24. ágúst 2023
Formaður BSRB segir ríkissjórnina þjóna fáum útvöldum
Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB á baráttufundi launafólks 1. maí. Ljósmynd/BSRB
Á vef Heimildarinnar í gær birtir Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, pistil undir heitinu Nóg til frammi? og segir þar frá dæmisögu úr boðinu þar sem fleygt er fram setningunni „það er nóg til frammi“, oftast af konum, mæðrum þessa lands og vísar til þess að þær hafa gætt þess að okkur líði vel, allir fá nóg og engin sé hafður útundan. Sonja Ýr kallar eftir því í pistli sínum að ef fleiri einstaklingar hefðu þetta viðhorf, ekki síst ríkisstjórn Íslands sem formaður BSRB segir að horfi fram hjá því að sumir í boðinu þar sem nóg er til frammi hrúgi á diskinn sinn með þeim afleiðingum að lítið sem ekkert verður eftir fyrir aðra. Það sé ekki jöfnuður heldur tillitsleysi gangvart öðru fólki – hinum gestunum í boðinu.
„Misskipting tekna og eigna fer vaxandi og sú mikla samþjöppun auðs sem er að verða hér á landi er skaðleg fyrir samfélagið, ýtir undir stéttaskiptingu, dregur úr félagslegri samheldni og eykur hættu á misbeitingu pólitísks valds. Stjórnvöld horfa þannig fram hjá því að sumir hrúga á diskinn sinn í boðinu með þeim afleiðingum að lítið verður eftir fyrir aðra. Sumum er svo einfaldlega ekki boðið að vera með.“
Sonja Ýr segir að þannig sé komið með stjórn efnahagsmála hjá ríkisstjórninni sem könnun Vörðu – rannsóknarstofnun vinnumarkaðarins staðfesti að tæplega helmingur vinnandi fólks á erfitt með að ná endum saman og búa við þungar byrðar m.a. vegna hækkandi húsnæðiskostnaðar.
„Samkvæmt umfangsmiklum mælingum Vörðu – rannsóknastofnunar vinnumarkaðarins, á tæplega helmingur vinnandi fólks erfitt með að ná endum saman og fer það hlutfall sífellt hækkandi. Tæplega kemur á óvart að þeim fer fjölgandi sem búa við þunga byrði vegna húsnæðiskostnaðar og sérstaklega hátt hlutfall einstæðra foreldra og innflytjenda býr við efnislegan skort. Ríflega helmingur einstæðra mæðra og ungra kvenna býr einnig við slæma andlega heilsu. Slæm félags- og efnahagsleg staða og þunglyndi eru systur en í núverandi dýrtíð er sjaldnast tekið tillit til þess né hvaða áhrif það hefur á fjölskyldulíf eða líðan barna. Aðrar rannsóknir sýna að börn eru í mestri hættu á að búa við fátækt. Þessar niðurstöður lýsa alvarlegum brestum í samfélagsgerð okkar,“ segir Sonja Ýr.
Þá gagnrýni Sonja Ýr harðlega stjórnvöld, atvinnurekendur, ráðherra ríkisstjórnarinnar og seðlabankastjóra fyrir að beita almenning hræðsluáróðri. Þá segir hún að krafist verði jöfnuðar í næstu kjarasamningum, að allir fái nóg á diskinn sinn í boðinu og að verkalýðshreyfingin muni gera kröfur um nauðsynlegar samfélagsbreytingar. Brauðmolakenningin sé úr sér gengin, breyta verður því hvernig tekjuöflun ríkisins er háttað og losa þurfi þjóðina úr fjötrum úreltrar efnahagsstjórnar sem þjónar bara fáum en ekki öllu samfélaginu.
„Sami gamli söngurinn um að launafólk megi ekki gera of miklar kröfur er þegar hafinn hjá atvinnurekendum og ráðherrum, auk seðlabankastjóra – en svo virðist sem allar fjárhirslur tæmist heppilega rétt fyrir hverja kjarasamningslotu. Hræðsluáróðurinn byggir að sjálfsögðu á mótstöðu þeirra við breytingar í átt að aukinni valddreifingu og tilfærslu á fjármagni frá þeim fáu til þeirra mörgu.
Kröfur verkalýðshreyfingarinnar í aðdraganda næstu kjarasamninga felast í uppstokkun á þessu öllu. Það verður jöfnum höndum að tryggja kjarabætur í gegnum launaumslagið og mikilvægar samfélagsbreytingar til að bæta lífsskilyrði fyrir öll. Þar munu brauðmolar ekki nægja til heldur þarf að tryggja að öll fái boð í veisluna og fái nóg á diskinn sinn í samfélagi meiri jöfnuðar og manngæsku.“
Lesa má pistil formanns BSRB á vef Heimildarinnar hér.