23. ágúst 2023
Formaður Sameykis segir stýrivaxtahækkanir viðstöðulausa aðför að almenningi
Þórarinn Eyfjörð, formaður Sameykis.
Þórarinn Eyfjörð, formaður Sameykis segir hækkanir stýrivaxta Seðlabanka Íslands viðstöðulausa aðför að almenningi á Íslandi og að fjarvera ríkisstjórnarinnar veki sérstaka athygli á meðan almenningur og launafólk tekur höggið. Þá segir Þórarinn að ríkisstjórnin ætli ekki að hjálpa þjóðinni með því að gera breytingar á skattkerfinu né millifærslukerfunum sem hafa verið skert í tíð ríkisstjórnarinnar.
„Þetta ferli sem hefur verið í hækkun stýrivaxta hefur tekið á sig þá mynd að það er verið að gera viðstöðulausa atlögu að almenningi. Fjarvera ríkisstjórar Íslands við stjórnun efnahagsmála hefur vakið sérstaka athygli í því samhengi. Ríkisstjórnin ætlar sér ekki að verja almenning og launafólk með sértækum aðgerðum, heldur á það að taka á sig höggið. Ríkisstjórnin ætlar ekki að hjálpa fölskyldum þessa lands að komast í gegnum þá skafla sem nú blasa við. Það á ekki að gera róttækar breytingar á skattkerfinu og millifærslukerfunum, bankarnir fá að leika lausum hala í glórulausum hækkunum á vöxtum og þjónustugjöldum og engar skorður eða skynsöm gjaldtaka er tekin af ferðaþjónustunni. Hvað þá heldur að það sé verið að taka til hendinn og koma böndum á húsnæðismarkaðinn. Þetta eru glæsileg skilaboð eða hitt þá heldur inn í kjarasamningavinnuna sem núna er að fara af stað á öllum vinnumarkaðanum,“ segir formaður Sameykis.