29. ágúst 2023
NSO ráðstefna: Norrænu þjóðirnar ættu að taka forystu í loftslagsmálum
Þórarinn Eyfjörð, formaður Sameykis.
Þátttakendur í pallborðsumræðum um umhverfismál og loftslagsbreytingar sem tóku til máls voru Þórarinn Eyfjörð, formaður Sameykis, Tomas Oskarsson, ritari ST stéttarfélags í Svíþjóð, og Súni Falkvard Selfoss formaður Starvsfélagsins í Færeyjum.
Þórarinn Eyfjörð ræddi um loftslagsmálin og hvernig Sameyki hefur lagt sitt af mörkum til að vekja athygli á loftslagsmálum í heimalandinu t.d. með trúnaðarmannakerfi félagsins, ritaðra greina um loftslagsmál og ráðstefnu sem umhverfis- og loftslagsnefnd félagsins stóð fyrir um hamfarahlýnunina og hvað þarf að gera til að vekja athygli stjórnvalda á þeim vanda sem Ísland stendur frammi fyrir.
Ferðamannaiðnaðurinn og stóriðjan mengar mest á Íslandi
„Á Íslandi er verið stuðla að betri flokkun sorps, þá hafa stéttarfélögin eflt þekkingu er varðar umhverfismál almennt. Varðandi stóru myndina er ferðamannaiðnaðurinn stjórnlaus og veldur mikilli mengun. Innviðirnir þola ekki þetta mikla álag sem ferðamannaiðnaðurinn skapar. Landið hefur aukið stórlega innflutning á olíu og við Íslendingar höfum fleygt því fram að við séum mestu umhverfissóðar í heiminum. Mesta mengunin á Íslandi er frá stóriðjunni, álbræðslunni sem notar 85 prósent af öllu rafmagni sem framleitt er á Íslandi. Þá er ferðamannaiðnaðurinn mjög mengandi eins og ég sagði áðan en sú mengun fer vaxandi með auknum staumi ferðamanna til landsins. Þriðji stærsti mengunarvaldurinn fyrir utan stóriðjuna er svo flugið. Við þurfum að setja þessum stjórnlausa vexti í ferðamannaiðnaðinum skorður með því að auka gjaldtöku, einnig þarf að leggja sanngjarna skatta á áliðnaðinn á Íslandi sem flytur allan hagnaðinn úr landi. Þetta tel ég vera nauðsynlegt að komist til framkvæmda í okkar samfélagi til að bregðast við loftslagsvandanum,“ sagði Þórarinn.
Rætt um loftslagsmálin á ráðstefnu NSO. F.v. Tomas Oskarsson, Þórarinn Eyfjörð og Súni Falkvard Selfoss.
Ríkisstjórn Svíþjóðar mætti gera betur
Ritari ST stéttarfélagsins í Svíþjóð, Tomas Oskarsson, sagði að ríkisstjórnin þar í landi virðist ekki kæra sig um loftslagsmál og það séu nokkur vonbrigði. „Í Svíðþjóð hefur verið nokkur afturför með nýrri ríkisstjórn landsins vegna þess að hún leggur ekki nógu mikla áherslu á þennan málaflokk. Talað er um kosti kjarnorkuvera og nauðsynlega lækkun á bensínverði. Þetta þýðir í raun að stefnan er að menga meira. Umhverfis- og sjávarútvegsráðherra Svíþjóðar, Romina Pourmokhtari, hefur ekki tjáð sig með afgerandi hætti um loftskagsvánna og ég er mjög áhyggjufullur vegna þessa afstöðuleysis ráðherrans,“ sagði Tomas Oskarsson.
Færeyingar ætla að losa sig við jarðolíu sem orkugjafa
Súni Falkvard Selfoss, formaður Starvsfélagsins stéttarfélags opinberra starfsmanna í Færeyjum, segir að stefnt sé að því að orkuskiptin munu verða fólgin í því að skipta út olíu sem að mestu notuð til að kynda hús fyrir sólarsellur á þökum húsa og að reistar verði fleiri vindmyllur í hafi og einnig að raforka verði framleidd aðallega með raforkuframleiðslu í gegnum hafstrauma sem skapast vegna sjávarfalla.
„Þetta er gert með því að koma fyrir einskonar túrbínum á hafsbotni milli eyjanna sem virkja hafstraumana og sjávarföllin. Ríkisstjórnin hefur tekið þá ákvörðun að ráðast í þessar framkvæmdir og í framtíðinni verður engin orka fengin úr jarðefnaolíu. Við hjá Starvsfélaginu höfum verið með í þessum ákvörðunum og við teljum það mikilvægt að verkalýðsfélagið okkar sé virkt og taki þátt í ákvörðunum sem varðar samfélagið okkar,“ sagði Súni Falkvard Selfoss.
Frá vinstri. Anna Linell, Tomas Oskarsson, Þórarinn Eyfjörð og Súni Selfoss.
Anne Linell sem stjórnaði pallborðsumræðunum taldi upp mikilvægi þess að þjóðir Norðurlandanna tækju forystu í loftslagsmálum og sýndu með aðgerðum að þeim væri alvara.