26. maí 2023
Hafna sjálfsögðum kröfum BSRB um sömu laun fyrir sömu störf
Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB.
Formaður BSRB, Sonja Ýr Þorbergsdóttir, birtir á samfélagsmiðli sínum launaseðla tveggja leikskólaleiðbeinenda. Annar starfar í Reykjavík en hinn í Kópavogi. Leikskólaleiðbeinandinn í Reykjavík fær kr. 478.380 fyrir skatt á meðan starfsmaður í sama starfi í Kópavogi fær kr. 433.209. Sonja Ýr segir ástæðuna á þessum launamun sveitarfélaganna að Reykjavíkurborg greiðir sérstakar aukagreiðslur vegna þessara starfa. Hin sveitarfélögin utan Reykjavíkur geri það ekki og neiti að gera það.
„Þau hafa hafnað sjálfsögðum kröfum okkar fólks um sömu laun fyrir sömu störf á leikskólum um landið allt. Gætuð þið lifað af á þessum launum,“ spyr formaður BSRB.
Sonja Ýr segir: „Ef þið skoðið þessa launaseðla fyrir laun í ársbyrjun 2023 sjáið þið mat samfélagsins á virði starfa leiðbeinenda á leikskólum. Launin eru þó ögn skárri í Reykjavík heldur en í Kópavogi eða öðrum sveitarfélögum. Þar munar heilum 45 þúsund krónum á mánuði fyrir skatt (sjá grænu hringina). Það er vegna þess að Reykjavíkurborg greiðir sérstakar aukagreiðslur vegna þessara starfa sem hin sveitarfélögin gera ekki. Og neita að gera. Þau hafa hafnað sjálfsögðum kröfum okkar fólks um sömu laun fyrir sömu störf á leikskólum um landið allt. Gætuð þið lifað af á þessum launum?“
Þá sagði hún í viðtali á Vísi vegna þessa að þessi störf innan leikskólanna séu með lægstu launum á vinnumarkaði. „Þessi störf, eins og innan leikskólana, þetta eru með lægstu laununum á vinnumarkaði yfir höfuð. Sem sýnir auðvitað að það er mjög skakkt verðmætamat á þessum störfum.“