Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

21. ágúst 2023

Launafólki ekki skylt að mæta til trúnaðarlæknis í veikindum

Ákvæði kjarasamninga um trúnaðarlækna fela ekki í sér skyldu að mæta til skoðunar hjá trúnaðarlækni vinnuveitenda

Eftir Jennýju Þórunni Stefánsdóttur

 

Í júní síðastliðnum staðfesti Landsréttur þá afstöðu sem fram kom í dómi Félagsdóms í máli nr. 3/2022 frá 23. nóvember 2022, KÍ gegn Sambandi íslenskra sveitarfélaga um hvort launfólki væri skylda til að mæta til trúnaðarlæknis í veikindum. Í dómi Félagsdóms er fjallað um ákvæði kjarasamnings sem snýr að trúnaðarlæknum, sambærilegt ákvæði er að finna í mörgum kjarasamningum á íslenskum vinnumarkaði hvort sem um er að ræða almenna eða opinbera vinnumarkaðinn.

 

Sjúklingur leitar til þess læknis sem hentar honum best
Í niðurstöðu Félagsdóms kemur meðal annars fram að ekki sé hægt að skýra kjarasamninga á þann hátt að vinnuveitandi geti skyldað starfsfólk til að mæta til trúnaðarlæknis. Að mati dómsins varð ekki ráðið af kjarasamningsákvæðinu að trúnaðarlæknir þyrfti í öllum tilvikum að hitta starfsmann til að gefa út læknisvottorð, enda taldi dómurinn að unnt væri að sannreyna vinnufærni með öðrum hætti, svo sem á grundvelli sjúkraskrár og upplýsinga frá öðrum læknum. Dómurinn horfði til þess að meginreglan væri sú að sjúklingur gæti leitað til þess læknis sem honum hentaði best, sbr. 20. gr. laga nr. 74/1997, og að heilsufar teldist til einkamálefna fólks sem nýtur verndar samkvæmt 71. gr. stjórnarskrárinnar.

Í niðurstöðukafla dómsins sagði að heimild vinnuveitanda til að gefa starfsmanni fyrirmæli um að mæta til trúnaðarlæknis í því skyni að upplýsa um heilsufar sitt og eftir atvikum sæta skoðun væri talið íþyngjandi í garð starfsmannsins. Dómurinn taldi að orða hefði þurft svo afdráttarlausa heimild vinnuveitanda með skýrum hætti í kjarasamningi aðila hefði ætlunin verið að semja um hana. Þó taldi dómurinn ekki loku fyrir það skotið að aðstæður geti verið með þeim hætti að trúnaðarlæknir kæmist að niðurstöðu um að ekki væri mögulegt að gefa út læknisvottorð nema að undangengnu viðtali eða skoðun á viðkomandi starfsmanni þó ljóst væri að þær aðstæður heyrðu til undantekninga. Yrði starfsmaður í slíku tilviki ekki við beiðni trúnaðarlæknis um að mæta til viðtals eða skoðunar kynni það að leiða til þess að læknirinn gæti ekki með vottorði staðfest óvinnufærni eða eftir atvikum vinnufærni viðkomandi starfsmanns.

Hins vegar komst dómurinn að þeirri niðurstöðu að kjarasamningur aðila yrði ekki túlkaður með þeim hætti að í honum fælist heimild vinnuveitanda til að gefa starfsmanni fyrirmæli um að mæta til trúnaðarlæknis.


Ákvæði kjarasamninga um trúnaðarlækna fela ekki í sér skyldu að mæta til skoðunar hjá trúnaðarlækni vinnuveitenda
Dómur Landsréttur nr. 168/2022 frá 2. júní síðastliðinn staðfesti dóm Félagsdóms um að starfsfólki beri að jafnaði ekki skylda til að mæta til skoðunar hjá trúnaðarlækni í veikindaforföllum. Í dóminum var meðal annars ágreiningur um hvort starfsmanni hafi borið skylda til að sæta skoðun hjá trúnaðarlækni og kom til skoðunar ákvæði 4.1.2. í kjarasamning aðila. Ákvæðið mælir fyrir um að starfsmaður sem er óvinnufær vegna veikinda sé skylt að gangast undir hverja þá venjulega og viðurkennda læknisrannsókn sem trúnaðarlæknir kynni að telja nauðsynlega til þess að skorið yrði úr því hvort forföll væru lögmæt. Landsréttur vísaði til ofangreinds félagsdóms og sagði hann hafa fordæmisgildi við úrlausn málsins. Dómurinn taldi að ákvæði kjarasamninga um trúnaðarlækna fælu ekki í sér skyldu til að mæta til skoðunar hjá trúnaðarlækni vinnuveitanda.

Starfsmaðurinn aflaði þriggja læknisvottorða á meðan á veikindatímabili stóð. Vottorðin kváðu samkvæmt efni sínu á um að starfsmaðurinn hefði verið óvinnufær með öllu vegna sjúkdóms á tímabilinu 17. maí 2021 til 14. júlí sama ár. Starfsmanninum var ekki skylt að mæta til trúnaðarlæknis vinnuveitanda til skoðunar en hins vegar stóð ekkert í vegi fyrir því að aflað yrði vottorðs trúnaðarlæknis samkvæmt grein 4.1.2 í kjarasamningi þeim er gilti um starfskjör starfsmannsins. Taldi dómurinn að staðið hafi vinnuveitanda nær að ganga eftir því, í kjölfar þess að starfsmaðurinn mætti ekki til boðaðrar skoðunar hjá trúnaðarlækni, að læknirinn ynni allt að einu vottorð um heilsufar eftir þeim reglum sem gilda um gerð slíkra vottorða.

Var talið að starfsmaðurinn hefði fært á það sönnur með þeim læknisvottorðum sem hún aflaði og kom til vinnuveitanda að hún hefði verið óvinnufær með öllu vegna sjúkdóms á umræddu tímabili. Dómurinn féllst því ekki á þá afstöðu vinnuveitanda að starfsmaður hafi með því að mæta ekki til skoðunar hjá trúnaðarlækni brotið gegn kjarasamningsbundnum skyldum sínum.


Niðurstaða dómanna eðlileg og sanngjörn
Sameyki stéttarfélag í almannaþjónustu telur þessa túlkun Félagsdóms og Landsréttar sanngjarna og eðlilega. Því miður er of algengt að vinnuveitendur skyldi starfsfólk til að sæta skoðun hjá trúnaðarlækni vinnuveitenda þegar veikindi starfsfólks verða langvarandi. Þetta á við bæði þegar starfsfólk fer í veikindaleyfi og eru frá vinnu í einhvern tíma, eða þegar vinnuveitandi óskar eftir staðfestingu þess efnis að starfsmaður sé fær um að koma aftur til starfa. Bindur Sameyki vonir við að framkvæmdin í þessum málum verði betri en verið hefur og að niðurstöður dómanna verði virt, öllum til hagsbóta.

Lesa má niðurstöðu Félagadóms hér.
Lesa má niðurstöðu Landsréttar hér

 

Höfundur er lögfræðingur hjá Sameyki.