Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

19. júní 2023

Kvenréttindadagurinn er í dag

Á Austurvelli 7. júlí 1915.

Kvenréttindadagurinn 19. júní er í dag. Hann er hátíðis- og baráttudagur kvenna á Íslandi og haldið hefur verið upp á hann frá því að konur fengu fullan kosningarétt til jafns á við karla. Hátíðin fór upphaflega fram við setningu Alþingis á Austurvelli 7. júlí 1915 og hófst kl. 5:20 síðdegis með því að fylking kvenna raðaði sér upp í Barnaskólagarðinum og hélt af stað „í skínandi sólskini og stafalogni og gleðibrag á öllum andlitum,“ eins og Bríet Bjarnhéðinsdóttir skrifaði í blað sitt Kvennablaðið 16. júlí sama ár.


Konur í Reykjavík fagna fegnum kosningarétti við setningu alþingis 1915. Ljósmynd: Þorl.Þorl.

Í Kvennablaðinu sagði: „Sendinefnd kvenna gekk inn í þinghúsið með ávarp frá íslenskum konum á fund sameinaðs þings. Ingibjörg H. Bjarnason las upp skrautritað ávarp til þingsins. Eftir athöfnina í þinghúsinu var tekið til við hátíðahöldin á Austurvelli þar sem söngflokkur kvenna söng kvæði sem Guðmundur Magnússon orti í tilefni dagsins, lesið var upp skeyti til Kristjáns konungs X og drottningar frá kvennafundinum og ávarpið til Alþingis. Síðan fluttu þær Bríet Bjarnhéðinsdóttir og Ingibjörg H. Bjarnason ræður. Að lokum var sungin Eldgamla Ísafold. Um kvöldið var svo hátíðarsamkoma í Iðnó og var öllum heimilt að koma sem það vildu og veitt kaffi, te, mjólk og gosdrykkir.


Bríet Bjarnhéðinsdóttir.

Samkoman var ein sú fjölmennasta sem sést hafði hér á landi, ef ekki sú fjölmennasta – og aldrei höfðu áður sést svo margar og jafn prúðbúnar konur. Þá var þetta í fyrsta sinn sem íslenski fáninn eins og við nú þekkjum hann var hafður uppi á fjölmennri útisamkomu sem viðurkenndur sérfáni Íslands, en Kristján konungur X hafði einnig undirritað frumvarp um sérfána Íslands þann 19. júní. Austurvöllur var fánum skrýddur og sömuleiðis Iðnó þar sem íslensku flöggin og íslensku litirnir voru yfirgnæfandi bæði á borðunum undir veisluföngin og salurinn allur.


Ingibjörg H. Bjarnason.

Sameyki stendur með jafnréttisbaráttunni og nauðsynlegt er að afhjúpa og uppræta kynbundinn launamun á íslenskum vinnumarkaði, og allsstaðar í samfélaginu. Jafn réttur og jöfn tækifæri kvenna og karla til launa og starfa eru grundvallarmannréttindi. Enn í dag er langt í land með að jafnrétti og jafnir möguleikar kynjanna verði að veruleika og ljóst er að ekki verður náð fullu jafnrétti á Íslandi fyrr en upprætt verður kynbundin launamunur og að konur fái jafna möguleika og karlar til starfa.

Heimild: Kvennablaðið.