2. október 2023
Tímarit Sameykis á leið í pósti til félagsfólks
Tímarit Sameykis.
Þriðja tölublað Sameykis á þessu ári er nú leið í pósti til félagsfólks.
Félagsfólk í Sameyki sem starfar hjá Reykjavíkurborg eru liðlega fimm þúsund talsins og er stærsti einstaki hópurinn frá einum vinnustað innan Sameykis. Félagsfólkið samanstendur af 63% kvenna og 37% karla og er af stærstum hluta á aldursbilinu 16-45 ára. Ungar konur innan félagsins eru því í miklum meirihluta starfandi hjá borginni og sinna þar mikilvægum störfum í grunnþjónustunni; þjónustu við fatlaða, umönnunarstörfum, frístundar- og menningarstörfum, og uppeldis- og fræðslustörfum. Borgarstjóri, Dagur B. Eggertsson er í viðtali og ræðir hann um stéttarfélagsmál og stjórnmál. Borgarstjóri segir m.a. að mikilvægt sé að vera alltaf vakandi yfir launamun kynjanna og með hjálp starfsmatsins hafi gengið vel að rétta þann launamun sem er nú innan við eitt prósent hjá borginni.
Spillingin á Íslandi
Þórarinn Eyfjörð skrifar um Samskipamálið og spillinguna og segir m.a.: „Ríkisstjórnin verður nú að taka í taumana og bregðast við, efla eftilitsstofnanir þjóðarinnar svo um munar í stað þess að veikja þær, viðurkenna spillinguna sem grasserar undir niðri og stöðva aðförina gegn almenningi. Ríkisstjórnin veit jafnvel og almenningur að hér ríkir spilling. Hvar annarsstaðar en í spillingarlandi eru eftirlitsstofnanirnar lagðar niður svo hægt sé að fela spillinguna og veikja lýðræðið?“
Varða rannsakar fjárhagsstöðu félagsfólks í Sameyki
Kristín Heba Gísladóttir, framkvæmdastjóri Vörðu-rannsóknastofnunar vinnumarkaðarins, skrifar um könnun sem stofnunin gerði fyrir Sameyki. Þar kemur fram að þegar fjárhagsstaða félagsfólks í Sameyki er borin saman við meðaltalsstöðu félagsfólks í öðrum aðildarfélögum BSRB og ASÍ á svipað hlutfall erfitt eða mjög erfitt með að ná endum saman. Niðurstöðurnar sýna að fjárhagsstaða þeirra sem starfa í heilbrigðisþjónustu er verst. Staða þeirra sem starfa við fræðslu-, uppeldis-, kennslu og tómstundastörf og í öðrum greinum er einnig nokkuð verri en þeirra sem starfa við stjórnsýslu, fjármálaþjónustu, upplýsingatækni og almenn skrifstofustörf.
Kvennaverkfall 24. október
Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, situr í framkvæmdastjórn um Kvennaverkfall. Hún segir: „Við fléttum saman baráttur okkar og leggjum niður störf til að sýna að sameiginlegur kraftur okkar er óstöðvandi. Þannig ætlum við að breyta samfélaginu og knýja fram jafnrétti strax. Okkar grundvallarkröfur eru að kynbundu ofbeldi verði útrýmt og kvennastörf verði metin að verðleikum.
Sjáumst á Arnarhóli og baráttufundum víðs vegar um landið kl. 14 þann 24. október næstkomandi!“
Margt fleira er í nýjasta tímariti Sameykis ásamt föstum liðum; Gott að vita námskeið fyrir félagsfólk í Sameyki, fréttir af norrænu samstarfi, Stoppað í matargatið, krossgátan, skop Halldórs Baldurs, fréttir af vettvangi Sameykis, uppbyggingu nýrra orlofshúsa við Úlfljótsvatn ofl.