22. maí 2023
Verkföll versta niðurstaðan í samningaviðræðum
Þórarinn Eyfjörð sagði að verkfallsaðgerðir séu versta niðurstaða sem hægt sé að hugsa sér í samningaviðræðum.
Þórarinn Eyfjörð, formaður Sameykis og fyrsti varaformaður BSRB, sagði í viðtali í kvöldfréttum Stövar 2 á laugardaginn sl. að kröfur bandalagsins, að félagsfólk njóti sömu kjara og réttinda til jafnræðis við annað starfsfólk í sömu störfum, sé sanngirniskrafa.
„Þetta er sanngirniskrafa, þar sem við erum bara að fara fram á að okkar félagsfólk njóti sömu réttinda og sama jafnræðis við félagsfólk í öðrum félögum - og fái sömu laun fyrir sömu störf. Því þetta er algerlega óþolandi staða, að fólk sem er búið jafnvel að vinna í sams konar eða sama starfi árum saman, hlið við hlið á sömu launum, á góðum vinnustað, sé allt í einu komin með sitt hvor launin. Og okkar félagsmenn og félagsfólk sjái lægri laun. Það þarf að leiðrétta misrétti sem forysta BSRB telur að Samband íslenskra sveitarfélaga hafi sýnt félagsmönnum,“ sagði Þórarinn.
Á föstudaginn sl. voru samþykktar verkfallsaðgerðir félagsfólks í alls 28 sveitarfélögum víðs vegar um landið og á laugardaginn varð Garðabær 29. sveitarfélagið. Verkföll hefjast 5. júní og munu koma til með að hafa áhrif á starfsemi áhaldahúsa til 17. júní, starfsemi leikskóla og bæjarskrifstofa til 5. júlí og starfsemi sundlauga ótímabundið. Í einhverjum tilfellum gæti jafnvel komið til lokana.
Þórarinn sagði að um sjö þúsund manna hópur sé undir í verkföllunum. Fólk muni finna fyrir auknum verkfallsaðgerðum eftir því sem á líður.
„Þó svo að sá hópur sem fer í verkfall, hann er svona smærri á ákveðnum stöðum, en þetta fer núna stigvaxandi. Okkur er þetta ekki ljúft. Okkur er ekki kært að þurfa að fara í aðgerðir sem þessar. Þetta er versta niðurstaða í samningaviðræðum sem hægt er að hugsa sér, að þurfa að fara í verkfall,“ sagði hann.
Þórarinn sagði að samtöl við Samband íslenskra sveitarfélaga hafi verið einkar rýr. Þau hafi alls ekki verið á þeim nótum að hægt sé að ná sátt í samningaviðræðum. Hann sagðist hins vegar bjartsýnn á að aðgerðirnar skili tilætluðum árangri.
„Ég ætla að vera bjartsýnn, það er hluti af starfinu – eða hluti af baráttunni. Það þarf að trúa því að við getum náð árangri og við getum náð lendingu sem fólkið okkar getur sætt sig við,“ segir Þórarinn að lokum.