Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

30. ágúst 2023

NSO ráðstefna: Heimsmyndin er að breytast

Lars Holmqvist, sérfræðingur í þjóðaröryggismálum ræddi um breytta heimsmynd á fundi NSO.

Lars Holmqvist, sérfræðingur í þjóðaröryggismálum með bakgrunn og menntun í efnahagsmálum, fjallaði um breytta heimsmynd á NSO ráðtefnunni sem haldin er í Arild í Svíþjóð.

Lars sagði að heimsmyndin eða miðja heimsins hverfist öll um öflugustu ríki heimsins. Tíu öflugustu ríkin eru Bandaríkin, Kína, Rússland, Indland, Þýskaland, Bretland, Japan, Frakkland, Ítalía og Suður-Kórea. Hin ríkin eru fyrir utan hringin, miðju heimsmyndarinnar, og sum ríki mjög utarlega eins og Norðurlöndin. Þau hafa litla þýðingu í þessari heimsmynd þegar kemur að stríðsátökum stórveldanna - eðlilega vegna smæðar sinnar.

„Þetta þýðir að þau ríki sem eru utan við þessa miðju eru lítilmagninn. Í tíu öflugustu ríkjunum býr u.þ.b. helmingur jarðarbúa en mannfjöldi veitir þeim margbreytilegan styrk á sviði hernaðarmála og efnahagsmála. Hafa ber í huga þegar löndin eru borin saman hversu ólík gildi þjóðirnar hafa, bæði hvað varðar trúarbrögð, lífsgildi og samfélagsgerð. Í Evrópu og sérstaklega í Skandínavíu gilda t.d. Lúthersk lífsgildi, sem eru auðvitað mjög ólík mörgum gildum öflugustu ríkja heimsins, og því er það mikilvægt að við skiljum gildi annarra þjóða sérstaklega með tilliti þjóðaröryggis til að komast hjá hernaðarátökum. Lúthersku lífsgildin binda þannig Evrópuþjóðirnar saman má segja vegna sameiginlegra grunngilda,“ sagði Lars.

Hann sagði að heimsmyndin skiptist í tvo meginhluta eftir hernaðar og efnahagsstyrk þeirra; Bandaríkin, Kína og Rússland, og svo af löndum á suðurhluta hnattarins annars vegar og Evrópu hins vegar. Þessi ríki og heimsálfur standa öll í átökum við hvort annað, annað hvort beinum stríðsátökum og/eða í efnahagslegum og pólítískum átökum.

„Þessir hlutar heimsmyndarinnar standa í átökum, stríðum. Þó að í Kína sé meginhluti þjóðarinnar að eldast er talið að það heimsveldi muni taka fram úr Bandaríkjunum hvað varðar velferð þegnana. Kína er nú næst fjölmennasta ríkið á eftir Indlandi, og er með næst stærsta efnahagskerfið á eftir Bandaríkjunum. Rússland er í samanbuði við Kína efnahagslegur dvergur. Áður en innrásarstríð Rússlands í Úkraínu hófst, var töluverð ásókn ungs fólks frá Kína til Rússlands, jafnvel líka frá löndum Evrópu. Nú langar engum að flytja þangað.


Lars Holmqvist fjallar um breytta heimsmynd. 

Eins og áður sagði eru Bandaríkin enn efnhagslega sterkasta veldið ásamt því að vera hernaðarlega langt öflugast með bandamönnum sínum í NATO og fólk allstaðar að úr heiminum sækist eftir því að setjast að í Bandaríkjunum. Það er bæði að flýja stríðsátök, efnahagslega örbyrgð og pólítískar ofsóknir. Fólk flytur þó enn að stærstum hluta til landa sem samræmast lífsgildum og trúarbrögðum þeirra. Sunnarlega á hnettinum í Suður-Ameríku er mikill vilji hjá stjórnvöldum landanna að styrkja stjórnmálasamband og samstarf við Rússland og Kína sem áður tryggðu lag sitt við Bandaríkin og sóttust eftir vestrænum lífsgildum. Þá eru stjórnvöld í Kína og Rússlandi einnig að efla með markvissum hætti sambönd sín við mörg Afríkuríki. Þannig er heimsmyndin að breytast. Lönd sem eiga í átökum eru á hreyfingu í leit að nýjum bandamönnum, bæði efnahagslega og á hernaðarsviðinu. Hvað varðar Norðulöndin hafa þau vegna stríðsátakanna í Úkraínu bæði æft og sammælst um viðbragðsáætlanir og innan Norðurlandanna er mikil samstaða um hvernig bregðast á við ef til átaka kemur - Ísland og Færeyjar eru þar ekki undanskilin.

Það sem er þó mjög gott við heimsmyndina er samstarfið innan Sameinuðu þjóðanna. Þar er reynt að draga úr átökum og ágreiningu, styrkja samstarfið milli landanna, byggja á sameiginlegum mannlegum gildum og ljá smáþjóðum eins og okkar á Norðurlöndunum röddu. Þá er meginmarkmið á vettvangi Sameinuðu þjóðanna að stuðla að friði á jörð,“ sagði Lars að lokum.