24. maí 2023
ETUC þing: „Grefur þú undan almannaþjónustunni, grefur þú undan konum“
Paola Panzeri í ræðupúlti á þingi ETUC í dag.
Paola Panzeri, varaforseti Kvenréttindanefndar ETUC (Heildarsamtök verkalýðsfélaga í Evrópu), sagði á fundi sambandsins í Berlín í dag að mikilvægi almannaþjónustunnar í samfélagi fólks sé mikið. Opinber þjónusta séu þeir innviðir sem gerir konum mögulegt að vera áfram starfandi á vinnumarkaði og því sé mikilvægt að ríki Evrópu fjárfesti í opinberum innviðum en mylji þá ekki niður eins og nýfrjálshyggustefna hægri stjórnmálanna gerir kröfur um. Hún sagði að ef grafið er undan almannaþjónustunni, sé grafið undan konum.
Konur á vinnumarkaði sem sinna börnum, sjúkum og eldra fólki í grunnþjónustunni krefjast þess að launin verði jöfnuð á við karla og lífeyrismunur kynjanna verði jafnaður. Hún sagði áríðandi að þingið álykti um að réttindi kvenna á vinnumarkaði séu ákvörðuð af konum, ekki körlum.
Paola sagðist fagna nýrri grein í lögum ETUC sem fjallar um jöfn laun karla og kvenna fyrir sömu störf. Nefndin hefur unnið hart að því undanfarin ár innan heildarsamtakanna að búa til lagagrein um slíkt jafnrétti sem nú hefur verið samþykkt.
„Nú þurfum við að vinna að því að það verði að veruleika, að þessum lögum verði fylgt eftir á öllum opinberum vinnustöðum í almannaþjónustunni. Einnig þurfum við að berjast áfram fyrir því að konur, líka ungar konur, sitji við hvert einasta samningaborð í kjarasamningsgerðum.“ sagði Paola.
„Við höfum fylgst með því á undanförnum árum hvernig nýfrjálshyggjan hefur markvisst unnið að því að veikja almannaþjónustuna. Við höfum líka séð á undanförnum árum að konur þurfa að frekar en karlar að þola ofbeldi og kynferðislega áreitni á vinnustaðnum. 23 prósent allra kvenna, eða ein af hverjum fimm konum, á opinberum vinnumarkaði hafa verið beittar andlegu, líkamlegu eða kynferðislegu ofbeldi. Gerendur þessa ofbeldis eru stjórnendur, samstarfsfólk og jafnvel þeir sem njóta opinberrar þjónustu. Tilkynningar um þetta ofbeldi eru að aukast.
Ég get nefnt nýlegt dæmi. Síðast í gær var kona stungin til bana sem starfaði við umönnun í Frakklandi. Önnur kona, læknir á Ítalíu, var drepin þegar ráðist var á hana á spítala sem hún starfaði á. Ég sendi fjölskyldum og samstarfsfélögum samúðarkveðjur, en samúðarkveðjur duga ekki einar og sér, við verðum að bregðast við öll sem eitt. Það er skylda allra stéttarfélaga að bregðast við þessu ofbeldi og koma á breytingum á vinnustöðunum og í samfélaginu. Við skulum standa saman að berjast gegn ofbeldi á vinnustöðum,“ sagði Paola Panzeri að lokum.