Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

5. október 2023

Félagsfólk ánægt með tímarit Sameykis samkvæmt lesendakönnun Gallup

Tímarit Sameykis.

Eftir Axel Jón Ellenarson

Í könnun Gallup á lestri tímarits Sameykis kemur fram að 56 prósent félagsfólks las tímaritið sem kom út í maí sl. 26 prósent lásu tímartið síðustu tólf mánuði og 8 prósent hafa einhverntíma lesið það, en 9 prósent þeirra sem tóku þátt í könnuninni hafa ekki lesið tímaritið. Samtals hafa því 90 prósent lesið tímaritið á því tímabili sem spurt var um.

Þegar spurt var um hversu ánægt félagsfólk var með tímaritið eða óánægt svöruðu samtals 95 prósent því að það væri mjög ánægt, frekar ánægt og hvorki né ánægt, með tímaritið. Samtals 4 prósent svarenda voru frekar óánægðir eða mjög óánægðir með tímarit Sameykis.

Þegar spurt var hversu læsilegt félagsfólki þótti tímaritið vera, svöruðu 85 prósent það vera mjög læsilegt eða frekar læsilegt, en 15 prósent hvorki né læsileg. Eftir kyni svöruðu 98 prósent karla það vera mjög læsilegt eða frekar læsilegt, og 87 prósent kvenna sögðu það vera mjög læsilegt eða frekar læsilegt. Yngri en 30 ára sögðu 83 prósent það vera mjög læsilegt eða frekar læsilegt, og félagsfólk á aldrinum 30-39 ára sögðu 72 prósent það vera mjög læsilegt eða frekar læsilegt.

Samkvæmt könnuninn les félagsfólk mest um orlofsmál, réttindamál, veikindarétt, launaupplýsingar og launakannanir, viðtöl við félagsfólk, samningsbundnar launahækkanir, umfjallanir um vellíðan og heilbrigði, val á stofnun ársins, leiðaraskrif, þjóðfélagsmál ásamt umfjöllunum um húsnæðismál og efnahagsmál.

Félagsfólk gat skrifað athugasemdir í lok könnunarinnar og meðal þess sem óskað var eftir að fjallað verði meira um var:

• samningsbundin réttindi og baráttu fyrir einstökum málum
• kennslu fyrir félagsfólk að læra að lesa launaseðla og um skattþrep
• fræðslu um fjármál
• sagnfræðilega og menningarlega umfjöllun
• Sameyki, starf þess og baráttumál
• starfslok og lífeyrir
• fréttir á pólsku og ensku
• réttindi og missir þegar félagsfólk hættir á vinnumarkaði
• styrkjaumsóknir og viðtöl
• rétt félagsfólks vegna læknisþjónustu, forfalla vegna veikinda barna og viðbótalífeyrissparnað
• samspil lífeyrissjóða og Tryggingastofnunar og hvernig greiðslur úr lífeyrissjóði skerða greiðslur félagsfólks úr TR
• fleiri vandaðar greiningar um efnahags- og þjóðfélagsmál
• ungt fólk á vinnumarkaði og greinar fyrir nýtt félagsfólk

Þó nokkrar óskir voru um að hætt verði að prenta tímaritið og senda það heim til félagsfólks, það væri sóun á pappír og óumhverfisvænt. Helstu ástæður þess að tímaritið er gefið út á pappír er stefna Sameykis í útgáfumálum sem tekin er á félagslegum grunni. Félagið gefur út á pappír tímaritið, orlofsblað og ársskýrslu. Félagið reynir að gæta þess að spara eins mikið og hægt er við útgáfuna. Allt efni sem er gefið út er unnið innanhúss, m.a. greinaskrif, umbrot og hönnun ásamt hönnun auglýsinga sem birtast frá félaginu í allri útgáfunni. Þannig er mannauðurinn hjá félaginu vel nýttur. Þá er Tímarit Sameykis prentað á svansvottaðan umhverfisvænan pappír sem er í hringrásarferli svansins. Einnig eru notaðir svansvottaðir og umhverfisvænir jurtalitir en ekki jarðolíulitir við prentunina.


Samkvæmt alþjóðlegri rannsókn Naomi S. Baron, sem er málvísindakona og prófessor emeritus í málvísindum við American University í Washington, á lestri háskólanema sem út kom á bók 2015 (Words on Screen) kom fram að 92% þeirra töldu sig ná mestri einbeitingu við lestur af pappír og 86% töldu hann henta best til lesturs á námsefni háskóla. Þátttakendur í þeirra rannsókn töldu mun léttara að finna aftur þekkingaratriði í námsefni á pappír og endurlestur því auðveldari. Þá kom fram að lesendur telja sig gera fleira en eitt í einu meðan þeir lesa af skjá og töluðu þeir um mikið áreiti af öðru efni á rafrænum miðlum. Naomi S. Baron hefur gefið út fjölda bóka um málefnið.

Það má færa sterk rök fyrir því að lestur af pappír sé mikilvægur vegna lesskilnings því önnur upplifun er vissulega að lesa af pappír en af skjá. Lestur af skjá lýtur öðrum lögmálum því fólk skannar frekar texta á skjá.

Annað sem er vert að taka fram, er að tímaritið berst til alls félagsfólks sem er um 12 þúsund talsins, en aðeins um þriðjungur félagsfólks les vefinn samkvæmt tölfræði og greint er frá í ársskýrslu Sameykis sem finna má á vefsíðu félagsins. Á samfélagsmiðlinum Facebook er stéttarfélagið með um 6800 fylgjendur, því nær prentaða útgáfan til alls félagsfólks í Sameyki og þess vegna árangurríkasta leiðin við að ná til allra.

Umræðan um að hætta að gefa út prentaðan texta er vel þess virði að ræða og spennandi er að eiga samtalið um kosti þess og galla að lesa texta af pappír eða af skjá.

Fjöldi þeirra sem tóku þátt í könnuninni voru 873.

Höfundur er kynningarfulltrúi og ritstjóri hjá Sameyki.