21. ágúst 2023
Segir að ekki gangi að velferðarkerfið grundvallist á vinnu kvenna á afsláttarkjörum
Sonja Ýr Þorbergsdóttir formaður BSRB.
Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, var í viðtali í fréttaskýringaþættinum Speglinum í síðustu viku. Þar sagði hún að það væri löngu vitað að laun þeirra sem starfa á leikskólum séu lág og ekki samanburðarhæf við störf sem ættu að vera jafngild á vinnumarkaði.
Sonja Ýr sagði að mannekla og mikil starfsmannavelta á leikskólum og hjá mörgum umönnunarstéttum endurspeglar það að rangt var gefið í upphafi. Þá segir hún að ekki gangi að velferðarkerfið grundvallist á vinnu kvenna á afsláttarkjörum.
„Þetta eru störf sem konur sinntu ólaunuð inn á heimilunum en færðust svo út á vinnumarkaðinn, eins og á við svo mörg störf í heilbrigðisþjónustu, velferðarþjónustu, og í menntakerfinu og voru þá einfaldlega verðlögð lægra en jafn mikilvæg störf. Það var því rangt gefið frá upphafi og ekki bara hægt að horfa til sömu hlutfallslegu hækkana í kjarasamningum og í öðrum geirum,” sagði Sonja Ýr.
Hlusta má á viðtalið við formann BSRB hér.