8. júní 2023
Spyr hvort sveitarfélögin vilji mismuna sínu starfsfólki
Sonja Ýr Þorbergsdóttir.
Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, skrifar á Vísi og spyr hvort sveitarfélögin vilji mismuna sínu starfsfólki í launum. Pistillinn fjallar um jafnlaunavottun og starfsmatið sem sveitarfélögin, ásamt stéttarfélögum sem þau semja við, fóru í samstarfsverkefn til að auðvelda stjórnendum að ákveða laun í samræmi við jafnlaunaákvæði jafnréttislaga og þar með fá jafnlaunavottun.
Hún segir að BSRB hafi talið að kjarasamningar við Samband íslenskra sveitarfélaga yrðu fljótafgreiddir í ljósi sögunnar. Sonja segir að það séu mikil vonbrigði að deila þurfi um þann sjálfsagða rétt fólks að fá sömu laun fyrir sömu störf. Mismundandi kjarasamningar réttlæti ekki launamun fólks í sama starfi.
„Þegar kom í ljós að starfsfólk sveitarfélaganna fékk mismunandi laun fyrstu þrjá mánuði ársins eftir hvaða stéttafélagi það tilheyrði, töldum við í BSRB að málið yrði fljótafgreitt í ljósi sögunnar. Sveitarfélögin voru fyrstu atvinnurekendur landsins til að taka upp samræmt starfsmatskerfi sem hafði það að markmiði framfylgja jafnlaunaákvæðum laga og tryggja starfsfólki sömu laun fyrir sömu eða jafnkrefjandi störf óháð kyni, vinnustað eða stéttafélagi. Þetta markmið er í samræmi við jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar og dómaframkvæmd um að mismunandi kjarasamningar réttlæti ekki launamun fólks í sama starfi. Það eru mikil vonbrigði að deila þurfi um þennan sjálfsagða rétt fólks.“
Hversu langt ætlar SÍS að ganga í eigin hagsmunabaráttu?
Þá skrifar Sonja Ýr að eftir standi sú spurning hversu langt SÍS ætli að ganga í eigin hagsmunabaráttu sem auðvitað bitnar harkalegast á þeirra eigin starfsfólki.
„Eftir stendur spurningin um hversu langt sveitarfélögin ætli að ganga í eigin hagsmunabaráttu sem bitnar harkalega á þeirra eigin starfsfólki, sem er á lægstu laununum á íslenskum vinnumarkaði þrátt fyrir að vinna ómissandi störf sem halda samfélaginu gangandi. Það eru sveitarfélögin sem bera ábyrgð sem atvinnurekendur þessa fólks – og það eru þau sem geta leyst deiluna og gengið að þeirri sjálfsögðu réttlætiskröfu að greiða sömu laun fyrir sömu störf. Ef það verður ekki gert munu sveitarfélögin finna enn frekar fyrir samfélagslegum kostnaði kjaradeilunnar dragist hún á langinn.“
Lesa má pistil Sonju Ýr í heild sinni hér.