2. maí 2023
Tryggja þarf börnum líf án fátæktar
Börn bera ekki ábyrgð á stöðu sinni og aðstæðum. Við öll berum hins vegar samfélagslega ábyrgð á að allar barnafjölskyldur geti búið við öryggi og bestu mögulegu lífsskilyrði.
Eftir Margréti Júlíu Rafnsdóttur
Öll börn á Íslandi eiga jafnan rétt á öryggi, menntun, bestu mögulegri heilsu og þátttöku í tómstundum, menningu og listum. Þessi réttur er þeim tryggður í Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem samþykktur var árið 1989 á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna og lögfestur á Íslandi árið 2013. Ekki má mismuna börnum um þennan rétt vegna stöðu sinnar eða stöðu foreldra.
Engu að síður er það svo að barn sem elst upp við fátækt fær ekki notið réttinda sinna á við önnur börn. Þessi börn búa gjarnan við ótryggari aðstæður, í leiguhúsnæði og jafnvel í húsnæði sem ekki er ætlað til búsetu. Þau þurfa gjarnan að flytja oft og ná því ekki að festa rætur eða eignast vini og eiga á hættu að verða félagslega einangruð. Þau hafa ekki sömu tækifæri til tómstundaiðkunar, þar sem kostnaður er mikill. Þau þora jafnvel ekki að láta sig dreyma um gott og innihaldsríkt líf.
Börn bera ekki ábyrgð á stöðu sinni og aðstæðum. Við öll berum hins vegar samfélagslega ábyrgð á að allar barnafjölskyldur geti búið við öryggi og bestu mögulegu lífsskilyrði. Tryggja þarf öllum börnum á Íslandi þau réttindi sem þeim ber og þar með jöfn tækifæri. Barnafjölskyldur bera þungar byrðar og stuðningur samfélagsins er sannarlega ekki nægur til að létta byrðarnar.
Börn sem búa við fátækt
Barnaheill – Save the Children á Íslandi eru mannréttindasamtök sem berjast fyrir réttindum barna og þar með að börnum sé ekki mismunað vegna stöðu sinnar eða stöðu foreldra þeirra. Í áratug hafa þau vaktað stöðu barna sem búa við fátækt. Samtökin hafa í samvinnu við önnur Save the Children samtök í Evrópu unnið að rannsóknum og gefið út skýrslur með ályktunum og áskorunum til stjórnvalda landanna um að bregðast við. Lítið hefur þó áunnist því enn á eitt af hverjum fjórum börnum í Evrópu á hættu að búa við fátækt og félagslega einangrun. Það kemur fram í nýjustu skýrslu Evrópusamtaka Save the Children sem kom út í mars 2023; Tryggjum framtíð barna. Hvernig COVID-19, aukin framfærslubyrði og loftslagsbreytingar hafa áhrif á börn sem búa við fátækt og hvað stjórnvöld þurfa að gera.
Þar kemur jafnframt fram að á Íslandi búa 13,1% barna á heimilum undir lágtekjumörkum, eða um 10.000 börn. Árið 2021 áttu 24,1% íslenskra heimila í erfiðleikum með að standa straum af daglegum útgjöldum og ná endum saman. Í rúmlega helmingi tilfella voru það heimili einstæðra foreldra og 16,1% voru heimili tveggja eða fleiri fullorðinna með börn. Líklegra er að börn sem búa utan höfuðborgarsvæðisins búi við fátækt eða um 15,8% þeirra. Að auki eru fram undan miklar áskoranir í kjölfar covid-heimsfaraldurs, vegna stríðsins í Úkraínu og vegna loftslagsbreytinga sem okkur ber að takast á við. Líkur eru á aukinni fátækt barna sé ekkert að gert.
