Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

3. október 2023

Blásið til allsherjar kvennaverkfalls 24. október

Frá kvennaverkfallinu 1975. Ljósmyndari: Ólafur K. Magnússon

Á fjórða tug samtaka kvenna, hinsegin fólks og launafólks blása til heils dags kvennaverkfalls þann 24. október næstkomandi. Um þetta var tilkynnt á blaðamannafundi í Höfuðstöðinni í hádeginu í dag.

Konur og kvár sem geta eiga að leggja niður störf; ekki mæta til vinnu, ekki annast börnin s.s. gefa þeim mat eða smyrja nesti né sinna veikum fjölskyldumeðlimum heldur fá karlkyns fjölskyldumeðlim til að standa vaktina. Sleppa á öllu sem gæti talist til starfa hvort sem er átt við launaða vinnu, eða ólaunaða líkt og umönnun barna, sinna heimilinu eða þriðju vaktina svokölluðu. Svo eru þau hvött til mæta á útifundi á Arnarhóli eða í sinni heimabyggð og sýna samstöðu í verki.

Þótt mikið hafi áunnist frá árinu 1975 hefur ekki verið orðið við þeirri meginkröfu að störf kvenna séu metin að verðleikum. Atvinnutekjur kvenna eru enn 21% lægri en karla og hefðbundin kvennastörf eru talsvert verr launuð en karlastörf. Fólk sem starfar við ræstingar, umönnun og menntun barna, þjónustu við veikt fólk, fatlað fólk og aldrað fólk eru á einna lægstu launum í íslensku samfélagi. Atvinnuþátttaka kynjanna er svipuð — en ábyrgð þeirra á heimilishaldi og umönnun er enn afar ójöfn. Þá verður ekki beðið lengur eftir róttækum aðgerðum gegn kynbundnu og kynferðislegu ofbeldi sem yfir 40% kvenna verða fyrir á lífsleiðinni, en trans fólk, þ.m.t. kvár, konur með fötlun og konur af erlendum uppruna verða fyrir enn meira ofbeldi en aðrir hópar.

Yfirskrift verkfallsins er „Kallarðu þetta jafnrétti?” og vísar til þess að konur og kynsegin fólk fái ítrekað þau skilaboð að vegna þess að Ísland sé fremst meðal jafningja þegar kemur að jafnréttismálum, eigi þau ekki heimtingu á frekari aðgerðum. En við bíðum ekki lengur - og krefjumst aðgerða strax! Megin þemu verkfallsins eru kynbundið og kynferðislegt ofbeldi og kerfisbundið vanmat á störfum kvenna.

Konur og kvár í verkfalli þann 24. október á höfuðborgarsvæðinu og nágrenni safnast saman í baráttuhug á Arnarhóli þar sem útifundur fer fram kl. 14:00. Fleiri fundir eru í smíðum víðsvegar um Vestur-, Norður- og Austurland. Þá eru ýmsar uppákomur og viðburðir í smíðum á deginum sjálfum og í aðdraganda hans.

Aðstandendur kvennaverkfalls:
Aflið (Akureyri)
Bandalag kvenna í Reykjavík
Druslugangan
Druslubækur og Doðrantar
Delta Kappa Gamma, félag kvenna í fræðslustörfum
Femínísk fjármál
Femínistafélag HÍ
Félag um Fjöruverðlaunin, bókmenntaverðlaun kvenna á Íslandi
Hagsmunasamtök knattspyrnukvenna
IceFemin
Knúz.is
Kvenfélagasamband Íslands
Kvennahreyfing ÖBÍ
Kvennaráðgjöfin
Kvennasögusafn Íslands
Kvenréttindafélag Íslands
Rótin
Samtök um kvennaathvarf
Samtökin '78
Soroptimistasamband Íslands
Stígamót
UN Women
W.O.M.E.N. in Iceland – Samtök kvenna af erlendum uppruna
Alþýðusamband Íslands
Bandalag háskólamanna
BSRB
Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga
Kennarasamband Íslands
Ungar athafnakonur
WIFT – Konur í kvikmyndum og sjónvarpi
Q félagið - félag hinsegin stúdenta HÍ

Sjá vefsíðu Kvennaverkfalls

Talsmenn: Kvennaverkfallið er skipulagt af grasrót yfir þrjátíu samtaka og enginn einn talsmaður í forsvari, heldur margir. Óskum um viðtöl má beina til mín, Freyju Steingrímsdóttur, samskiptastjóra BSRB, og ég get aðstoðað við að finna viðmælendur og get svarað spurningum um praktísk atriði varðandi verkfallið.