Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

26. júní 2023

NTR ráðstefna: „Þetta reddast“

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson.

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, setti NTR ráðstefnuna á hótel Nordic Hilton Reykjavík í morgun. Í ræðu sinni útskýrði hann fyrir norrænum gestum ráðstefnunnar frasann eða hugtakið sem Íslendingar eru gjarnar þekktir fyrir að grípa til þegar svo virðist sem allt sé að lenda í skrúfunni – „þetta reddast“

„Ég vona að þið skiljið mína skandinavísku kæru fundargestir. Þegar ég varð forseti Íslands átti ég fund með frú Vigdísi Finnbogadóttur sem nú er 93 ára. Hún sagði við mig á þessum fundi okkar orðrétt „Þegar þú hittir Norræna fulltrúa og leiðtoga þá talarðu við þá á Norrænu tungumáli.“ Ég verð að segja að ég er líklega af síðustu kynslóð hér á landi sem getur talað skandinavísku. Þar er vegna þess að ég las Andrés Önd þegar ég var lítill drengur,“ sagði forsetinn og uppskar mikil skandinavísk hlátrasköll.

„Tungumálíð getur vafist fyrir mér eins og öðrum þegar fjallað er um dýpri og flóknari mál. Þá vil ég gjarnan tala ensku. Nú vil ég aðvara ykkur. Í fyrsta lagi, ekki fara íslensku leiðina í að leysa úr verkefnunum með frasanum „þetta reddast“. Það er ekki rétt aðferðafræði. Í öðru lagi. Ekki trúa því að við Íslendingar hugsum svona. „Þetta reddast“ er bara goðsögn, við vinnum ekki þannig, en eins og með aðrar goðsagnir þá er alltaf eitthvað sannleikskorn í þeim,“ sagði Guðni Th. Jóhannesson.

Forsetinn vitnaði í bók danska rithöfundarins og fjölmiðlakonunnar Signe Amtoft sem ber heitið Det ordner sig. Í henni segir hún frá ferð sinni um landið og rannsókn hennar á meintum þjóðareinkennum Íslendinga sem megi draga saman í máltakinu „þetta reddast“. Forsetinn er meðal viðmælanda í bókinni og á fundi hans og Amtoft ræddu þau um þjóðareðli Íslendinga og klisjur og sannindi sem tengjast umræðum á þeim vettvangi. Forsetinn sagði bókina afbragðsgóða um hugtakið „þetta reddast“.

-Er það satt að margir íslendingar hafa ekki áhuga á að þaulskipuleggja sig herra forseti?, spurði Signe.
- Mér þykir þetta vera hálfgerð klisja, en það er heldur ekki hægt að byggja brú án þess að vita hvar hún endar.

Ég sagði henni frá jákvæðari viðhorfum með þessum frasa. Sem eru: stöndum saman og gerum þetta saman. Á þann hátt þykir mér mjög vænt um þennan frasa og þannig er hann einkenni okkar Íslendinga. Ég vil segja ykkur þetta að lokum um íslensku sumarkvöldin fögur. Maður einn söng ætið sumarkvöldin fjögur, en ekki fögur. Það á vel við í dag. Ef þið eruð heppin þá eigið þið kannski eftir að upplifa þau á meðan þið dveljið hér á landi. Ég vona að þessi ráðstefna verði ykkur góð og þið njótið íslensku sumarkvöldanna fjögra,“ sagði forsetinn og fólk hló dátt við.


Knut Roger, framkvæmdastjóri NTR, færir forsetanum blómvönd í tilefni afmælidagsins.

Knut Roger, framkvæmdastjóri NTR, óskaði forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessonar til hamingju með afmælisdaginn, færði honum blómvönd og þakkaði honum komuna á ráðstefnuna sem er í fyrsta sinn í sögu NTR að  þjóðhöfðingi flytur ávarp á ráðstefnu þess.