31. maí 2023
Skorað á framkvæmdastjórn ESB að innleiða löggjöf um vinnuvernd
„Við þurfum að skapa vinnuumhverfi sem er ekki uppspretta líkamlegrar og/eða sálrænnar þjáningar.“
Í dag í tilefni af Alþjóðlega vinnuverndardeginum sem var 28. apríl sl. skorar Efnahags- og félagsmálanefnd Evrópusambandsins (EESC) framkvæmdastjórn Evrópusambandsins að samþykkja löggjöf til að koma í veg fyrir sálfræðilega og félagslega áhættu hjá starfsfólki á vinnumarkaði.
Undanfarin tuttugu ár hefur slík áhætta á vinnumarkaði aukist. Samkvæmt vinnumarkaðsrannsókn sem nefndin kynnti nýverið eru 44,6% starfsfólks í Evrópu útsett fyrir sálfræðilegum og félagslegum áhættuþáttum. Samkvæmt rannsókninni liggur orsökin í þeim miklu breytingum sem orðið hafa á vinnumarkaði á síðustu tveimur áratugum. Þróun upplýsinga- og samskiptatækni hefur kollvarpað stjórnunarháttum og efnahagslíkönum, með fjölbreyttum neikvæðum afleiðingum fyrir geðheilsu starfsfólks.
Á árunum milli 2000 og 2016 jukust dauðsföll af völdum hjartasjúkdóma og heilablóðfalls í tengslum við langan vinnutíma um 41% og 19% um allan heim og er rakið beint til of mikils álags í vinnu og langs vinnutíma. Geðraskanir vegna álags í vinnu aukast einnig og er því miður ekki nægilega viðurkennt á vinnumarkaði í Evrópu en á milli 17% og 35% þunglyndis megi rekja til álags í vinnu. Enn þann dag í dag er ekki minnst á sálfræðilega og félagslega áhættu sem fylkt getur störfum í evrópskri löggjöf. Í núverandi tilskipun um bætt vinnuskilyrði, sem enn er á tillögustigi, er minnst á þessa áhættuþætti í einni grein án þess að þeir séu skilgreindir.
Þann 27. apríl sl. lagði EESC (Evrópska efnahags- og félagsmálanefndin) fram álit sem ber yfirskriftina „Ótryggt starf og geðheilsa“ þar sem lögð er áhersla á nauðsyn þess að samþykkja bindandi löggjöf á vettvangi ESB um að framlengja og uppfæra rammatilskipunina um heilsu og öryggi á vinnustöðum. „Við þurfum að skapa vinnuumhverfi sem er ekki uppspretta líkamlegrar og/eða sálrænnar þjáningar. Til að ná þessum markmiðum þurfum við evrópska tilskipun sem fjallar sérstaklega um sálfræðilega og félagslega áhættu,“ sagði skýrslugjafi álitsins, José Antonio Moreno Díaz.
Spænski atvinnu- og félagsmálaráðherrann, Joaquín Pérez Rey, nýtti tækifærið og kynnti áherslur væntanlegrar formennsku Spánar í nefndinni, með áherslu á að draga úr félagslegum ójöfnuði innan Evrópusambandsins og láta vinnumarkaðinn virka lýðræðislegri. Oliver Röpke, forseti EESC sagði: „Ég er ánægður með að við getum rætt þessi málefni, sem verða kjarninn í forgangsröðun EESC á þessu nýja kjörtímabili. Ég hef fulla trú á því að spænska formennskan muni nýta sér vel nefndarálit okkar.“
Álit EESC sameinar fjölmargar kröfur um bindandi rammasamkomulag. Frá árinu 2019 hefur „End Stress“ herferðin sem verkalýðssambandið Eurocadres hleypti af stokkunum með stuðningi Evrópska verkalýðssambandsins (ETUC) kallað eftir lagalegum aðgerðum til að berjast gegn „streitufaraldri“ sem dunið hefur á í Evrópu. Á sama hátt var í tveimur skýrslum Evrópuþingsins sem birtar voru árið 2022 beinlínis hvatt til þess að framkvæmdastjórn ESB leggi fram tilskipun um varnir gegn sálfræðilegri og félagslegri áhættu fólks á vinnumarkaði.
Þetta þekkist vel á íslenskum vinnumarkaði. Í nýlegri könnun Vörðu á íslenskum vinnumarkaði kemur fram að meira en helmingur einstæðra mæðra og ungra kvenna býr við slæma andlega heilsu og vaxandi húsnæðiskostnaður íþyngir leigjendum og ungu fólki. 13,2% kvenna og 13,1% karla upplifa lítinn áhuga eða gleði við að gera hlutina. Þá hafa 11,8% kvenna og 9,8% karla verið niðurdregin, döpur eða vonlaus, 19,4% kvenna en 16% karla hafa átt erfitt með að sofna eða sofa alla nóttina, 27,6% kvenna en 19,9% karla hafa fundið fyrir þreytu og orkuleysi, 12,7% kvenna en 9,6% karla hafa upplifað lystarleysi eða ofát, 15,1% kvenna en 12,1% karla hefur liðið illa með sig og 12,4% kvenna en 10,3% karla hafa átt erfitt með einbeitingu.