Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

27. júní 2023

NTR ráðstefna: Leiðin fram á við er ný nálgun í efnahagsstjórn

Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB.

Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, hélt fyrirlestur í morgun á NTR ráðstefnunni sem bar yfirskriftina Saman vinnum við stóru sigrana. Hún hóf máls sitt með því að rifja upp fyrstu kröfugöngu launafólks sem haldin var 1. maí 1923 þar sem krafist var launa sem dugðu fyrir framfærslu, 8 tíma hvíldartíma og 8 tíma vinnutíma, atvinnuleysistryggingar, skattaafslátt á lægstu launin, slysatryggingar, jafnan rétt fyrir fátækt fólk og byggingu landsspítala.

Hún fjallaði um Norræna velferðarkerfið og benti á þá staðreynd að á Norðurlöndunum er víða ójöfnuður og ójafnrétti, í löndum sem stundum eru nefnd jafnréttisparadís. Á meðan er Ísland t.d. fyrir neðan meðaltal innan OECD landanna. Og atvinnutekjur kvenna á Íslandi eru 74 prósent af launum karla og því sé enn langt í land að ná fullu jafnrétti. Sonja Ýr sagði að í sögulegu samhengi hafa störf kvenna verið kerfisbundið vanmetin. Hún sagði að leiðin fram á við felist í nýjum nálgunum í efnahagsmálum og hagfræðikenningum. Nefndi hún til sögunnar þrjár konur, Stephanie Kelton, Kate Raworth og Mariana Mazzucato, allt hagfræðingar sem bent hafa á nýjar leiðir hvernig þjóðarauðnum sé skipt.

Sögur og goðsagnir
Sonja Ýr sagði að Mazzucato bendi þjóðunum á að verkalýðsfélög verða að vera í forystuhlutverki þegar kemur að því hvernig samfélögin eru skipulögð, bæði hvað varðar skatta og vinnutíma og líka hvernig innviðir þjóðanna eru uppbyggðir fyrir samfélagið, og snúa verður af þeirri leið að fjársvelta innviðina til að einkavæða þá. Sú goðsögn að einstaklingurinn á að sjá um sig sjálfur, og ef hann nær ekki endum saman stendur hann einn. Sonja Ýr sagði að þetta sé gömul og úrelt saga og nú verður að fara að segja nýja sögu.

Þá sagði hún að nýja sagan er að samfélagið ber sameiginlega ábyrgð á því að enginn einstaklingur standi einn, heldur sé studdur af samfélaginu sem við komum okkur saman um hvernig á að vera, hvernig efnahagurinn á að þjóna fólkinu en ekki öfugt, að fólkið þjóni efnahagnum. Hún sýndi fundargestum verkefni sem WEAll (The Wellbeing Economy Alliance) leiðir og stendur fyrir í samstarfi með ýmsum bandalögum og samtökum, og hreyfingum almennings sem vinna að því að umbreyta efnahagskerfinu þannig að það þjóni fólki og lífi á jörðinni.


Sonja Ýr flytur fyrirlestur á NTR ráðstefnunni.

Að lokum sagði Sonja Ýr að verkalýðshreyfingin sé stærsta friðarhreyfing í heimi. Það er afl sem getur breytt heiminum og skapað nýja framtíð fyrir afkomendurna.

„Við þurfum félagslegar áherslur til að tryggja félagslegt réttlæti. Á Íslandi er stjórnmálaflokkur sem nú stígur hátt í skoðanakönnunum, flokkur sem er að fara aftur í grunngildin. Fólk sem býr hér á Íslandi vill jöfnuð, það vill sterkt samfélag. Hérna er orðið rof á milli fólksins og stjórnmálamanna. Við í verkalýðshreyfingunni erum fulltrúar vinnandi fólks og við getum saman stuðlað að samfélagi jöfnuðar sem fólk langar til að búa í. Saman erum við sterk og saman getum við breytt heiminum, og þess vegna vil ég vitna í orð Nelson Mandela sem sagði: „It always seems impossible until it‘s done“