Staðan á Íslandi og loforð stjórnvalda
Verðbólga hefur meira en tvöfaldast á milli ára á Íslandi, frá 4,3% í byrjun árs 2022 í rúmlega 10% í lok febrúar árið 2023. Verðbólga og hækkun vaxta hefur aukið greiðslubyrði fjölskyldna af húsnæðislánum, leiguverð hefur hækkað og allur framfærslukostnaður. Þetta bitnar mest á þeim sem síst hafa tök á að taka á sig auknar byrðar. Eitt af hverjum fimm börnum sem búa í leiguhúsnæði er í hættu á að búa við fátækt og félagslega einangrun og 8,2% þeirra búa við skort.
Árið 2015 samþykktu stjórnvöld á Íslandi heimsmarkmið
Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun og þar með að minnka fátækt um helming í landinu fyrir árið 2030. Engar áætlanir hafa þó verið gerðar um það né stefna mörkuð. Tíminn styttist og því mikilvægt að hraða áætlunum og aðgerðum. Barnaheill leggja áherslu á að uppræta þurfi fátækt með öllu meðal barna – því eitt barn sem elst upp við fátækt á Íslandi er einu barni of mikið.
Hvernig upprætum við fátækt meðal barna á Íslandi?
Þar sem til þessa hefur ekki tekist að tryggja launafólki með börn á framfæri á Íslandi þær tekjur sem þarf til að börn þeirra fái notið þeirra réttinda sem þeim ber þarf einnig að bregðast við með öðrum hætti. Það er ekki síst gert með því að tryggja barnafjölskyldum örugga afkomu, að barnabætur byggi á framfærsluviðmiðum og að þjónusta við börn sé gjaldfrjáls.
Barnaheill leggja þess vegna til eftirfarandi aðgerðir:
• Tryggja þarf gjaldfrjálsa menntun til 18 ára aldurs, þar með talin námsgögn. Menntunartilboð þurfa að miða að fjölbreytileika nemenda.
• Tryggja þarf öllum börnum næringarríka máltíð í skólum og gjaldfrjálsa með öllu fyrir þau börn sem búa við fátækt og/eða skort. Skólar og sveitarfélög þurfa að tryggja að engu barni sé vísað frá skólamat vegna þess að ekki hefur verið greitt fyrir matinn. Barnið ber ekki ábyrgð og á ekki að þurfa að vera svangt í skólanum vegna þess. Stefna þarf að gjaldfrjálsum mat í skólum fyrir öll börn.
• Endurskipuleggja þarf tómstundir barna með það að markmiði að öll börn geti tekið þátt án hindrana. Það er ekki síst gert með samþættingu greina hjá ungum börnum ásamt reglum um kostnað við þátttöku, búnað, ferðalög og aðra viðburði.
• Endurskipuleggja þar húsnæðiskerfið svo að lágtekjufjölskyldur hafi öruggt og heilsusamlegt húsnæði við hæfi. Taka mætti mið af því kerfi sem lagt var niður með lögum árið 2002 (verkamannabústaðir).
• Tryggja þarf öllum börnum gjaldfrjálsa geðheilbrigðisþjónustu og á þeim tíma sem þjónustunnar er þörf. Eyða þarf biðlistum eftir þjónustu. Geðheilbrigði er jafn mikilvægt fyrir líf og þroska og líkamlegt heilbrigði.
Síðast en ekki síst þarf að marka stefnu, setja markmið og aðgerðaáætlun til að ekkert barn búi við fátækt á Íslandi. Eitt ár í lífi barns er langur tími og barn hefur ekki tíma til að bíða. Barn sem elst upp við fátækt er líklegra til að búa við fátækt sem fullorðinn einstaklingur og við berum öll ábyrgð á að koma í veg fyrir það. Ríkisstjórn Íslands þarf því að ganga fram í að móta stefnu og standa við samþykktir sínar eftir að hún skrifaði undir heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um að minnka fátækt um helming á Íslandi fyrir árið 2030.
Ágæta starfsfólk í almannaþjónustu. Barnaheill þakka ykkur fyrir ykkar þátt í að standa vaktina fyrir börn á Íslandi.
Höfundur er verkefnastjóri innlendra verkefna og Evrópuverkefna Barnaheilla – Save the Children á Íslandi.