14. september 2023
Formaður Sameykis ræðir um átökin í samfélaginu
Þórarinn Eyfjörð, formaður Sameykis.
Þórarinn Eyfjörð, formaður Sameykis, var í viðtali við Gunnar Smára Egilsson við Rauða borðið í gær og komið var víða við í spjalli þeirra um samfélagið. Umræðuefnið var spilling skipafélaganna og afleiðingarnar af henni á neytendur. Rætt var um kjaramál, verkalýðspólitík, skattamál, menntamál, auðlindamál, aðförina að ríkisstofnunum, Íslandsbankasöluna o.m.fl.
Hann sagði að sú spilling sem þjóðin er nú vitni að er ekkert nýtt í íslensku viðskiptalífi, og nefndi til sögunnar samráð olíufélaganna á sínum tíma, viðskiptasiðferðið í aðdraganda hrunsins, sem ekki virðist hafa neitt breyst, og ásókn fjármálaaflanna í eigur þjóðarinnar.
Spurður um skipulagt spillingarsamráð skipafélaganna sagði Þórarinn: „Við getum farið aftur í tímann þegar samráð olíufélaganna var. Maður hélt á þeim tíma að það myndi hafa þau áhrif að stærri leikendur á markaði myndu ekki fara aftur í Öskjuhlíðina og eiga þar vináttusamtal um hvernig þeir ættu að níðast á neytendum og fyrirtækjum í landinu. Það virtist heldur betur ekki rétt, þessi spilling kemur upp á yfirborðið aftur og aftur. Þetta er skipulagður þjófnaður á markaði þar sem fólk talar um og hefur þá trú að skapi bestu verðmyndinuna á markaði sem við sjáum að er bara þvæla. Þessir einstaklingar sem eru þarna aðalleikendur telja að þeir komist bara upp með að haga sér með þessum hætti.“
Aðförin að eftirlitsstofnunum
Þórarinn sagði að það sé þekkt í sögunni þegar upp um spillingu kemst eru ríkisstofnanir lagðar niður í kjölfarið, eða þeim er komið fyrir í ráðuneytum til að veikja þær. Í samfélagi þar sem eru veikar eftirlitsstofnanir þrýfst spillingin.
„Davíð Oddson lagði niður Þjóðhagsstofnun á sínum tíma vegna þess að spáin var honum ekki hagstæð. Stofnunin var gagnrýnin og benti á hluti sem hann var ekki ánægður með. Þá var farið í það að leggja hana niður. Fjalla má um Samkeppnisstofnun með svipuðum hætti. Sama gildir um embætti Skattrannsóknarstjóra. Þegar stofnanir stíga svona fast fram með stjórnendum sem reyna að framfylgja því hlutverki sem þeim er treyst fyrir í samfélaginu og hafa hingað til gert það vel, þá er næsta víst að morgunin eftir er komin hugmynd um að leggja stofnunina niður.“
Hægt er að horfa á viðtalið við Þórarin Eyfjörð á vef Samstöðvarinnar eða í spilarnum hér að neðan.