi hefur kaupmáttur tvöfaldast. Margir samverkandi þættir eru þess valdandi að kaupmáttur hefur aukist en sú staðreynd að aukin samkeppni hefur skilað sér í lægra verði á ýmissi vöru og þjónustu spilar stóra rullu í auknum kaupmætti almennings og betri lífskjörum. Þó að margt hafi áunnist er fákeppni enn viðvarandi á mörgum mikilvægum mörkuðum hér á landi. Hefur Efnahags- og framfarastofnunin (OECD) margoft bent á að samkeppni sé ábótavant í mörgum atvinnugreinum hérlendis og að aukin samkeppni sé til þess fallin að bæta lífskjör Íslendinga.

 

Miklar verðhækkanir á vöru og þjónustu á fákeppnismörkuðum segja líka sína sögu. Ef við skoðum vísitölu neysluverðs með gleraugum samkeppninnar má sjá að verð á þeim mörkuðum sem fákeppni ríkir hefur hækkað umfram verð á annarri vöru og þjónustu. Þannig má sjá að verð á dagvörumarkaði, vátryggingamarkaði og bankamarkaði, sem skilgreindir hafa verið sem fákeppnismarkaðir, hefur hækkað mun meira en verð á vörum eins og fatnaði, skóm og tölvum sem eru á mörkuðum sem hafa fengið meira samkeppnislegt aðhald og hækkað minna. Það væri mikil einföldun að segja að samkeppni sé ein að verki en að sama skapi þyrfti einbeittan brotavilja til að vísa því á bug að hún skipti máli í þessu samhengi.


Verðhækkanir meiri og ganga síður til baka í fákeppnisumhverfi
Samkeppni er ekki töfralyf við þeirri miklu verðbólgu sem er í samfélaginu núna og margir samverkandi þættir hafa gert það að verkum að verðbólga hefur aukist jafn mikið og raun ber vitni. Í verðbólguástandi geta fyrirtæki á fákeppnismörkuðum þó átt auðveldara með að velta verðhækkunum yfir á neytendur og þá ganga verðhækkanir síður til baka á fákeppnismörkuðum þegar dregur úr verðbólguþrýstingi. Stjórnvöld víða um heim eru vakandi yfir þessari þróun og mikilvægi samkeppniseftirlits í þessu verðbólguástandi og hafa norsk stjórnvöld t.d. sett aukið fjármagn í samkeppniseftirlit þar í landi vegna þess.


Almannahagsmunir eða sérhagsmunir?
Þrátt fyrir að samkeppni sé mikilvæg á verðbólgutímum er virk samkeppni ekki átaksverkefni heldur langtímaverkefni sem þarf að sinna jafnt og þétt. Til þess að stuðla að virkri samkeppni þurfa leikreglurnar á frjálsum markaði að vera sanngjarnar, stuðla að jafnræði eins og kostur er og tryggja jafnræði meðal aðila, neytenda og fyrirtækja. Slíkar leikreglur stuðla að því að þátttakendur í leiknum, eða aðilar í viðskiptum, fái allir eitthvað fyrir sinn snúð og að enginn fari halloka í viðskiptunum. Samkeppniseftirlit gegnir því hlutverki að fylgja þessum leikreglum eftir, vinna gegn samkeppnishömlum og fákeppni og greiða veginn fyrir heilbrigðri samkeppni á markaði, launafólki og fyrirtækjum í hag. Það er síðan á ábyrgð stjórnvalda að sjá til þess að leikreglurnar (lög og reglur) séu þannig úr garði gerðar að þær uppfylli þessi markmið og að samkeppnisyfirvöld hafi næg bjargráð og styrk til að fylgja þeim eftir.

Þó samkeppni leiði af sér minni skilvirkni, dragi úr hagkvæmni á markaði og skili sér í tapi fyrir samfélagið í heild getur ójafnvægi á markaði gagnast fyrirtækjum í sterkri stöðu á fákeppnismarkaði. Veikt samkeppniseftirlit er því hagur fárra og hampar sérhagsmunaöflum á kostnað almannahagsmuna. Það eru því ekki allir jafn hrifnir af samkeppniseftirliti – hafa ýmis sérhagsmunaöfl verið iðin við að finna samkeppniseftirliti hér á landi allt til foráttu og unnið leynt og ljóst að því að draga úr mætti þess.

Barátta sérhagsmunaafla í Bandaríkjunum hefur einmitt orðið til þess að samkeppniseftirlit þar í landi hefur verið veikt. Það hefur leitt til neikvæðrar samþjöppunar á markaði og dregið úr samkeppni. Afleiðingarnar eru þær að verð hefur hækkað og étið upp launahækkanir, dregið úr kaupmætti og komið niður á lífskjörum almennings. Þá hefur dregið úr fjárfestingu og framleiðni auk þess sem fjölgun starfa hefur verið minni en ella. Öfug þróun hefur átt sér stað í Evrópu en þar hefur aukin áhersla verið lögð á samkeppnismál síðustu áratugi sem hefur skilað sér í bættum lífskjörum og hafa Íslendingar notið góðs af þeirri þróun í gegnum EES-samninginn.


Aðgerða er þörf
Þrátt fyrir augljósan ávinning samkeppni fyrir launafólk og samfélagið allt, bæði til lengri tíma og í því verðbólguástandi sem ríkir núna, hafa stjórnvöld hér á landi sýnt lítinn áhuga á að styrkja samkeppniseftirlit, gera betrumbætur á gildandi lögum og reglum til að efla samkeppni eða ráðast í aðrar aðgerðir sem væru til þess fallnar að auka samkeppni. Íslensk stjórnvöld hafa þvert á móti nýlega samþykkt lagabreytingar sem frekar draga úr getu samkeppnisyfirvalda til að sinna sínu hlutverki og veikja samkeppni. Þá sýnir nýleg úttekt Ríkisendurskoðunar að verkefnastaða Samkeppniseftirlitsins er svo þung að það kemur niður á starfsemi stofnunarinnar og svigrúmi hennar til þess að ráðast í markaðsrannsóknir og eftirlitsverkefni sem ekki er vanþörf á í því fákeppnisumhverfi sem ríkir hér á landi.

Það er tími til kominn að stjórnvöld sýni að þau láti ekki undan þrýstingi sérhagsmunaafla sem hagnast á fákeppni heldur vinni að almannahagsmunum og styrki og efli samkeppni og samkeppniseftirlit hér á landi, launafólki og almenningi öllum í hag. Stöndum saman og setjum samkeppnismál á oddinn í baráttunni fyrir auknum kaupmætti og betri lífskjörum!


Höfundur er sérfræðingur í umhverfis- og neytendamálum hjá ASÍ.