2. maí 2023
Þau sem ná ekki endum saman og hin sem eiga nóg
Heiður Margrét Björnsdóttir hagfræðingur hjá BSRB. Ljósmynd/Birgir Ísleifur Gunnarsson.
„Laun undir meðaltali duga hreinlega ekki fyrir framfærslu fólks á leigumarkaði eða þeirra sem skulda mikið í eigin húsnæði, barnafólk á sérstaklega erfitt með að ná endum saman og einstæðir foreldrar eru settir í ómanneskjulega stöðu. Þetta fólk endar í mínus í hverjum mánuði þrátt fyrir að neita sér um efnisleg gæði, geta ekki rekið bíl, farið í frí með fjölskyldunni og svo framvegis. Þennan raunveruleika verða stjórnvöld að horfast í augu við sama hversu vel frumjöfnuðurinn kann að hljóma.“
Eftir Heiði Margréti Björnsdóttur
Í fjármálaáætlun fyrir árin 2024–2028 sem ríkisstjórnin lagði fram í lok mars sl. er líkt og áður mikið gert úr þeim launahækkunum sem gerðar hafa verið hérlendis á síðustu árum og hvað tekjulægsti hópurinn hafi þar hækkað hlutfallslega mest. Þá hefur stjórnvöldum verið tíðrætt um mikilvægi þess að launafólk axli sína ábyrgð á hagstjórninni með því að takmarka kröfur um hærri laun og minnka einkaneyslu. Til þess að glöggva sig á þessari stöðu, sem þykir einstaklega góð, er gott að skoða nýlegar tölur og hafa hugfast að í allri umræðu um stöðu íbúa skal reyna að forðast að skoða eingöngu meðaltalstölur og reyna að fá sem fyllsta mynd af stöðu einstakra hópa.
Samkvæmt nýjustu skýrslu kjaratölfræðinefndar hækkaði grunntímakaup hjá launafólki BSRB um 33,2% til 40,8% á tímabilinu mars 2019 til júní 20221. Einhvern hluta af þeirri hækkun má þó rekja til vinnutímastyttingar og eru því ekki útborgaðar krónur um hver mánaðamót, heldur hærri laun fyrir hverja unna klukkustund. Á sama tímabili hækkaði vísitala neysluverðs um 18%. Að teknu tilliti til vinnutímastyttingar og verðbólguþróunar varð því sannarlega umtalsverð hækkun á tímabilinu.
Konur hjá sveitarfélögum með lægstu launin
Við skoðun á launum félagsmanna BSRB í maí á síðasta ári má sjá að grunnlaun þeirra voru á bilinu 470–549 þ.kr., regluleg laun á bilinu 491–718 þ.kr. og regluleg heildarlaun á bilinu 513–827 þ.kr. Í öllum fyrrgreindum flokkum voru launin lægst hjá konum sem starfa hjá sveitarfélögum utan Reykjavíkur. Launamunur kynjanna er mestur þegar litið er til reglulegra heildarlauna, eða á bilinu 7% til 29%.
Líkt og reglulega kemur fram í orðræðu um launahækkanir um þessar mundir eru krónutölur eitt en kaupmáttur, þ.e. hvað fæst fyrir krónurnar, annað. Stöðugt verðlag virðist fyrst og fremst nást með því að launafólk geri minni kröfur og reyni að hemja neyslugleðina.
Skoðum aðeins hvað fæst fyrir krónurnar í launaumslaginu svo launafólk geti aðeins velt fyrir sér hvernig best sé að halda í við neysluna. Samkvæmt umboðsmanni skuldara2 er framfærsluviðmið fyrir barnlausan einstakling m.v. neðangreindar forsendur 468.960 kr. á mánuði og einstaklingur með tvö börn þarf að vera með 749.020 kr. til ráðstöfunar á mánuði til að standa skil á mánaðarlegum útgjöldum. Barnlaus hjón þurfa að vera með 564.254 kr. á mánuði en ef þau eiga tvö börn þyrftu þau að vera með 845.260 kr.
