Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

30. ágúst 2023

NSO ráðstefnan haldin næst í Finnlandi 2025

Britta Lejon hjá ST stéttarfélagi opinberra starfsmanna í Svíþjóð. Ljósmynd/Axel Jón

Á þessum síðasta degi samnorrænu ráðstefnu stéttarfélaga opinberra starfsmanna sem haldin er í Arild í Svíðþjóð var rætt mikið um hvað stéttarfélög landanna gætu gert í þeim risavöxnu verkefnum sem þau standa frammi fyrir. Fyrst og fremst var fjallað um umhverfis- og loftslagsmál og svo öryggismál þjóðanna.

Britta Lejon hjá ST stéttarfélagi opinberra starfsmanna í Svíþjóð skipulagði málefni ráðstefnunnar. Hún áréttaði að samnorræn samvinna stéttarfélaga opinberra starfsmanna á Norðurlöndunum sé ákaflega mikilvæg og getur skipt sköpum í mótun þessara opnu og frjálsu samfélaga Norðurlandanna í framtíðinni.

„Ég vil þakka ykkur kæru vinir fyrir þátttökuna. Ég vil leggja mikla áherslu á að með samvinnu stéttarfélaganna á þessum vettvangi getum við skapað saman betra samfélag, veitt félagsfólki okkar betri kjör og réttindi og veitt stjórnmálunum nauðsynlegt aðhald. Upplýsingarnar sem við deilum saman og skiptumst á um norrænan vinnumarkað og stöðu stjórnmálanna á Norðurlöndunum er lykilatriði. Lofslags- og öryggismálin hafa verið fókuspunkturinn núna á þessari ráðstefnu og við skiljum hvers vegna. Þessar hættur steðja að og við verðum að bregðast strax við hamfarahlýnuninni.

Í loftslagsmálunum ættu Norðurlandaþjóðirnar að taka forystu og leiða vagninn að markmiðum Sameinuðu þjóðanna um takmörkun á losun koltvísýrings út í andrúmsloftið. Samvinna þjóðanna á sviði þjóðaröryggis er mikilvægari nú en kannski áður. Við erum upplýstari eftir þennan góða fund hér í þessu fallega þorpi Arild á Skáni í Svíþjóð og við hlökkum til næstu ráðstefnu sem haldin verður í Finnlandi árið 2025,“ sagði Britta að lokinni NSO ráðstefnu.