Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

20. september 2023

Ferðatími á vegum vinnu er vinnutími

Ferðatími á vegum vinnu er vinnutími.

Þann 15. september sl. féll dómur Landsréttar í máli nr. 197/2022 þar sem Landsréttur staðfestir dóm Héraðsdóms Reykjavíkur nr. 967/2019 frá 11. febrúar í fyrra um að tíma sem varið væri í ferðalög utan hefðbundins vinnutíma til annars áfangastaðar en hefðbundinnar starfsstöðvar, í því skyni að inna af hendi störf eða skyldur, að kröfu vinnuveitanda, teldist vinnutími í skilningi 1. töluliðar 2. gr. tilskipunar 2003/88/EB.

Í málinu var deilt um það hvort ferðatími flugvirkja sem vann hjá Samgöngustofu og ferðaðist frá Íslandi til Ísraels og til baka annars vegar og frá Íslandi til Sádí-Arabíu og til baka hins vegar teldist vinnutími. Flugvirkinn hafði einungis fengið greitt fyrir dagvinnutíma á ferðalagi sínu en hafði ekki fengið greitt fyrir þann tíma sem féll utan dagvinnu. Krafðist flugvirkinn því viðurkenningar á því að tíminn sem hann varði í ferðir á vegum Samgöngustofu til útlanda teldist vinnutími, þ.e. frá því að hann yfirgaf heimili sitt og þar til hann kom á áfangastað og síðan öfugt á heimleiðinni.

 

Ráðgefandi álit EFTA-dómstólsins
Þar sem málið reyndi á túlkun á Evróputilskipun sem innleidd er í EES-rétt var óskað eftir ráðgefandi áliti EFTA-dómstólsins í Lúxemborg um túlkun á vinnutímaskilgreiningu tilskipunarinnar. Í álitinu kom fram að starfsmenn teljast vera að inna af hendi störf sín eða skyldur samkvæmt ráðningarsambandi þegar þeir fara í ferðir til þess að sinna verkefnum sem vinnuveitandi þeirra hefur tilgreint til staðar í öðrum löndum fjarri fasti eða hefðbundinni starfsstöð.

Í álitinu segir jafnframt að til að vernda öryggi og heilsu starfsmanna er óhjákvæmilegt að telja nauðsynlegan ferðatíma með í hugtakinu vinnutími. Í þeim tilvikum sem starfsmaður þarf að sinna ákveðnum verkefnum fjarri fastri starfsstöð ber að telja ferðir hans til og frá þeim stað eiginlegan þátt í starfi hans og teldist því í skilningi vinnuverndarlaga vinnutími. Héraðsdómur tók undir það sem fram kom í áliti EFTA-dómstólsins og með dómi Landsréttar var niðurstaða héraðsdóms staðfest með vísan til forsendna.

 

Sameyki fagnar niðurstöðu Landsréttar
Niðurstaða Landsréttar er í samræmi við þá túlkun sem Sameyki og önnur stéttarfélög hafa lagt til grundvallar. Hins vegar kann að vera að ríkið óski eftir áfrýjunarleyfi til Hæstaréttar og reyni að fá dómi Landsréttar hnekkt. Því kann að vera að ekki sé um endanlega niðurstöðu að ræða. Engu að síður fagnar Sameyki niðurstöðu Landsréttar enda verður að telja það skjóta skökku við að starfsmaður sem ferðast frá t.d. 5:00 að morgni og er á samfelldu ferðalagi til klukkan 18:00 að kvöldi fái einungis dagvinnutímabilið greitt, þ.e. frá 8-16. Eðlilegra er að líta á ferðatíma viðkomandi starfsmanns á vegum vinnunnar sem vinnutíma en ekki hvíldartíma.

Hægt er að lesa dóminn í heild sinni hér.