Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

26. júní 2023

NTR ráðstefna: Leiðrétta þarf mat á virði kvennastarfa

Arna Jakobína Björnsdóttir, formaður NTR og stéttarfélagsins Kjalar.

Arna Jakobína Björnsdóttir, formaður NTR og stéttarfélagsins Kjalar setti ráðstefnuna í dag og fjallaði um í ræðu sinni um jafnrétti, stöðu verkalýðshreyfingarinnar, mat á virði kvennastarfa og stefnu stjórnvalda og sveitarfélaga að einkavæða grunnþjónustuna.

„Við viljum ekki samfélag sérhyggju, þar sem hver og einn hugsar aðeins um sjálfan sig og þar sem almennt siðgæði og samfélagsleg ábyrgð er litin hornauga. Á öllum norðurlöndunum er ásókn í samtryggingkerfi okkar þá sér í lagi frá einkaaðilum sem vilja taka yfir reksturinn. Telja stjórnmálamönnum trú að þeir geri betur en það er ekki reyndin. Einkarekstur í heilbrigðiskerfinu grefur undan félagslegum grunni kerfisins og hefur í för með sér dýrari þjónustu fyrir einstaklinga og samfélagið. Við verðum að hlúa að samtryggingarkerfinu, standa um það vörð og skulum aldrei láta það gerast að það verði rifið niður! Þetta er öryggiskerfi sem verkalýðshreyfingin hefur búið til og þarf stöðugt að verja og vernda,“ sagði Arna Jakobína.

„Íslenskar og norrænar rannsóknir sýna að kynjaskiptur vinnumarkaður er ein helsta skýring kynbundins launamunar en til að draga úr kynjaskiptingu vinnumarkaðarins og jafna laun milli atvinnugreina þarf meðal annars að kortleggja stöðuna þegar kemur að kynbundnu náms- og starfsvali, starfsþróunarmöguleikum og tækifærum til að sækja aukna þekkingu í starfi. Þrátt fyrir að Ísland standi öðrum löndum framar þegar kemur að jafnri stöðu kynjanna er enn nokkuð langt í að jafnrétti verði náð á íslenskum vinnumarkaði. Það þarf að gefa í og eru aðgerðir gegn kynbundnum launamun og að bæta réttindi kvenna og minnihlutahópa á vinnumarkaði. Það er norðurlöndunum til skammar að hafa ekki náð lengra í þessum málum en raun ber vitni.“

Þá sagði hún að róttækari aðgerðir þurfi til að breyta þessu. Og til þess þurfi verkalýðshreyfingin á norðurlöndunum að snúa saman bökum og gera þá skýlausu kröfu að borga kvennastéttum hærri laun. „Við þurfum að leiðrétta virðismat kvennastarfa,“ sagði formaður Kjalar.