Til þess að setja þetta í samhengi við laun félagsmanna BSRB þá eru ráðstöfunartekjur þeirra sem eru með 513 þ.kr. á mánuði í regluleg heildarlaun um 380 þ.kr.3 Ráðstöfunartekjur þeirra sem eru með 827 þ.kr. eru um 560 þ.kr. á mánuði. Miðað við framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara munar um 88 þ.kr. á mánuði að einstaklingur á lægstu reglulegu heildarlaunum BSRB (531 þ.kr.) geti framfleytt sér á mánuði og 368 þ.kr. að hann geti framfleytt sér einn með tveimur börnum. Einstakling á hæstu reglulegu heildarlaununum (827 þ.kr.) vantar einnig 188 þ.kr. til að geta framfleytt sér ef hann er einn með tvö börn. Þá má einnig sjá að ef við gæfum okkur 10% hækkun launa frá þessum tölum myndi það ekki breyta þessari niðurstöðu, þ.e. fólk að nær ekki endum saman á launum sínum þó það kunni að minnka hallann.
Opinber tilfærslukerfi okkar eru til þess gerð að jafna aðstöðu-mun fólks, þ.e. færa fjármagn frá þeim sem eru í þeirri aðstöðu að vera með hærri tekjur til þeirra sem eru í störfum á lægri launum eða þeirra sem ekki eru í aðstöðu til þess að taka þátt á vinnumarkaði. Gróflega áætlað myndi einstætt foreldri með tvö börn fá um 130 þ.kr. í barna- og húsnæðisbætur á mánuði væru tekjur þess 513 þ.kr. (eða lægstu reglulegu heildarlaun BSRB)4. Það dugar þó skammt þegar það vantar 368 þ.kr. upp á framfærslukostnaðinn.
Fjölskyldugerð og búsetuform hafa mikil áhrif á afkomu
Þessar niðurstöður eru í samræmi við Þjóðarpúls Gallup frá í febrúar síðastliðnum. Þar kemur fram að 30% þeirra sem eru með minna en 550 þ.kr. í fjölskyldutekjur á mánuði eru að safna skuldum eða eiga erfitt með að ná endum saman. Það sama á við um 37% þeirra sem búa í leiguhúsnæði og þá tekst 65% leigjenda ekki að safna sparifé og hafa því lítið færi á að geta leitað í annað og tryggara búsetuform. Húsnæðiskostnaður fyrrgreindra framfærsluviðmiða er á bilinu 43%–35% af heildarframfærslukostnaði á mánuði. Það er því ljóst að gríðarlega mikill aðstöðumunur er hjá fólki eftir því hvort það er á leigumarkaði, eða með miklar húsnæðisskuldir eða ef fólk á húsnæði sitt skuldlaust eða er með litla greiðslubyrði.
Þessar tölur eru í hrópandi andstöðu við lýsingar á stöðu efnahagslífsins í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar. Þar er rætt um bætta afkomu ríkissjóðs, hærri tekjur en búist var við, hagstæðar hagvaxtarhorfur og miklar launahækkanir. Þar er verðbólgunni réttilega lýst sem mikilli áskorun en tiltekið að henni verði einungis haldið í skefjum ef samið verði um kjör á vinnumarkaði sem samræmast verðmætasköpun hagkerfisins. Hér er því verið að segja að launafólk og þeir sem eiga erfitt með að framfleyta sér þurfi að halda að sér höndum því þeir geti ekki ætlast til meiri tekna en þeirra hlutdeild er í verðmætasköpuninni.
Tekjuójöfnuður eykst á ný
Hvernig er þessum verðmætum skipt og hver er hlutdeild almenns launafólks? Þegar litið er til ráðstöfunartekna má sjá að tekjuójöfnuður hefur aukist hér á landi undanfarin ár.
Þegar borin er saman hlutdeild tekjuhæstu 10% fjölskyldnanna við þær 10% sem eru tekjulægstar má sjá að árið 1997 voru þær 10% tekjuhæstu með 9,3 sinnum hærri ráðstöfunartekjur en þær sem voru með lægstu 10% tekjurnar. Þessi ójöfnuður náði hámarki á árunum fyrir hrun, lækkaði síðan í kjölfarið en hefur verið að hækka aftur. Voru ríkustu 10% með 12,5 sinnum hærri tekjur en þau 10% tekjulægstu árið 2020. Munurinn er enn meiri þegar litið er til ríkasta 1% fjölskyldnanna og þeirra 10% sem lægst hafa launin. Þar var ríkasta 1% með 17-faldar tekjur tekjulægsta hópsins árið 1997 og rauk upp í 38-faldan mun árið 2007. Sá munur lækkaði á árunum eftir hrun en hefur hækkað aftur og stóð í 25 árið 2021.
Dæmi sem gengur ekki upp
Í stuttu máli má því segja að þótt laun hafi vissulega hækkað umtalsvert hér á landi gengur reikningsdæmið ekki upp fyrir stóra hópa á Íslandi. Laun undir meðaltali duga hreinlega ekki fyrir framfærslu fólks á leigumarkaði eða þeirra sem skulda mikið í eigin húsnæði, barnafólk á sérstaklega erfitt með að ná endum saman og einstæðir foreldrar eru settir í ómanneskjulega stöðu. Þetta fólk endar í mínus í hverjum mánuði þrátt fyrir að neita sér um efnisleg gæði, geta ekki rekið bíl, farið í frí með fjölskyldunni og svo framvegis. Þennan raunveruleika verða stjórnvöld að horfast í augu við sama hversu vel frumjöfnuðurinn kann að hljóma. Ef ekkert verður að gert heldur tekju- og eignaójöfnuður áfram að aukast með tilheyrandi áhrifum á íslenskt samfélag.
Í nýlegri rannsókn Sigrúnar Ólafsdóttur prófessors við Háskóla Íslands kemur fram að um 80% Íslendinga telja að tekjuójöfnuður sé of mikill hérlendis og 70% vilja að ríkið noti jöfnunartæki til þess að draga úr þessum ójöfnuði. Ójöfnuður hefur samkvæmt OECD marghliða afleiðingar fyrir samfélög þar sem hann dregur úr félagslegum stöðugleika, langtímahagvexti og tækifærum einstaklinga. Núverandi efnahagsástand þrengir að tekjulægri einstaklingum og barnafjölskyldum og ráðleggur OECD stjórnvöldum að takast á við þann ójöfnuð m.a. með því að tryggja að skatta- og tilfærslukerfin gagnist öllum.
Áfram barist
Það eru því vonbrigði fyrir launafólk að fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar sem lögð var fram fyrir páska ávarpar með litlum sem engum hætti þær ábendingar sem verkalýðshreyfingin hefur til lengri tíma beint til stjórnvalda. Þær miða m.a. að því að tryggja afkomu þeirra tekjulægstu, standa vörð um velferðarkerfið og huga mun betur að barnafjölskyldum. Þetta má útfæra með margvíslegum hætti í gegnum þau jöfnunartæki sem stjórnvöld hafa til ráðstöfunar en kjósa að nýta sér ekki. BSRB mun áfram sýna stjórnvöldum aðhald og berjast fyrir breytingum á fjármálaáætlun til að slá á verðbólgu og tryggja örugga framfærslu almennings.
Höfundur er hagfræðingur hjá BSRB.
Heimildir:
1) Kjaratölfræðinefnd
2) Umborðsmaður skuldara. Opinber neysluviðmið félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins hafa ekki verið uppfærð síðan 2019 og endurskoðun staðið yfir síðan haustið 2020. Er hér því eingöngu notast við framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara.
3) Hér er miðað við 2% í séreign og tæplega 1% stéttarfélagsgjöld auk lögbundins framlags í sameignarsjóð og reiknaða staðgreiðslu. Ekki er gert ráð fyrir neinum öðrum viðbótarfrádrætti í forsendunum.
4) Barnabætur eru áætlaðar með reiknivél Skattsins út frá framangreindum forsendum. Reiknivélina má finna hér. Húsnæðisbætur eru áætlaðar með reiknivél HMS út frá framangreindum forsendum. Reiknivélina má finna hér.